Maður hét Skegg-Bjálfi og átti skip í förum. Hann ætlaði til
Danmerkur suður. Þeir fala að honum skipið hálft en hann kveðst spurt hafa að þeir voru góðir drengir og gaf þeim hálft skipið og launa þeir þegar meir en fullu.
Nú fara þeir suður til
Danmerkur og í þann kaupstað er í
Vébjörgum heitir og eru þeir þar um veturinn með þeim manni er Sigurhaddur hét. Þeir voru þar þrír, Vésteinn, Gísli og Bjálfi og var gott vinfengi með þeim öllum og gjafaskipti. En snemma um vorið bjó Bálfi skip sitt til
Íslands.
Maður hét Sigurður, félagi Vésteins, norrænn að ætt og var þá á
Englandi vestur. Hann sendi Vésteini orð og kveðst vilja slíta félag við hann og þóttist eigi þurfa hans fjár lengur. Og nú biður Vésteinn leyfis að hann færi að hitta hann.
"
Því skaltu heita mér að þú farir aldrei brott af Íslandi ef þú kemur heill út nema eg leyfi þér."
Nú játar Vésteinn því.
Og einn morgun rís Gísli upp og gengur að smiðju; hann var allra manna hagastur og ger að sér um alla hluti. Hann gerði pening, þann er eigi stóð minna en eyri og hnitar saman peninginn og eru tuttugu naddar á, tíu á hvorum hlutnum, og þykir sem heill sé ef saman er lagður og má þó taka í sundur í tvo hluti.
En frá því er sagt að hann tekur í sundur peninginn og selur annan hlut í hendur Vésteini og biður þá þetta hafa til jartegna, og "
skulum við þetta því aðeins sendast á milli að líf annars hvors okkar liggi við. En mér segir svo hugur um að við munum þurfa að sendast á milli þó að við hittumst eigi sjálfir."
Nú fer Vésteinn vestur til
Englands en þeir Gísli og Bjálfi til
Noregs og út um sumarið til
Íslands og varð gott til fjár og góðrar sæmdar og skildu vel sitt félag og kaupir nú Bjálfi skip hálft að Gísla.
Nú fer Gísli vestur í
Dýrafjörð á byrðingi einum við tólfta mann.