Ásmundur hærulangur bjó á Bjargi meðan Grettir var utan og þótti hann þá gildur bóndi í Miðfirði. Þorkell krafla andaðist á þeim tímum er Grettir var eigi á
Íslandi. Þorvaldur Ásgeirsson bjó þá í Ási í
Vatnsdal og gerðist höfðingi mikill. Hann var faðir Döllu er átti Ísleifur er síðan var biskup í Skálholti. Var Ásmundi að Þorvaldi hinn mesti styrkur til málafulltings og margra hluta annarra.
Með Ásmundi óx upp sá maður er Þorgils hét. Hann var kallaður Þorgils Máksson. Hann var náskyldur frændi Ásmundar. Þorgils var sterkur að afli og græddi mikið fé með umsjá Ásmundar. Keypti hann til handa Þorgilsi landið að Lækjamóti og bjó þar. Þorgils var aðdráttarmaður mikill og fór á Strandir hvert ár. Aflaði hann þar hvala og annarra fanga. Þorgils var fullhugi mikill. Hann fór allt á Almenninga hina eystri.
Í þenna tíma var uppgangur þeirra fóstbræðra sem mestur, Þorgeirs Hávarssonar og Þormóðar Kolbrúnarskálds. Þeir áttu ferju og létu víða verða til drepið og þóttu ekki miklir jafnaðarmenn.
Það bar til á einu sumri að Þorgils Máksson fann hval á Almenningum. Gekk hann þegar á skurð og hans félagar. En er þeir fóstbræður fréttu það fóru þeir þangað til og horfðist fyrst líklega á um umtal þeirra. Bauð Þorgils að þeir skyldu hafa að helmingi hvalinn þann er óskorinn var en þeir vildu hafa einir þann er óskorinn var ella skipta í helminga bæði skorinn og óskorinn. Þorgils þverneitti því að leggja þann af er skorinn var. Sló þá í heitan með þeim og því næst vopnuðust hvorirtveggju og börðust eftir það. Þorgeir og Þorgils sóttust lengi svo að engi skakkaði með þeim og var hvortveggi hinn ákafasti. Var þeirra viðskipti bæði hart og langt en sá varð endir á að Þorgils féll dauður fyrir Þorgeiri til jarðar. En Þormóður og aðrir fylgdarmenn Þorgils börðust við í öðrum stað. Sigraði Þormóður í þeirra viðskiptum. Féllu þrír félagar Þorgils fyrir honum.
Eftir víg Þorgils sneru fylgdarmenn hans aftur inn til Miðfjarðar og fluttu lík Þorgils með sér. Þótti mönnum að honum hinn mesti skaði. Þeir fóstbræður tóku þar allan hvalinn til sín. Þeirra fundar getur Þormóður í erfidrápu þeirri er hann orti um Þorgeir.
Ásmundur hærulangur frétti víg Þorgils frænda síns. Hann var aðili að eftirmálinu um víg Þorgils. Fór hann til og nefndi votta að benjum og stefndi málinu til alþingis því að þeim sýndist þá lög er málið hafði til borið í öðrum fjórðungi. Og liðu svo stundir fram.