Grettis saga

43. kafli

Þorbjörn öxnamegin spurði að Atli og Grímur voru heiman farnir. Voru hjá honum Þórissynir frá Skarði, Gunnar og Þorgeir. Þorbirni lék öfund á vinsældum Atla og því eggjaði hann þá bræður Þórissonu að þeir skyldu sitja fyrir Atla er þeir færu utan af Nesinu. Riðu þeir þá heim til Skarðs og biðu þar til þess er þeir Atli fóru upp um með lestina. En er þeir komu fram um bæinn á Skarði þá var sén för þeirra. Brugðu þeir bræður þá skjótt við með húskarla sína og riðu eftir þeim.

En er þeir Atli sáu ferð þeirra bað hann þá taka ofan klyfjarnar af hestunum "og munu þeir vilja bjóða mér bætur fyrir húskarl minn er Gunnar drap í fyrra sumar. Orkum ekki á fyrri en verjum hendur vorar ef þeir vekja fyrri við oss."

Nú koma hinir að og hlaupa þegar af baki. Atli fagnar þeim og spurði að tíðindum "eða viltu bæta mér nokkuru Gunnar fyrir húskarl minn?"

Gunnar svarar: "Annars væruð þér verðir Bjargsmenn en eg bæti það góðu. Væri og meiri bóta vert fyrir víg Þorbjarnar er Grettir vó."

"Ekki á eg því að svara," sagði Atli, "enda ertu ekki aðili þess máls."

Gunnar kvað nú fyrir það ganga mundu "og göngum að þeim og neytum þess nú að Grettir er nú eigi nærri."

Þeir hlupu að Atla og voru átta saman en þeir Atli sex saman. Atli gekk fram fyrir sína menn og brá sverðinu Jökulsnaut er Grettir hafði gefið honum.

Þá mælti Þorgeir: "Margt er líkt með þeim er góðir þykjast. Ofarlega bar Grettir saxið í fyrra sumar á Hrútafjarðarhálsi."

Atli svarar: "Hann mun og vanari við stórvirkin en eg."

Síðan börðust þeir. Gunnar sótti að Atla með ákefð og var hinn óðasti.

Og er þeir höfðu barist um stund mælti Atli: "Engi frami er í því að við drepum verkmenn hvor fyrir öðrum og er það næst að við sjálfir leikumst við því að eg hefi aldrei með vopnum vegið fyrr en nú."

Gunnar vildi það eigi.

Atli bað húskarla sína að geyma að lestinni "en eg mun sjá hvað þeir gera að" gekk þá svo hart fram að þeir Gunnar hrukku fyrir. Drap Atli þar tvo fylgdarmenn þeirra bræðra. Eftir það sneri hann á móti Gunnari og hjó til hans svo að í sundur tók skjöldinn fyrir neðan mundriða um þvert og kom á fótinn fyrir neðan knéð. Og þegar hjó hann annað högg svo að það varð að banasári.

Nú er að segja frá Grími Þórhallssyni að hann réðst á móti Þorgeiri og áttust þeir lengi við því að hvortveggi þeirra var hraustur maður. Þorgeir sá fall Gunnars bróður síns. Vildi hann þá undan leita. Grímur hljóp eftir honum og elti hann þar til að Þorgeir drap fæti og féll áfram. Þá hjó Grímur með öxi milli herða honum svo stóð á kafi. Þá gáfu þeir grið fylgdarmönnum þeirra þremur sem eftir voru. Eftir það bundu þeir sár sín og hófu upp klyfjar á hestana og fóru síðan heim og lýstu vígum þessum.

Sat Atli þá heima með fjölmenni um haustið. Þorbirni öxnamegin líkaði stórilla og gat þó ekki að gert því að Atli var mjög vinsæll. Grímur var með honum veturinn og svo Gamli mágur hans. Þar var þá og Glúmur Óspaksson, annar mágur hans. Hann bjó þá á Eyri í Bitru. Höfðu þeir setu fjölmenna á Bjargi og var þar glaumur mikill um veturinn.
Hér er lýsing á kortinu...