Eyrbyggja saga

21. kafli

Eftir um vorið var það einn dag að Arnkell kallar á tal við sig Þórarin frænda sinn, Vermund og Álfgeir og spurði hver liðveisla þeim þætti vinveittust við sig, hvort þeir færu til þings "og kostum að því allra vina vorra," segir hann. "Kann vera að þá sé annaðhvort að menn sættist og mun yður það verða féskylt að bæta þá menn alla er þar létust eða fyrir sárum urðu. Það kann og vera ef á þingreiðina er hætt að vandræðin aukist ef málin eru með ofurkappi varin. Hinn er annar kostur," segir hann, "að leggja á allan hug að þér komist utan með lausafé yðvart en þá leikist um lönd sem auðið er, þau sem eigi verða seld."

Þeirrar liðveislu var Álfgeir fúsastur. Þórarinn kvaðst og eigi sjá efni sín til að bæta sakir þær allar með fé er gerst höfðu í þessum málum. Vermundur kvaðst eigi mundu skilja við Þórarin, hvort er hann vildi að hann færi utan með honum eða veita honum vígsgengi hér á landi. En Þórarinn kaus að Arnkell veitti þeim til utanferðar.

Síðan var maður sendur út á Eyri til Bjarnar stýrimanns að hann skyldi allan hug á leggja að búa skip þeirra sem fyrst mátti hann.
Hér er lýsing á kortinu...