Grettis saga

38. kafli

Þórir hét maður er bjó í Garði í Aðaldal. Hann var Skeggjason Böðólfssonar. Skeggi hafði numið Kelduhverfi upp til Kelduness. Hann átti Helgu dóttur Þorgeirs á Fiskilæk. Þórir son hans var höfðingi mikill og siglingamaður. Hann átti tvo sonu. Hét Þorgeir annar en annar Skeggi. Þeir voru báðir efnilegir menn og mjög fulltíða er þetta var.

Þórir hafði verið í Noregi um sumarið þá er Ólafur konungur kom vestan af Englandi og kom sér þá í kærleika mikla við konung og svo við Sigurð biskup og það til marks um að Þórir hafði látið gera knörr mikinn í skógi og bað Sigurð biskup vígja og svo gerði hann. Eftir það fór Þórir út til Íslands og lét höggva upp knörrinn þá er honum leiddist siglingar en brandana af knerrinum lét hann setja yfir útidyr sínar og voru þeir þar lengi síðan og svo veðurspáir að í öðrum þaut fyrir sunnanveðri en í öðrum fyrir norðanveðri.

En er Þórir spurði að Ólafur konungur hafði fengið einn vald yfir öllum Noregi þóttist hann nú þar eiga að vitja vináttumála. Þá sendi Þórir syni sína til Noregs á konungs fund og ætlaði að þeir skyldu verða honum handgengnir. Komu þeir að sunnarlega síð um haustið og fengu sér eina róðraskútu og fóru norður með landi og ætluðu að fara á konungs fund. Þeir komu í höfn eina fyrir sunnan Stað og lágu þar nokkrar nætur. Þeir héldu sig vel að vist og drykk og höfðu sig ekki úti er eigi voru góð veður.

Nú er að segja frá er þeir Grettir fóru norður með landi og fengu oft hörð veður því að þetta var öndverðan vetur. Og þá er þeir sóttu norður að Staði fengu þeir illviðri mikið með fjúki og frosti og tóku nauðulega land eitt kveld, allir mjög væstir, og lögðu þar við bala nokkurn og gátu þá borgið fé sínu og föngum. Þeir bárust illa af, kaupmennirnir, því að þeir gátu eigi tekið eldinn. Þeim þótti þar nálega við liggja heilsa sín og líf. Lágu þeir þar um kveldið allilla staddir.

Þá er á leið kveldið sáu þeir að eldur kom upp mikill öðrumegin þess sunds er þeir voru þá við komnir. En er skipverjar Grettis sáu eldinn töluðu þeir til að sá væri heppinn er honum gæti náð og efuðust í hvort þeir leysa skyldu skipið en það sýndist öllum ei hættulaust. Þá höfðu þeir um tal mikið hvort nokkur maður mundi svo vel fær að næði eldinum. Grettir gaf sér fátt að og segir að verið mundu hafa þeir menn er það mundu ekki trauðað hafa.

Kaupmenn sögðu að sér væri ekki að borgnara hvað er verið hafði ef þá væri til einskis að taka "eða treystir þú þér Grettir?" sögðu þeir, "því að þú ert nú mestur atgervismaður af íslenskum mönnum kallaður en þú veist nú gjörla hvað oss liggur á."

Grettir svarar: "Eigi líst mér mikið þrekvirki að ná eldinum en eigi veit eg hvort þér launið betur en sá fer á leit er það gerir."

Þeir mæltu: "Því ætlar þú oss þá svívirðingarmenn að vér mundum það eigi góðu launa?"

"Reyna má eg þetta ef það er að yður þykir hér allmikið á liggja en eigi segir mér vænt hugur um að eg hafi gott að sök hér fyrir."

Þeir kváðu það eigi skyldu vera og kváðu hann mæla drengja heilastan.

Eftir það bjóst Grettir til sunds og kastaði af sér klæðunum. Hann fór í kufl einn klæða og söluvoðarbrækur. Hann stytti upp um sig kuflinn og rak að sér utan basttaug að sér miðjum og hafði með sér kerald. Síðan hljóp hann fyrir borð. Hann lagðist nú yfir þvert sundið og gekk þar á land. Hann sér þar standa eitt hús og heyrði þangað mannamál og glaum mikinn. Grettir sneri að húsinu.

Nú er að segja frá þeim sem fyrir voru að hér voru komnir þeir Þórissynir sem fyrr var getið. Þeir höfðu legið þar margar nætur og beðið þar veðurfalls að þeim gæfi norður fyrir Staði. Þeir höfðu sest til drykkju og voru tólf saman. Þeir lágu í meginhöfninni og var þar gert sæluhús mönnum þeim til ívistar er fara með landi fram og var borinn í húsið hálmur mikill. Eldur var og mikill á gólfinu.

Grettir ræður nú inn í húsið og vissi ekki hverjir fyrir voru. Kuflinn var sýldur allur þegar hann kom á land og var hann furðu mikill tilsýndar sem tröll væri. Þeim sem fyrir voru brá mjög við þetta og hugðu að óvættur mundi vera. Börðu þeir hann með öllu því er þeir fengu til og varð nú brak mikið um þá en Grettir hratt fast af handleggjum. Sumir börðu hann með eldibröndum. Hraut þá eldurinn um allt húsið. Komst hann við það út með eldinn og fór svo aftur til félaga sinna. Lofuðu þeir mjög hans ferð og frækleik og kváðu engvan hans jafningja mundu vera.

Leið nú af nóttin og þóttust þeir þegar hólpnir er þeir fengu eldinn. Um morguninn eftir var gott veður. Vöktu þeir við snemma kaupmennirnir og bjuggust til ferðar, töluðu þá um að þeir skyldu finna þá er fyrir eldinum höfðu ráðið og vita hverjir þeir væru. Leystu þeir nú skipið og fóru yfir sundið. Fundu þeir þá ekki skálann en sáu ösku þar, hrúgu mikla, og þar í fundu þeir mannabein mörg, þóttust nú vita að sæluhúsið mundi hafa brunnið allt upp og þeir menn sem þar höfðu í verið. Þeir spurðu hvort Grettir hefði ollað þessu óhappi og sögðu þetta hið mesta illvirki. Grettir kvað nú það fram komið er hann grunaði að þeir mundu honum illa eldsóknina launa og segir illt ódrengjum lið að veita. Af þessu fékk Grettir svo mikið ólið að kaupmenn sögðu hvar sem þeir komu að Grettir hefði þessa menn inni brennt.

Það fréttist nú brátt að í þessu húsi höfðu þeir látist Þórissynir úr Garði sem fyrr voru nefndir og fylgdarmenn þeirra. Nú ráku þeir Gretti í burt úr skipinu og vildu ekki hafa hann með sér. Varð hann nú svo fyrirlitinn að nær öngvir vildu honum gott gera. Þótti honum nú allóvænt horfa og vildi nú fyrir hvern mun fara á konungs fund og leitaði nú norður til Þrándheims. Þar var konungur fyrir og hafði spurt allt þetta áður Grettir kom. Var hann allmjög affluttur fyrir konunginum. Var Grettir nokkura daga í bænum áður hann næði að ganga á konungs fund.
Hér er lýsing á kortinu...