Fljótsdæla saga

3. kafli

Þiðrandi hét maður. Hann bjó á þeim bæ er í Njarðvík heitir. Hún liggur milli Fljótsdalshéraðs og Borgarfjarðar. Þiðrandi átti mannaforráð um Njarðvík og upp í hérað að Selfljóti. Selfljót gengur fyrir austan úr heiðinni milli Gilsárteigs og Ormsstaða og svo fellur það ofan í Lagarfljót. Þetta gætir fyrir ofan reitinn en Lagarfljót fyrir vestan og er það kölluð Útmannasveit. Þetta var þá hundrað bónda eign og sjötigu. Þiðrandi var ríkur maður og þó vinsæll því að hann var hægur við sína undirmenn. Hann var sterkur og mikill vexti og haukur að hug. Hann bjó lengi og var gagnveitull. Og þá er hann var gamall maður var hann kallaður Þiðrandi hinn gamli. Og var hann og svo því að menn segja það að hann hefði sex vetur hins fjórtánda tigar. Hann var þá þó enn hress maður. Hann var virkur að fé og gekk hann þá jafnan að er húskarlar gáfu lítinn gaum að.

Það var einn vetur um brundtíð að húskarlar hans voru rónir á sjó að leita fiska en sumir að heyvi að hann gengur til hrútahúss síns þess er innan garðs var. Á því kvöldi komu allir fyrri heim en hann. Menn spyrja hvar hann mundi vera. Konur sögðu að hann hefði gengið til hrútahúss síns. Nú er hans leitað þangað. Situr hann fyrir utan garðinn þar hjá húsinu. Menn spyrja hví hann færi eigi heim. Hann segir sér gönguna óhæga verið hafa en kvað þá þó lítið um hafa batnað og sagði hrút einn hafa lostið sundur í sér lærlegginn. Var hann við þetta heim borinn og ger hvíla hans. Og eftir þetta lýstur í verkjum og blæs lærið mjög og þetta leiðir hann til bana.

Hann átti eftir tvo sonu. Hét hinn eldri Ketill en Þorvaldur hinn yngri. Hvortveggi þeirra bræðra var mikill vexti. Þorvaldur var manna sjálegastur, hljóður og fáskiptinn. Hann var hinn mesti samsmaður um flesta hluti. En Ketill var manna sterkastur í það mund. Hann var ljótur maður og þó höfðinglegur, dökkur og mikilúðlegur. Hann var manna hægastur hversdaglega en hann var þögull og fálátur snemma og var kallaður Þrum-Ketill. Gallar stórir voru á hans skapsmunum. Sumir kölluðu það meinsemd. Það kom að honum í hverjum hálfum mánuði að skjálfti hljóp á hans hörund svo að hver tönn í hans höfði gnötraði og hrærði hann upp úr rúminu og varð þá að gera fyrir honum elda stóra og leitað honum allra hæginda þeirra er menn máttu veita. Þessum hroll og kulda fylgdi bræði mikil og eirði hann þá öngvu því er fyrir varð, hvort sem var þili eða stafur eða menn, svo þó að eldar væru þá óð hann. Þá gekk hann undan húsum þili eða dyrabúning ef fyrir varð og gekk þetta á hverjum þeim degi er að honum kom og urðu menn þá alla vega að vægja til við hann sem máttu. En þá er af honum leið var hann hægur og stjórnsamur. Þetta kom og til mikils honum og mörgum öðrum þá er á leið ævi hans.

Systir þeirra bræðra hét Hallkatla dóttir Þiðranda hins gamla. Hún var gift Geiti Lýtingssyni er bjó í Krossavík norður í Vopnafirði. Geitir var vinsæll maður en forgangur Hallkötlu var einkar góður. Þau áttu tvo sonu. Hét hinn eldri Þorkell en Þiðrandi hinn yngri. Hann hafði nafn afa síns. Þessir bræður voru báðir vel menntir og þó sinn veg hvor. Þorkell var jarpur á hár, dökkur maður, lágur og þreklegur og kallaður manna minnstur þeirra sem þá voru, manna skjótlegastur og hvatastur sem raun bar á, því að hann átti oft við þungt að etja og bar sig í hvert sinn vel. Þiðrandi Geitisson var manna mestur og sterkastur. Fannst eigi sá maður í þann tíma er sæmilegri væri. Er og svo sagt að hann hafi hinn fjórði maður verið best menntur á öllu Íslandi, en annar maður er til nefndur Kjartan Ólafsson, hinn þriðji Höskuldur Þorgeirsson Ljósvetningagoða, en hinn fjórði Ingólfur Þorsteinsson er kallaður var Ingólfur hinn væni. Segja fróðir menn að öngvir hafi með slíkri menntan skapaðir verið á öllu Íslandi sem þessir fjórir menn og er svo mikið af sagt ásjónu þessara manna að margar konur fengu eigi haldið skapi sínu ef litu fegurð þeirra. Og það er alþýðurómur að þar eftir færi önnur menntan þeirra.
Hér er lýsing á kortinu...