Grettis saga

36. kafli

Þorbjörn öxnamegin hafði haustboð mikið og kom þar margt manna. Þetta var meðan að Grettir fór norður til Vatnsdals um haustið.

Þorbjörn ferðalangur var þar að boðinu. Þar varð margt talað. Spurðu þeir Hrútfirðingar að sameign þeirra Grettis á hálsinum um sumarið. Þorbjörn öxnamegin bar Gretti allvel söguna, kvað Kormák verra mundu af hafa fengið ef öngvir hefðu til komið að skilja þá.

Þá mælti Þorbjörn ferðalangur: "Það var bæði," sagði hann, "að eg sá hann Gretti ekki til frægðar vinna enda hygg eg að honum skyti skelk í bringu er vér komum að og allfús var hann að skilja. Og ekki sá eg hann til hefnda leita er húskarl Atla var drepinn og í því ætla eg aldrei hug í honum ef hann hefir eigi nógan liðsafla."

Gerði Þorbjörn að þessu hið mesta gabb.

Margir tóku undir að þetta væri þarfleysuglens og Grettir mundi eigi svo búið hafa vilja ef hann frétti þessi orð. Ekki bar þar til tíðinda fleira að boðinu. Fóru menn heim. Voru dylgjur miklar með þeim um veturinn en hvorigir réðu á aðra. Bar þá ekki til tíðinda um veturinn.
Hér er lýsing á kortinu...