Gísla saga Súrssonar

15. kafli

Tókust nú upp leikar sem ekki hefði í orðið. Eiga þeir mágar oftast leik saman, Gísli og Þorgrímur, og verða menn eigi á sáttir hvor sterkari er en þó ætla flestir Gísla aflameiri. Þeir leika knattleika á tjörn þeirri er Seftjörn heitir; þar var jafnan fjölmennt.

Það var einn dag þá er flesta lagi var komið að Gísli bað jafnlega skipta til leiksins.

"Það viljum vér víst," segir Þorkell, "enda viljum vér að þú sparir þá ekki af við Þorgrím því að það orð flyst af að þú sparist við; en eg ynni þér allvel að þú fengir sem mesta virðing af ef þú ert sterkari."

"Ekki höfum við það reynt hér til," segir Gísli, "en þó má það vera að þar komi að við reynum."

Nú leika þeir og hefur Þorgrímur ekki við, felldi Gísli hann og bar út knöttinn. Þá vill Gísli taka knöttinn en Þorgrímur heldur honum og lætur hann eigi því ná. Þá fellir Gísli svo hart Þorgrím svo að hann hafði ekki við og af gekk skinnið af hnúunum en blóð stökk úr nösunum; af gekk og kjötið af knjánum.

Þorgrímur stóð seint upp; hann leit til haugsins Vésteins og mælti:

7
Geirr í gumna sárum
gnast; kannkat þat lasta.
Spjót brakaði í sárum mannsins
ekki get ég lastað það.


Gísli tók knöttinn á skeiði og rekur á milli herða Þorgrími svo að hann steypist áfram og mælti:

8
Böllr á byrðar stalli
brast; kannkat þat lasta.

Þorkell sprettur upp og mælti: "Nú má það sjá hver sterkastur er eða mestur atgervismaður er og hættum nú."

Og svo gerðu þeir. Tókust nú af leikarnir og líður á sumarið og fækkaðist nú heldur með þeim Þorgrími og Gísla.

Þorgrímur ætlaði að hafa haustboð að veturnóttum og fagna vetri og blóta Frey og býður þangað Berki bróður sínum og Eyjólfi Þórðarsyni og mörgu öðru stórmenni. Gísli býr og til veislu og býður til sín mágum sínum úr Arnarfirði og Þorkötlum tveimur og skorti eigi hálft hundrað manna að Gísla. Drykkja skyldi vera að hvorratveggja og var stráð gólf á Sæbóli af sefinu af Seftjörn.

Þá er þeir Þorgrímur bjuggust um og skyldu tjalda húsin en boðsmanna var þangað von um kveldið þá mælti Þorgrímur við Þorkel: "Vel kæmu oss nú reflarnir þeir hinu góðu er Vésteinn vildi gefa þér; þætti mér sem þar væri langt í milli hvort þú hefðir þá með öllu eða hefðir þú þá aldrei og vildi eg nú að þú létir sækja þá."

Þorkell svarar: "Allt kann sá er hófið kann og mun eg eigi eftir þeim senda."

"Eg skal það gera þá," sagði Þorgrímur og bað Geirmund fara.

Geirmundur svarar: "Vinna mun eg nokkuð en ekki er mér um að fara."

Þá gengur Þorgrímur að honum og slær hann buffeitt mikið og mælti: "Far nú þá ef þér þykir nú betra."

"Nú skal fara," sagði hann, "þó að nú sé verra; en vit það fyrir víst að hafa skal eg vilja til að fá þér fylu er þú færð mér fola og er þó eigi varlaunað."

Síðan fer hann. Og er hann kemur þar þá eru þau Gísli og Auður búin að láta upp tjöldin. Geirmundur ber upp erindið og sagði allt sem farið hafði.

"Hvort viltu, Auður, ljá tjöldin?" sagði Gísli.

"Eigi spyrð þú þessa af því að þú vitir eigi að eg vildi að þeim væri hvorki þetta gott gert né annað það er þeim væri til sæmdarauka."

"Hvort vildi Þorkell bróðir minn?" sagði Gísli.

"Vel þótti honum að eg færi eftir."

"Það skal ærið eitt til," sagði Gísli og fylgir honum á leið og fær honum gripina.

Gísli gengur með honum og allt að garði og mælti: "Nú er þann veg að eg þykist góða hafa gert ferð þína og vildi eg að þú værir mér nú leiðitamur um það sem mig varðar og sér æ gjöf til gjalda og vildi eg að þú létir lokur frá hurðum þremur í kveld; og mættir þú muna hversu þú varst beiddur til fararinnar.

Geirmundur svarar:
"Mun Þorkatli bróður þínum við engu hætt?"

"Við alls engu," sagði Gísli.

"Þá mun þetta áleiðis snúast," sagði Geirmundur.

Og nú er hann kemur heim kastar hann niður gripunum. Þá mælti Þorkell:
"Ólíkur er Gísli öðrum mönnum í þolinmæði og hefur hann betur en vér."

"Þessa þurfum vér nú," segir Þorgrímur og láta upp refilinn.

Síðan koma boðsmenn um kveldið. Og þykknar veðrið, gerir þá logndrífu um kveldið og hylur stígu alla.
Hér er lýsing á kortinu...