Maður hét Þorgrímur og var kallaður nef. Hann bjó á
Nefsstöðum fyrir innan
Haukadalsá. Hann var fullur af gerningum og fjölkynngi og var seiðskratti sem mestur mátti verða. Honum bjóða þeir Þorgrímur og Þorkell til sín því að þeir höfðu þar og boð inni. Þorgrímur var hagur á járn og er þess við getið að þeir ganga til smiðju, báðir Þorgrímarnir og Þorkell, og síðan byrgja þeir smiðjuna. Nú eru tekin Grásíðubrot er Þorkell hafði hlotið úr skiptinu þeirra bræðra og gerir Þorgrímur þar af spjót og var það algert að kveldi; mál voru í og fært í hefti spannar langt. Nú verður þar að hvílast.
Frá því er sagt að Önundur úr
Meðaldal kom til boðs að Gísla og bregður honum á einmæli og sagði að Vésteinn væri út kominn, "
og er hans hingað von."
Gísli bregður við skjótt og kallar til sín húskarla sína, Hallvarð og Hávarð, og bað þá fara norður í
Önundarfjörð og hitta Véstein, "
og bera honum kveðju mína og það með að hann sé heima þar til er eg sæki hann heim og komi eigi til boðsins í Haukadal." og selur í hendur þeim knýtiskauta og var þar í peningur hálfur til jartegna ef hann tryði eigi sögu þeirra ella.
Síðan fara þeir og hafa skip úr
Haukadal og róa til
Lækjaróss og ganga þar á land og til bónda þess er þar bjó á
Bessastöðum, hann hét og Bessi. Þeir bera honum orð Gísla að hann léði þeim hesta tvo er hann átti og hétu Bandvettir er skjótastir voru í fjörðum. Hann ljær þeim hestana og ríða þeir uns þeir komu á
Mosvöllu og þaðan inn undir
Hest.
Nú ríður Vésteinn heiman og ber svo til að þá ríður hann undir melinn hjá
Mosvöllum er þeir bræður ríða hið efra og farast þeir hjá á mis.