Þórir hét maður er bjó að Hrófá í
Steingrímsfirði. Hann var mikill hávaðamaður og heldur ódæll og óvinsæll. Hann varð missáttur við hirðmann Ólafs konungs í kaupstefnu í
Steingrímsfirði og særði konungsmann miklu sári. Á það mál var eigi sæst. Og er konungurinn frá þessi tíðindi þá mislíkaði honum sjá atburður.
Hann mælti þá við Þorgeir Hávarsson: "
Það vil eg Þorgeir að þú hefnir þessa áverka er hirðmaður minn fékk út á Íslandi og leiðir svo Íslendingum að berja á mínum mönnum."
Þorgeir svarar: "
Það væntir mig að eg muni hefnt fá þessa mótgerða er yður hafa gervar verið í þessu verki."
Konungur mælti: "
Því býð eg þér um þetta mál að eg hygg að þú munir minn vilja gera í þessu verki."
Þorgeir svarar: "
Skyldur er eg til þess að gera það sem þú vilt."
Þorgeir býr þá skip sitt snemma sumars út til
Íslands. Honum byrjar vel og kemur hann skipi sínu í Vaðil. Hann fer vestur á Reykjahóla og tekur til skálasmíðar. Sá maður hét Veglágur er var að skálasmíð með Þorgeiri og gerði sínum megin hvor þeirra skálann. Skálinn var um endilangt þilinn en eigi öðrum þiljum. Þau þili héldust allt til þess er Magnús biskup var að staðnum í Skálaholti hinn síðari.
Öndverðan vetur fór Þorgeir norður til
Steingrímsfjarðar til Hrófár. Með honum var í ferð Veglágur smiður. Þeir komu á bæinn síð um kveld og drepa á dyr. Kona ein gekk til hurðar og heilsar þeim og spyr þá að nafni. Þorgeir segir hið sanna til hverjir þeir voru. Hann spurði hvort Þórir bóndi væri heima. Hún segir hann heima vera.
Þorgeir mælti: "
Bið þú hann út ganga."
Hún gengur inn og segir Þóri að menn voru komnir úti "
þeir er þig vildu hitta."
Hann segir: "
Hverjir eru þeir menn?"
Hún svarar: "
Það ætla eg að kominn sé Þorgeir Hávarsson."
Þórir reis upp og tekur spjót sitt, gengur út í dyr og setur spjótsoddinn í þröskuldinn, heilsar þeim er komnir voru.
Þorgeir tók eigi kveðju hans. Hann mælti: "
Það er erindi mitt hingað að eg vil vita hvern sóma þú vilt gera konungsins Ólafs fyrir þann vansa er þú gerðir hirðmanni hans?"
Þórir svarar: "
Hvort ertu aðili málsins?"
Þorgeir svarar: "
Fyrir það mun ganga sem eg sé aðili þess máls því að eg hefi konungs umboð til þessa máls."
Þórir segir: "
Vera má að svo sé að þú hafir hans umboð en varla virðist mér svo sem eg heyri orð konungsins þó að þú mælir."
Þorgeir svarar: "
Satt er það að þú heyrir eigi hann sjálfan mæla en þó má vera að þú reynir nokkurt sinn hans ríki."
Og er minnstar vonir voru leggur Þorgeir spjótinu til Þóris. Það lag kom framan í fang honum og gekk þar á hol. Féll Þórir inn í dyrnar og dauður. Lítlu síðar snýr Þorgeir á brott og hans förunautur og er eigi sagt frá ferð hans fyrr en hann kemur heim á Reykjahóla.
Um þenna atburð orti Þormóður þetta erindi:
Ár man eg þegn, hinn er Þóris
þarfs fagrlega arfa,
hlýra hrafns, með geiri
happauðigr réð dauða.
Dýr hefndi svo sára,
slíkt fór allt af ríki,
Odds og ernir söddust
jóstýrandi hlýra.
Þann vetur voru stuldir miklir á Reykjahólum. Hurfu mönnum gripir margir úr hirslum og var svo mikill gangur að því að nálega úr hvers manns hirslum hvarf nokkuð hversu rammlegur lás sem fyrir var en þó var engi lásinn brotinn. Illugi Arason var heima á Hólum þann vetur. Eftir jól um veturinn heimta þeir bræður saman hjón sín.
Tekur Þorgils þá til orða: "
Það er öllum mönnum kunnigt að hér í vetur hafa verið miklar tökur. Hefir mart horfið úr lásum og lokum. Ætlum vér að hafa uppi rannsókn. Skal fyrst rannsaka hirslur okkrar bræðra en eftir það annarra manna og ef eigi finnst heima hér það er stolið er þá munum vér fara á aðra bæi að rannsaka menn."
Nú fór það fram að rannsakaðar voru hirslur manna og finnst eigi það er leitað var.
Veglágur smiður átti eina mikla kistu þá er eigi var rannsökuð. Þorgils mælti að Veglágur skyldi upp lúka kistunni og láta menn sjá hvað væri í.
Hann segir: "
Aldrei hefi eg rannsakaður verið sem þjófar og mun eg eigi lúka upp kistunni."
Þorgils mælti: "
Eigi er til þín eins leikur sjá ger. Hafa vorar kistur rannsakaðar verið og má þér það sem yfir margan gengur."
Þá segir Veglágur: "
Þótt þér hafið allir rannsakaðir verið þá mun eg þó eigi lúka upp mína kistu til rannsaks."
Illugi spratt þá upp og hafði eina handexi í hendi. Hann gengur að kistunni og mælti: "
Eg hefi að varðveita konungslykil þann er að öllum kistum gengur og lásum. Nú mun eg með þeim upp lúka kistunni ef þú vilt eigi selja mér lykil."
Veglágur sér að Illugi mun upp höggva kistuna ef hún væri eigi upp lokin, selur þá fram lykilinn. Illugi lýkur þá upp kistunni og finnur þar marga lykla þá er að gengu öllum lásum þeim er voru á Reykjahólum. Hann finnur þar í marga gripi þá er mönnum höfðu horfið þar. Þá þóttust menn vita að Veglágur mundi stolið hafa fénu því er horfið var. Er honum þá nauðgað til sagna. Gengur hann þá við mörgum stuldum og fylgir mönnum þar til er hann hafði féið fólgið úti í ýmsum stöðum.
Þá mælti Illugi: "
Ólífismaður sýnist mér Veglágur vera og er það mitt ráð að hann sé hengdur."
Þorgeir mælti: "
Eigi muntu svo vilja lúka við húskarl þinn."
Illugi svarar: "
Rangt sýnist mér vera að svo mikill þjófur gangi undan."
Þá segir Þorgeir: "
Hvað sem yður sýnist rétt vera um þetta mál þá mun yður þó verða maðurinn dýrkeyptur í þessu sinni og eigi mun hann af lífi tekinn ef eg má því ráða."
Illugi mælti: "
Mikið kapp leggur þú á með þjófum og muntu illt að verki hafa þar sem hann er. Og eigi mun jafnan þinn eiður fyrir honum standa þó að hann gangi nú undan. Nú fari hann í brott af Reykjanesi og komi aldrei síðan hér."
Þorgeir segir: "
Vel má svo vera."
Nú fylgir Þorgeir Veglági vestur á Laugaból í Laugadal til Bersa og Þormóðar og skorar á þá að þeir veiti Veglági vist til fardaga "
og flytjið hann til skips í Vaðil" og kveðst Þorgeir þá mundu flytja hann í brott af
Íslandi.
Þeir feðgar tóku við Veglági fyrir Þorgeir og var hann með þeim Þormóði um veturinn. Þorgeir fór aftur á Reykjahóla og var þar um veturinn.
(Úr Flateyjarbók)
([Það bar til um vorið eftir að þeir Þorgeir og Þormóður fóru norður á Strandir og allt norður til Horns. Og einn dag fóru þeir í bjarg að sækja sér hvannir og í einni tó er síðan er kölluð Þorgeirstó skáru þeir miklar hvannir. Skyldi Þormóður þá upp bera en Þorgeir var eftir. Þá brast aurskriða undan fótum hans. Honum varð þá það fyrir að hann greip um einn hvannjóla með grasinu og hélt þar niðri allt við rótina ella hefði hann ofan fallið. Þar var sextugt ofan á fjörugrjót. Hann gat þó eigi upp komist og hékk þar þann veg og vildi þó með öngu móti kalla á Þormóð sér til bjargar þó að hann félli ofan á annað borð og var þá bani vís sem vita mátti.
Þormóður beið uppi á hömrunum því að hann ætlaði að Þorgeir mundi upp koma. En er honum þótti Þorgeiri dveljast svo miklu lengur en von var að þá gengur hann ofan í skriðuhjallana. Hann kallar þá og spyr hví hann komist aldrei eða hvort hann hefir enn eigi nógar hvannirnar.
Þorgeir svarar þá með óskelfdri röddu og óttalausu brjósti: "
Eg ætla," segir hann, "
að eg hafi þá nógar að þessi er uppi er eg held um."
Þormóð grunar þá að honum muni eigi sjálfrátt um, fer þá ofan í tóna og sér vegsummerki að Þorgeir er kominn að ofanfalli. Tekur hann þá til hans og kippir honum upp enda var þá hvönnin nær öll upp tognuð. Fara þeir þá til fanga sinna.
En það má skilja í þessum hlut að Þorgeir var óskelfur og ólífhræddur og flestir hlutir hafa honum verið karlmannlega gefnir sakir afls og hreysti og allrar atgervi.
Segja menn að þeir hafi verið allir þrír á einni vist á Reykjahólum, Þorgeir, Þormóður og Grettir hinn sterki Ásmundsson, og hafi verið nær um afl þeirra tveggja og Grettis eins.
Segja menn og að Þorgísl hafi svo sagt að Lögbergi á alþingi er hann var spurður að veturtaksmönnum sínum hvort þeir mundu eigi röskvastir menn á öllu
Íslandi og síst kunna nokkuð að hræðast en hann svarar því svo að það væri eigi svo "
því að Grettir er myrkhræddur en Þormóður guðhræddur" en Þorgeir sagði hann ekki vætta hræðast kunna og síst bregða sér við nokkurn voveiflegan háska.
Síðan fóru þeir norðan af Ströndum með feng þann er þeir höfðu fengið. Fór Þorgeir heim á Reykjahóla en Þormóður á Laugaból.])
Um vorið bjó hann skip sitt. Veglágur kom til skips og tók Þorgeir við honum og flutti hann utan. Skipið kom við Orkneyjar. Rögnvaldur Brúsason var þá búinn til hernaðar því að víkingar margir lágu við eyjarnar þeir er rændu búendur og kaupmenn og vildi Rögnvaldur refsa þeim sín illvirki. Þorgeir selur þá skip sitt og réðst hann í lið með Rögnvaldi.
Veglágur fór upp á Skotland og gerðist þar mikill þjófur og var þar drepinn um síðir.
Rögnvaldi virðist Þorgeir vel og hans förunautum því að hann reyndist því meiri kappi sem hann kom í meiri mannraunir svo sem Þormóður orti um:
Njörðr gekk á skæ skorðu
Skeleggr, en það teljum,
hjaldrs, er herja vildi,
hjörgaldrs með Rögnvaldi.
Lítt sparði fjör fyrða
fremdar mildr að hildi,
drengs varð dáð að lengri,
djarfr Hávarar arfi.
Í hernaði varð Þorgeir ágætur maður að hug og vopnfimi og í öllum röskleik. Jarl varð ágætur af þessi ferð því að hann sigraðist hvar sem hann barðist um sumarið og gerði góðan frið búkörlum og kaupmönnum.