Grettis saga

42. kafli

Þar er nú til að taka er áður er frá horfið að Þorbjörn öxnamegin spurði víg Þorbjarnar ferðalangs sem fyrr var sagt. Brást hann reiður mjög og kveðst vilja að ýmsir ættu högg í annars garði.

Ásmundur hærulangur lá lengi sjúkur um sumarið og er honum þótti að sér draga heimti hann til sín frændur sína og sagði að hann vildi að Atli tæki við allri fjárvarðveislu eftir hans dag "en uggir mig," sagði Ásmundur, "að þú megir varla í kyrrðum sitja fyrir ójafnaði. En það vildi eg að allir mínir tengdamenn sinnuðu honum sem best. En til Grettis kann eg ekki að leggja því að mér þykir á hverfanda hjóli mjög um hans hagi. Og þó hann sé sterkur maður þá uggir mig að hann eigi meir um vandræði að véla en fulltingja frændum sínum. En þótt Illugi sé ungur þá mun hann þó verða þroskamaður ef hann heldur sér heilum."

Og er Ásmundur hafði skipað með sonum sínum sem hann vildi dró að honum sóttin. Andaðist hann litlu síðar og var jarðaður að Bjargi, því að Ásmundur hafði látið gera þar kirkju, og þótti héraðsmönnum það mikill mannskaði.

Atli gerðist nú gildur bóndi og hafði mannmargt með sér. Hann var aðfangamaður mikill. Að áliðnu sumri fór hann út á Snjófellsnes að fá sér skreið. Hann rak marga hesta og reið heiman til Mela í Hrútafjörð til Gamla mágs síns. Réðst þá til ferðar með Atla Grímur Þórhallsson, bróðir Gamla, við annan mann. Riðu þeir Haukadalsskarð vestur og svo sem liggur út á Nes, keyptu þar skreið mikla og báru á sjö hestum, sneru heimleiðis er þeir voru albúnir.
Hér er lýsing á kortinu...