Maður er nefndur Þorsteinn. Hann var sonur Þorkels kugga, Þórðarsonar gellis, Ólafssonar feilans, Þorsteinssonar rauðs, Auðarsonar djúpauðgu. Móðir Þorsteins Kuggasonar var Þuríður dóttir Ásgeirs æðikolls. Ásgeir var föðurbróðir Ásmundar hærulangs.
Þorsteinn Kuggason átti eftirmál um vígið Þorgils Mákssonar jafnfram Ásmundi hærulangi. Gerði hann nú orðsending til Þorsteins að hann kæmi til móts við hann. Þorsteinn var kappi mikill og ofstopamaður hinn mesti. Fór hann þegar til móts við Ásmund frænda sinn og töluðu þeir um vígsmálið. Var Þorsteinn hinn ákafasti, kvað hér eigi skyldu fébætur fyrir koma, sagði að þeir hefðu nógan frænda afla til þess að annaðhvort kæmi fyrir vígið sekt eða mannhefndir. Ásmundur kvaðst honum mundu að fund fylgja hverju sem hann vildi fram fara. Riðu þeir norður til Þorvalds frænda síns, og beiddi hann liðveislu en hann játaði honum því skjótt. Bjuggu þeir málið til á hendur Þorgeiri og Þormóði. Þorsteinn reið heim til bús síns. Hann bjó þá í Ljárskógum í Hvammssveit.
Skeggi bjó í Hvammi. Hann réðst í málið með Þorsteini. Skeggi var sonur Þórarins fylsennis, Þórðarsonar gellis. Móðir Skeggja var Friðgerður dóttir Þórðar frá Höfða.
Þeir fjölmenntu mjög til alþingis og héldu málum fram með miklu kappi. Riðu þeir Ásmundur og Þorvaldur norðan til með sex tigu manna og sátu í Ljárskógum margar nætur.