Fljótsdæla saga

11. kafli

Þórir hét maður er bjó í Mýnesi fyrir austan Lagarfljót. Sá bær stendur mjög í miðju héraði. Þar er einn bær í milli og Eyvindarár, er Gróa bjó, er heitir á Finnsstöðum. Þórir var hægur maður og vinsæll. Hann var þá kvonlaus og hafði svo lengi verið. Hafði hann sett ýmsar matseljur fyrir bú sitt.

Þorgrímur er nefndur leysingi einn. Hann átti viðnefni og var kallaður tordýfill. Hafði hann unnið sig burt úr þrældómi og var áður þræll fastur á fótum. Hann var heimamaður Mýness-Þóris og skyldur honum mjög. Þorgrímur var lítill maður vexti og kviklegur, orðmargur og illorður, heimskur og illgjarn, og ef hann heyrði nokkurn mann vel látinn þæstist hann í móti og mátti eigi heyra og varð hann þeim öllum nokkra flýtu að fá.

Sá var siður víða í fyrndinni að lítt voru baðstofur og höfðu menn þá baksturelda stóra. Var þá víða gott til eldibranda því að öll héruð voru full af skógum. Þá var og svo húsaskipan að hvert hús stóð af enda annars en öngvar stofur. Þá var allt eitt, skáli sá er menn sátu í að mat og þar sváfu menn upp undan borðum hver úr sínu rúmi. En innar af skálanum voru lokhvílur og lágu þar í vildarmenn.

Það var eitt kvöld um haust er menn komu heim frá heyverki og eru gervir eldar stórir og kasta verkmenn klæðum og bakast við eldana. Þórir lá upp frá eldinum á klæðin og talaði við gesti sína.

Þá tók Þorgrímur til orða og mælti: "Oft mun að því koma að vér megum vel við una að vér höfum oss betur fengið húsbóndans en flestir aðrir. Munum vér og þess mega vilnast að hvergi mun slíkt að ganga sem hér í Mýnesi. Eða hvar vitið þér húsfreyju þá er yður þyki honum fullkosta og jafnvel hafi haldið risnu eftir sinn bónda sem hann eftir sína húsfreyju?"

Allir þögðu og svöruðu öngvu. Þá svarar Þorgrímur sér sjálfur: "Allgott er það að vita að eg vinn yður orðlausa og veldur það því að þér kunnið öngvu að svara."

Sá húskarl svarar honum er sat öðrumegin elds og nauta var vanur að gæta. Hann mælti við Þorgrím: "Oft er það um hagi þína að þú rausar það mart er eigi kemur til þín. Veit eg þá konu er það munu allir mæla að hún muni skörungur vera með konum sem Þórir með körlum og eigi minni rausn haldið eftir sinn bónda en Þórir eftir sína húsfreyju og má eg segja hvar hún situr. Farðu heiman vestur yfir Lagarfljót og upp á Arneiðarstaði. Þar býr sú kona er Droplaug heitir. Hana vitum vér best hafa setið eftir sinn bónda. Mun víðara mega til taka því að enginn mun hennar maki finnast á voru landi," sagði húskarl, "og þó víðara sé."

Þorgrímur svarar: "Það mun best að þegja nú og taka fyrir belgjarmunnann. En jafnan er eg málugur kallaður og er vel að það komi að í kvöld að eg svari því sem til liggur. Þá mættir þú það mæla að hún hafi vel unnað þeim bóndanum er hún átti er Þorvaldur var Þiðrandason og best hefir menntur verið í héraðinu ef hún hefði eigi lagt Svart þræl sinn í rekkju hjá sér. Og það er nú eigi færri manna orðrómur að Helgi Droplaugarson muni vera son Svarts þræls en Þorvalds."

Húskarl svarar: "Mikið telst þér á tungu og það er öðrum þykir ómælanda. Er það líklegast að þér taki um allt bak um síðir það er þú lýgur."

Þórir heyrir til tals þeirra og tekur til orðs í því er hann sprettur upp, hann hafði sprota í hendi og rekur um eyru Þorgrími og bað hann þegja og mæla eigi fleiri orð "er það líkara að þér vefjist tunga um höfuð. En bið eg alla þá sem hér eru við staddir, ef þeir þykjast nokkuð mér eiga betur að launa en Þorgrími, geri svo vel að enginn reiði þessi orð."

Margir hétu góðu um þetta að svo skyldi vera sem hann beiddi. En þó bar hinn veg raun á að enn voru eigi allir svo þagmælskir að þegðu yfir með og kemur oft að því sem mælt er að fer orð er um munn líður.

Þessi orð komu upp á Arneiðarstaði til eyrna Droplaugar og sonum hennar. Þeir voru þá eigi heima um daginn er Droplaug spurði þetta því að þeir höfðu það jafnan til skemmtanar að fara að rjúpum og báru heim byrðum. Þeir hentu að þessu mikið gaman og veiddu þeir ekki þann veg rjúpur sem aðrir menn. Ekki höfðu þeir net og skutu með snærisspjótum. Þeir báru heim þetta kvöld veiði og færðu móður sinni sem þeir voru vanir. Hún var jafnan vön að taka vel við þeim en þó var nú venjubrigði.

Hún var nú mjög hálfær og mælti fátt nema af styggð það er var, kvaðst aldrei hirða hvort þeir bæru heim krækilfætur nokkrar "mun eg aldrei búa að síður þó að þið farið ekki að slíku."

Helgi svarar: "Ekki mein er þér að þessu móðir því að þetta verður okkur fyrir og má þetta vel gera til matar mönnum. Verður oss vandlifað. Illa þykir ef vér höfumst ekki að eða höfum ólæti og er eigi víst að við getum svo gert að öllum líki vel."

Droplaug svarar: "Má og vera, við þessa iðn er þú hefur, að Þorgrími tordýfli þyki þú meir segjast í ætt Svarts þræls heldur en í ætt Þorvalds Þiðrandasonar eða annarra Njarðvíkinga eða enn annarra þeirra er mér þykja flestir íslenskir lítils virðir hjá þeim."

Helgi svarar: "Er svo móðir að ruglað er skapi þínu. En hafðu ráð mitt að því þó að þér þyki sem er að eg er ungur. Skipaðu aldrei skap þitt eftir hins versta manns orðum. Legg aldrei trúnað þinn á slíkt er enginn mun annarra. Mun Tordýfli jafnan heima það er illt er en þig mun þetta saka ekki. Nú mun eg móðir hugga þig í fám orðum, að annaðhvort mun vera að mér mun ætlaður aldur lítill eða Fljótsdælir munu sjálfir segja að eg er son Þorvalds Þiðrandasonar, margir skulu minni til þess reka, en eigi sonur Svarts þræls. Bið eg að þú gerir þér eigi angur að slíku því að svo mun eg gera."

Þá var Helgi Droplaugarson tólf vetra gamall og svo vel þroskaður að margir voru þeir fulltíða að aldri að bæði hafði Helgi við þeim afl og þroska. Grímur var tíu vetra og allvel menntur. Með þeim bræðrum var svo ástúðigt að hvorgi vildi ganga úr húsi út svo að annar væri eftir. Hún snýr í burt af tali þessu og inn. Þeir voru þar um veturinn lengi áfram og var Droplaug aldrei jafn blíð við þá sem áður og gáfu þeir að því öngvan gaum. Fóru þeir fram sínu athæfi sem þeir voru vanir. Líður af skammdegið.

Það var eina nótt að tekið var á fótum Grími. Þá var nýlýsi mikið. Hann spurði hver þar væri.

Helgi svarar: "Láttu hljótt. Má eg aldrei sofna. Vil eg að þú rísir upp því að nú er svo ljóst sem um dag. Vil eg að þú farir með mér."

"Hvað munum við nú að rjúpum fara um nætur?"

Helgi svarar: "Förum við austur yfir vatn og ofan til Eyvindarár að hitta Gróu frændkonu okkra því að mér leiðist fálæti móður minnar."

Grímur sprettur upp og klæðist og ganga út síðan. Þeir voru svo búnir hversdaglega að þeir voru í söluvaðmálskuflum mórendum, þar brækur að neðan. Feldi höfðu þeir til yfirhafnar. Snærisspjót höfðu þeir í höndum en hvorgi hafði afl að bera sverðið, svo var það mikið. Þeir sneru ofan af velli á Arneiðarstöðum og ofan á vatnsís.

Þá mælti Grímur: "Hví snýrð þú á ísana? Ekki er þar von rjúpna. Snúum upp í heiði."

Helgi svaraði: "Ekki ætla eg þann veg að fara því að þar er svo styggt að hvern dag er að farið. Vil eg fara ís ofan til Vallaness og ofan á Völlu, yfir Grímsá, svo ofan til Eyvindarár."

Þeir fóru þá leið því að Helgi varð að ráða hvert sinn. En er þeir koma neðan í Vallanes þá lýsti af degi. Síðan fara þeir út eftir skógum og skortir eigi fugl að veiða og veiddu þeir mart. Þeir komu út til Eyvindarár er alljóst var og tekur Gróa við þeim allvel og varð þeim einkar fegin og bað þá þar lengi að vera. Helgi játaði því. Eru þeir þar þennan dag.

Og aðra nótt fyrir dag er Helgi á fótum og vekur upp Grím bróður sinn, kvað vera veður gott að fara að rjúpum. Þeir ráðast til ferðar og ganga upp úr garði og upp hjá gerði því er heitir að Uppsölum. Og er þeir koma þar þá snýr Helgi ofan á Mýrar fyrir neðan skóga og út eftir héraði.

Grímur spurði hví hann færi svo "veit eg að eigi er fuglsins von á svell eða mýrar heldur er hans von um skóga eða heiðar."

"Komið mun þar verða. Þó mun eg fara út eftir brúnum fyrir ofan Finnsstaði og fyrir utan Mýnes og út til Snæholtsskóga. Nú munum við snúa upp til Tókastaða og svo utan með fjalli og heim til dögurðar til Eyvindarár."

Hrím var fallið á ísana og var vindlítið, ágætlega gott að ganga. Og er þeir fara út eftir brúnum fyrir ofan Finnsstaði þá lýsti af degi. Þeir sáu út frá Mýnesi hvar einn stakkgarður stóð fram í vatnið Lagarfljót. Þennan stakkgarð átti Mýness-Þórir. Og nú sjá þeir að hestur stóð undir garðinum og þar með tveir menn og gerði annar hlass en annar bar út heyið.

Helgi mælti: "Menn eru þar niðri í nesinu og er eigi ólíklegt Þorgrími tordýfli það er á hlassinu er."

"Hvað mun þig undir hvort hann er eða annar maður?"

Helgi svarar: "Mér er sagt að hann hafi mælt við mig illmæli og móður mína."

Grímur mælti: "Hvað sagðir þú við móður þína á hausti að hún skyldi eigi skipta skap sitt eftir hins versta manns orðum. Láttu nú eigi það á þig falla."

Helgi svarar: "Kom, og verð eg að finna hann og vil eg vita hvort nokkuð er einurð í honum en ekki mun eg gera honum til meins."
Hér er lýsing á kortinu...