Þorbjörn öxnamegin tók við eftirmáli um víg Þórissona. Bjó hann málið til á hendur þeim Grími og Atla en þeir bjuggu til varna um aðfarir og frumhlaup til óhelgi þeim bræðrum. Voru málin lögð til Húnavatnsþings og fjölmenntu mjög hvorirtveggju. Varð Atla gott til liðs því að hann átti frændafla mikinn. Gengu þá að beggja vinir, töluðu um sættir og sögðu allir að Atla væri vel um farið, ótilleitinn en þó öruggur í einangri. Þóttist Þorbjörn sjá að eigi mundi annað virðingarvænna en taka sættinni. Skildi Atli það til að hann vildi hafa hvorki héraðssektir né utanferðir.
Voru þá teknir menn til gerðar, Þorvaldur Ásgeirsson fyrir hönd Atla, en af Þorbjarnar hendi var Sölvi hinn prúði. Hann var son Ásbrands Þorbrandssonar, Haraldssonar hrings er numið hafði Vatnsnes allt utan til Ambáttarár fyrir vestan en fyrir austan allt inn til Þverár og þar yfir um þvert til Bjargaóss og allt þeim megin Bjarga út til sjóvar. Sölvi var ofláti mikill og vitur maður og því kjöri Þorbjörn hann fyrir til gerðar fyrir sína hönd.
Og eftir það sögðu þeir upp gerðina, að þá Þórissonu skyldi bæta hálfum bótum en hálfar féllu niður fyrir aðför og frumhlaup og fjörráð við Atla. Víg húskarls Atla þess er var drepinn á Hrútafjarðarhálsi, stóðst það á endum og þeirra tveggja er féllu með Þórissonum. Grímur Þórhallsson skyldi láta héraðsvist sína en Atli vildi einn halda upp fébótum.
Þessi gerð líkaði Atla vel en Þorbirni heldur illa og skildu þó sáttir að kalla en þó hraut það upp fyrir honum Þorbirni að eigi mundi fyrir enda um gert með þeim ef svo færi sem hann vildi. Atli reið heim af þinginu og þakkaði Þorvaldi vel fyrir liðveislu sína. Grímur Þórhallsson réðst þá suður í
Borgarfjörð og bjó þá að
Gilsbakka og var gildur bóndi.