Grettir reið á Þórhallsstaði og fagnaði bóndi honum vel. Hann spurði hvert Grettir ætlaði að fara en hann sagðist þar vilja vera um nóttina en bónda líkaði að svo væri.
Þórhallur kvaðst þökk fyrir kunna að hann væri "
en fám þykir slægur til að gista hér um tíma. Muntu hafa heyrt getið um hvað hér er að véla en eg vildi gjarna að þú komist heill á brott. Þá veit eg fyrir víst að þú missir hests þíns því engi heldur hér heilum sínum fararskjót sá er kemur."
Grettir kvað gott til hesta hvað sem af þessum yrði.
Þórhallur varð glaður við er Grettir vildi þar vera og tók við honum báðum höndum. Var hestur Grettis læstur í húsi sterklega. Þeir fóru til svefns og leið svo af nóttin að ekki kom Glámur heim.
Þá mælti Þórhallur: "
Vel hefir brugðið við þína komu því að hverja nótt er Glámur vanur að rísa, ríða húsum eða brjóta upp hurðir sem þú mátt merki sjá."
Grettir mælti: "
Þá mun vera annaðhvort að hann mun ekki lengi á sér sitja eða mun af venjast meir en eina nótt. Skal eg vera nótt aðra og sjá hversu fer."
Síðan gengu þeir til hests Grettis og var ekki við hann glest. Allt þótti bónda að einu fara.
Nú er Grettir þar aðra nótt og kom ekki þrællinn heim. Þá þótti bónda mjög vænkast. Fór hann þá að sjá hest Grettis. Þá var upp brotið húsið er bóndi kom til en hesturinn dreginn til dyra utar og lamið í sundur í honum hvert bein.
Þórhallur sagði Gretti hvar þá var komið og bað hann forða sér "
því að vís er dauðinn ef þú bíður Gláms."
Grettir svarar: "
Eigi má eg minna hafa fyrir hest minn en að sjá þrælinn."
Bóndi sagði að það var ekki bati að sjá hann "
því að hann er ólíkur nokkurri mannlegri mynd. En góð þykir mér hver sú stund er þú vilt vera."
Nú líður dagurinn og er menn skyldu fara til svefns vildi Grettir eigi fara af klæðum og lagðist niður í sætið gegnt lokrekkju bónda. Hann hafði röggvarfeld yfir sér og hneppti annað skautið niður undir fætur sér en annað snaraði hann undir höfuð sér og sá út um höfuðsmáttina. Setstokkur var fyrir framan sætið mjög sterkur og spyrnti hann þar í. Dyraumbúningurinn allur var frá brotinn útidyrunum en nú var þar fyrir bundinn hurðarflaki og óvendilega um búið. Þverþilið var allt brotið frá skálanum, þar fyrir framan hafði verið, bæði fyrir ofan þvertréið og neðan. Sængur allar voru úr stað færðar. Heldur var þar óvistulegt. Ljós brann í skálanum um nóttina.
Og er af mundi þriðjungur af nótt heyrði Grettir út dynur miklar. Var þá farið upp á húsin og riðið skálanum og barið hælunum svo að brakaði í hverju tré. Það gekk lengi. Þá var farið ofan af húsunum og til dyra gengið. Og er upp var lokið hurðunni sá Grettir að þrællinn rétti inn höfuðið og sýndist honum afskræmilega mikið og undarlega stórskorið. Glámur fór seint og réttist upp er hann kom inn í dyrnar. Hann gnæfaði ofarlega við rjáfrinu, snýr að skálanum og lagði handlegginn upp á þvertréið og gægðist innar yfir skálann. Ekki lét bóndi heyra til sín því að honum þótti ærið um er hann heyrði hvað um var úti. Grettir lá kyrr og hrærði sig hvergi. Glámur sá að hrúga nokkur lá í sætinu og ræður nú innar eftir skálanum og þreif í feldinn stundar fast. Grettir spyrnti í stokkinn og gekk því hvergi. Glámur hnykkti annað sinn miklu fastara og bifaðist hvergi feldurinn. Í þriðja sinn þreif hann í með báðum höndum svo fast að hann rétti Gretti upp úr sætinu, kipptu nú í sundur feldinum í millum sín. Glámur leit á slitrið er hann hélt á og undraðist mjög hver svo fast mundi togast við hann. Og í því hljóp Grettir undir hendur honum og þreif um hann miðjan og spennti á honum hrygginn sem fastast gat hann og ætlaði hann að Glámur skyldi kikna við. En þrællinn lagði að handleggjum Grettis svo fast að hann hörfaði allur fyrir orku sakir. Fór Grettir þá undan í ýmis sætin. Gengu þá frá stokkarnir og allt brotnaði það sem fyrir varð. Vildi Glámur leita út en Grettir færði við fætur hvar sem hann mátti en þó gat Glámur dregið hann fram úr skálanum. Áttu þeir þá allharða sókn því að þrællinn ætlaði að koma honum út úr bænum. En svo illt sem að eiga var við Glám inni þá sá Grettir að þó var verra að fást við hann úti og því braust hann í móti af öllu afli að fara út. Glámur færðist í aukana og hneppti hann að sér er þeir komu í anddyrið. Og er Grettir sér að hann fékk eigi við spornað hefir hann allt eitt atriðið að hann hleypur sem harðast í fang þrælnum og spyrnir báðum fótum í jarðfastan stein er stóð í dyrunum. Við þessu bjóst þrællinn eigi. Hann hafði þá togast við að draga Gretti að sér og því kiknaði Glámur á bak aftur og rauk öfugur út á dyrnar svo að herðarnar námu af dyrið og rjáfrið gekk í sundur, bæði viðirnir og þekjan frerin, féll svo opinn og öfugur út úr húsunum en Grettir á hann ofan. Tunglskin var mikið úti og gluggaþykkn. Hratt stundum fyrir en stundum dró frá.
Nú í því er Glámur féll rak skýið frá tunglinu en Glámur hvessti augun upp í móti. Og svo hefir Grettir sagt sjálfur að þá eina sýn hafi hann séð svo að honum brygði við. Þá sigaði svo að honum af öllu saman, mæði og því er hann sá að Glámur gaut sínum sjónum harðlega, að hann gat eigi brugðið saxinu og lá nálega í milli heims og heljar.
En því var meiri ófagnaðarkraftur með Glámi en flestum öðrum afturgöngumönnum að hann mælti þá á þessa leið: "
Mikið kapp hefir þú á lagið Grettir," sagði hann, "
að finna mig en það mun eigi undarlegt þykja þó að þú hljótir ekki mikið happ af mér. En það má eg segja þér að þú hefir nú fengið helming afls þess og þroska er þér var ætlaður ef þú hefðir mig ekki fundið. Nú fæ eg það afl eigi af þér tekið er þú hefir áður hreppt en því má eg ráða að þú verður aldrei sterkari en nú ertu og ertu þó nógu sterkur og að því mun mörgum verða. Þú hefir frægur orðið hér til af verkum þínum en héðan af mun falla til þín sektir og vígaferli en flest öll verk þín snúist þér til ógæfu og hamingjuleysis. Þú munt verða útlægur ger og hljóta jafnan úti að búa einn samt. Þá legg eg það á við þig að þessi augu séu þér jafnan fyrir sjónum sem eg ber eftir og mun þér erfitt þykja einum að vera. Og það mun þér til dauða draga."
Og sem þrællinn hafði þetta mælt þá rann af Gretti ómegin það sem á honum hafði verið. Brá hann þá saxinu og hjó höfuð af Glámi og setti þá við þjó honum. Bóndi kom þá út og hafði klæðst á meðan Glámur lét ganga töluna en hvergi þorði hann nær að koma fyrr en Glámur var fallinn. Þórhallur lofaði guð fyrir og þakkaði vel Gretti er hann hafði unnið þenna óhreina anda. Fóru þeir þá til og brenndu Glám að köldum kolum. Eftir það grófu þeir þar niður sem síst voru fjárhagar eða mannavegir. Gengu heim eftir það og var þá mjög komið að degi. Lagðist Grettir niður því að hann var stirður mjög.
Þórhallur sendi menn á næstu bæi eftir mönnum, sýndi og sagði hversu farið hafði. Öllum þótti mikils um vert um þetta verk þeir er heyrðu. Var það þá almælt að engi væri þvílíkur maður á öllu landinu fyrir afls sakir og hreysti og allrar atgervi sem Grettir Ásmundarson.
Þórhallur leysti Gretti vel af hendi og gaf honum góðan hest og klæði sæmileg því þau voru öll sundur leyst er hann hafði áður borið. Skildu þeir með vináttu. Reið Grettir þaðan í Ás í
Vatnsdal og tók Þorvaldur við honum vel og spurði innilega að sameign þeirra Gláms en Grettir segir honum viðskipti þeirra og kvaðst aldrei í þvílíka aflraun komið hafa, svo langa viðureign sem þeir höfðu saman átt.
Þorvaldur bað hann hafa sig spakan "
og mun þá vel duga en ella mun þér slysgjarnt verða."
Grettir kvað ekki batnað hafa um lyndisbragðið og sagðist nú miklu verr stilltur en áður og allar mótgerðir verri þykja. Í því fann hann mikla muni að hann var orðinn maður svo myrkfælinn að hann þorði hvergi að fara einn saman þegar myrkva tók. Sýndist honum þá hvers kyns skrípi. Og það er haft síðan fyrir orðtæki að þeim ljái Glámur augna eða gefi glámsýni er mjög sýnist annan veg en er.
Grettir reið heim til Bjargs er hann hafði gert erindi sín og sat heima um veturinn.