Gísla saga Súrssonar

10. kafli

Nú líða misserin af hendi og kemur að fardögum. Þá heimtir Þorkell Gísla bróður sinn á tal við sig og mælti: "Svo er háttað, frændi," segir hann, "að mér er ráðabreytni nokkur í hug og í skapi; en því víkur svo við að eg vil að við skiptum fé okkar og vil eg ráðast til búlags með Þorgrími, mági mínum."

Gísli svarar: "Saman er bræðra eign best að líta og að sjá; að vísu er mér þökk á að kyrrt sé og skiptum engu."

"Ekki má svo lengur fram fara," segir Þorkell, "að við eigum búlag saman því að á því verður stórmikill skaði þar sem þú hefur jafnan einn haft önn og erfiði fyrir búinu en eg tek til einskis höndum, þess sem þrifnaður sé í."

"Tel þú nú ekki að því," segir Gísli, "meðan eg geri ekki orð á; höfum við nú hvorttveggja reynt að margt hefur verið um með okkur og fátt."

Þorkell mælti: "Ekki er undir hvað um er talað, skipta skal fénu að vísu; og fyrir því að eg beiði skiptis þá skaltu hafa bólstað og föðurleifð okkar en eg skal hafa lausafé."

"Ef ekki skal öðru við koma en við skiptum þá ger þú annaðhvort því að eg hirði eigi hvort eg geri að skipta eða kjósa."

Svo lauk að Gísli skipti en Þorkell kaus lausafé en Gísli hefur land. Þeir skiptu og ómegð; það voru börn tvö; hét sveinninn Geirmundur en Guðríður mærin og var hún með Gísla en Geirmundur með Þorkatli. Fer Þorkell til Þorgríms mágs síns og býr við hann; en Gísli hafði bú eftir og saknar einskis í að nú sé búið verra en áður. Og líður nú svo sumarið og kemur að veturnóttum.

Það var þá margra manna siður að fagna vetri í þann tíma og hafa þá veislur og veturnáttablót en Gísli lét af blótum síðan hann var í Vébjörgum í Danmörku en hann hélt þó sem áður veislum og allri stórmennsku. Og nú aflar hann til veislu mikillar þá er svo líður stundum sem áður var getið. Hann býður til veisluþeim báðum nöfnum, Þorkatli Eiríkssyni og Þorkatli auðga og mágum sínum, Bjartmarssonum og mörgum öðrum vinum og félögum.

Og þann dag er menn koma þar tekur Auður til orða: "Það er satt að segja að nú þykir mér eins manns vant, þess er eg vildi að hér væri."

"Hver er sá?" kvað Gísli.

"Það er Vésteinn, bróðir minn; hann myndi eg kjósa til að njóta hér fagnaðar með oss."

Gísli mælti: "Annan veg er mér þetta gefið því eg vildi gjarna gefa til að hann kæmi hér nú eigi."

Og fellur þetta þeirra tal þar niður.
Hér er lýsing á kortinu...