Fljótsdæla saga

4. kafli

Hróar hét maður. Hann bjó á þeim bæ er að Hofi hét. Það er í Fljótsdalshéraði fyrir vestan Lagarfljót og fyrir utan Rangá en fyrir austan Jökulsá. Þessi sveit hefir tekið viðnefni af Hróari og heitir Hróarstunga. Hann fékk og viðnefni af Tungunni og var kallaður Tungugoði. Barnlaus maður var hann og átti mergð fjár. Hann var þá gamall maður.

Þess er getið að Hróar gerir heimanför sína norður til Vopnafjarðar. Hann kemur að kvöldi í Krossavík hina ytri. Geitir Lýtingsson tók við honum vel og ágætlega og bauð honum þar að sitja meðan hann vildi. Hróar Tungugoði er þar þrjár nætur.

Eftir það biður hann reka að hesta þeirra félaga og kvaðst þá vilja lýsa yfir erindum sínum "og er eg til þess hingað kominn að eg býð heim til fósturs Þiðranda syni þínum og ef þú vilt þetta þá gef eg honum eftir minn dag fé og staðfestu og ríki. En Þorkell taki þitt mannaforráð eftir þinn dag. Þykir mér þú því að eins mína ferð góða gera ef eg fæ þetta sem eg beiði. Mun okkur þá að þessum manni vera mikil styrkur að hann er sonur þinn en fóstri minn og erfingi."

Geitir kvaðst eigi nenna né vilja drepa hendi við svo miklum sæmdum.

Fer nú Þiðrandi austur með Hróari í Tungu og gerir Hróar til hans hvað öðru betur. Hefur Þiðrandi þar litla stund áður verið að það máttu allir sjá að Hróar unni honum mikið og þar út í frá alþýða manns, svo var hann vinsæll, og það hélst honum til dauðadags.

Var þá Þiðrandi sex vetra gamall er hann fór til fósturs úr Krossavík. Þorkell var þá tíu vetra.
Hér er lýsing á kortinu...