Nú var Grettir með Þorsteini það sem eftir var vetrarins og fram á vorið.
Það var einn morgun er þeir bræður Þorsteinn og Grettir lágu í svefnlofti sínu að Grettir hafði lagið hendur sínar undan klæðunum. Þorsteinn vakti og sá það. Grettir vaknaði litlu síðar.
Þá mælti Þorsteinn: "
Séð hefi eg handleggi þína frændi," segir hann, "
og þykir mér eigi undarlegt þó að mörgum verði þung högg þín því að einskis manns handleggi hefi eg slíka séð."
"
Vita máttir þú það," sagði Grettir, "
að eg mundi ekki slíku til leiðar koma sem eg hefi unnið ef eg væri eigi allknár."
"
Betur þætti mér," segir Þorsteinn, "
þó að væru mjórri og nokkuru gæfusamlegri."
Grettir segir: "
Satt er það sem mælt er að engi maður skapar sig sjálfur. Láttu mig nú sjá þína handleggi," segir hann.
Þorsteinn gerði svo. Hann var manna lengstur og grannvaxinn.
Grettir brosti að og mælti: "
Eigi þarf að horfa á þetta lengur. Krækt er saman rifjum í þér og eigi þykist eg slíkar tengur séð hafa sem þú berð eftir og varla ætla eg þig kvenstyrkan."
"
Vera má það," sagði Þorsteinn, "
en þó skaltu það vita að þessir hinir mjóvu handleggir munu þín hefna, ella mun þín aldrei hefnt verða."
"
Hvað má vita hversu verður um það er lýkur?" sagði Grettir, "
en allólíklegt þykir mér það vera."
Eigi er þá getið fleira um viðurtal þeirra. Leið nú á vorið. Kom Grettir sér í skip og fór út til
Íslands um sumarið. Skildu þeir bræður með vináttu og sáust aldrei síðan.