Gísla saga Súrssonar

12. kafli

Þorvarður hét maður er bjó í Holti. Húskarlar hans deildu um verk og hjuggust með ljáum og varð hvorttveggja sár. Kemur Vésteinn til og sættir þá og gerir svo að hvorumtveggja hugnar vel; ríður nú út til Dýrafjarðar og Austmenn, þrír saman.

En þeir koma undir Hest, Hallvarður og Hávarður, og fregna nú hið sanna um ferð Vésteins, riðu nú aftur sem þeir mega. Og er þeir koma til Mosvalla þá sáu þeir mannareið í miðjum dal og var þá leiti í millum þeirra; ríða nú í Bjarnardal og koma til Arnkelsbrekku; þar springa báðir hestarnir. Þeir renna þá af hestunum og kalla. Heyra þeir Vésteinn nú og voru þá komnir á Gemlufallsheiði og bíða nú og hittast þeir og bera upp erindi sín, bera nú fram peninginn, þann er Gísli sendi honum.

Hann tekur nú annan pening úr fégyrðli sínum og roðnar mjög á að sjá. "Satt eitt segið þig," segir hann, "og myndi eg aftur hafa horfið ef þið hefðuð hitt mig fyrr en nú falla vötn öll til Dýrafjarðar og mun eg þangað ríða enda er eg þess fús. Austmenn skulu hverfa aftur. En þig stígið á skip," segir Vésteinn, "og segið Gísla og systur minni þangaðkomu mína."

Þeir fara heim og segja Gísla. Hann svarar. "Svo verður nú að vera."

Vésteinn fer til Gemlufalls til Lútu frændkonu sinnar og lætur hún flytja hann yfir fjörðinn og mælti við hann: "Vésteinn," sagði hún, "vertu var um þig; þurfa muntu þess."

Hann er fluttur til Þingeyrar, þar bjó þá maður er Þorvaldur gneisti hét. Vésteinn gengur þar til húss og lét Þorvaldur honum heimilan hest sinn; ríður hann nú við hrynjandi og hefur sitt söðulreiði. Hann fylgir honum til Sandaóss og bauð að fylgja honum allt til Gísla. Hann kvað eigi þess þurfa.

"Margt hefur skipast í Haukadal," sagði hann, "og vertu var um þig."

Þeir skiljast nú. Ríður Vésteinn nú til þess er hann kemur í Haukadal og var á heiðviðri og tunglskin. En að þeirra Þorgríms þá láta þau inn naut, Geirmundur og kona sú er Rannveig hét; bæsir hún nautin en hann rekur inn að henni. Þá ríður Vésteinn þar um völl og hittir Geirmundur hann. Geirmundur mælti:

"Kom þú ekki hér á Sæból og far til Gísla og ver var um þig."

Rannveig hafði gengið út úr fjósinu, hyggur að manninum og þykist kenna og er nautin voru inn látin, þræta þau um manninn, hver verið hafði og ganga við það heim. Þeir Þorgrímur sitja við eld og spyr Þorgrímur ef þau hefðu nokkuð manna séð eða hitt eða um hvað þau þrættust.

"Eg þóttist kenna að Vésteinn var hér kominn," sagði Rannveig, "og var í blárri kápu og spjót í hendi og reið við hrynjandi."

"En hvað segir þú, Geirmundur?"

"Ógerla sá eg til en húskarl ætla eg Önundar úr Meðaldal og var í kápu Gísla en söðulreiði Önundar og í hendi fiskistöng og veðrar af upp.

"Nú mun ljúga annað hvort ykkar," sagði Þorgrímur, "og far þú, Rannveig, á Hól og vit hvað þar er títt."

Nú fór hún og kom til dyra er menn voru komnir til drykkju. Gísli var í dyrum úti og heilsaði henni og bauð henni þar að vera.

Hún kveðst heim skyldu,
"og vildi eg hitta Guðríði mey."

Gísli kallar á hana og varð ekki að erindum.

"Hvar er Auður, kona þín?" segir hún.

"Hér er hún," segir Gísli.

Hún gengur út og spurði hvað hún vildi. Hún kvað smá erindi ein og komust engin upp. Gísli bað hana gera annað hvort, vera þar eða fara heim. Hún fór heim og var þá nokkru heimskari en áður ef á mætti gæða en kunni engin tíðindi að segja.

En eftir um morguninn lét Vésteinn bera að sér töskur tvær er varningur var í og þeir bræður höfðu með farið, Hallvarður og Hávarður. Hann tók þar úr refil sextugan að lengd og höfuðdúk, tuttugu álna langan og ofið í glit af gulli í þrem stöðum, og mundlaugar þrjár, fáðar með gulli. Þetta bar hann fram og gaf systur sinni, Gísla og Þorkatli, svarabróður sínum, ef hann vildi þiggja. Gísli gengur og Þorkatlar tveir á Sæból til Þorkels bróður síns. Segir Gísli að Vésteinn var þar kominn og hann hefur gefið þeim báðum saman gripina og sýnir honum og biður hann af hafa slíkt er hann vill.

Þorkell svarar:
"Þó værir þú maklegur þó að þú eignaðist alla og vil eg eigi þiggja gripina; eigi eru launin sýnni en svo."

Og vill hann víst eigi þiggja. Nú fer Gísli heim og þykir honum um allt einn veg á horfast.
Hér er lýsing á kortinu...