Nú er að segja frá Hrafni að hann sat að brúðlaupi sínu að Borg og er það flestra manna sögn að brúðurin væri heldur döpur, og er það satt sem mælt er að lengi man það er ungum getur og var henni nú og svo.
Það varð til nýlundu þar að veislunni að sá maður bað Húngerðar Þóroddsdóttur og Jófríðar er Svertingur hét og var Hafur-Bjarnarson Molda-Gnúpssonar og skyldu þau ráð takast um veturinn eftir jól uppi að Skáney. Þar bjó Þorkell frændi Húngerðar, son Torfa Valbrandssonar. Móðir Torfa var Þórodda systir Tungu-Odds.
Hrafn fór heim til
Mosfells með Helgu konu sína. Og er þau höfðu þar skamma stund verið þá var það einn morgun áður þau risu upp að Helga vakir en Hrafn svaf og lét hann illa í svefni. Og er hann vaknaði spyr Helga hvað hann hefði dreymt.
Hrafn kvað þá vísu:
Hugðumst orms á armi
ý döggvar þér höggvinn,
væri, brúðr, í blóði
beðr þinn roðinn mínu,
knættit endr um undir
ölstafns Njörun Hrafni,
líka getr það lauka
lind, höggþyrnis binda.
Helga mælti: "
Það mun eg aldrei gráta," segir hún. "
Hafið þér illa svikið mig. Mun Gunnlaugur út kominn" og grét Helga þá mjög.
Og litlu síðar fluttist útkoma Gunnraugs. Helga gerðist þá svo stirð við Hrafn að hann fékk eigi haldið henni heima þar og fóru þau þá heim aftur til
Borgar og nýtti Hrafn lítið af samvistum við hana.
Nú búast menn til boðs um veturinn.
Þorkell frá Skáney bauð Illuga svarta og sonum hans. Og er Illugi bóndi bjóst þá sat Gunnlaugur í stofu og bjóst ekki.
Illugi gekk til hans og mælti: "
Hví býst þú ekki frændi?"
Gunnlaugur svarar: "
Eg ætla eigi að fara."
Illugi mælti: "
Fara skaltu víst frændi," segir hann, "
og slá ekki slíku á þig að þrá eftir einni konu og lát sem þú vitir eigi og mun þig aldrei konur skorta."
Gunnlaugur gerði sem faðir hans mælti og komu þeir til boðsins og var þeim Illuga og sonum hans skipað í öndvegi en þeim Þorsteini Egilssyni og Hrafni mági hans og sveitinni brúðguma í annað öndvegi gegnt Illuga.
Konur sátu á palli og sat Helga hin fagra næst brúðinni og renndi oft augum til Gunnlaugs, og kemur þar að því sem mælt er að eigi leyna augu ef ann kona manni. Gunnlaugur var þá vel búinn og hafði þá klæðin þau hin góðu er Sigtryggur konungur gaf honum og þótti hann þá mikið afbragð annarra manna fyrir margs sakir, bæði afls og vænleiks og vaxtar.
Lítil var gleði manna að boðinu. Og þann dag er menn voru í brottbúningi þá brugðu konur göngu sinni og bjuggust til heimferðar. Gunnlaugur gekk þá til tals við Helgu og töluðu lengi.
Og þá kvað Gunnlaugur vísu:
Ormstungu varð engi
allr dagr und sal fjalla
hægr síð er Helga hin fagra
Hrafns kvonar réð nafni.
Lítt sá höldr hinn hvíti,
hjörþeys, faðir meyjar,
gefin var Eir til aura
ung, við minni tungu.
Og enn kvað hann:
Væn á eg verst að launa,
vín-Gefn, föður þínum,
fold nemr flaum af skaldi
flóðhyrs, og svo móður,
því að gerðu Bil borða
bæði senn und klæðum,
herr hafi hölds og svarra
hagvirki, svo fagra.
Og þá gaf Gunnlaugur Helgu skikkjuna Aðalráðsnaut og var það gersemi sem mest. Hún þakkaði honum vel gjöfina.
Síðan gekk Gunnlaugur út og voru þá komin hross og hestar söðlaðir og margir allvænlegir og bundnir heima á hlaðinu. Gunnlaugur hljóp á bak einhverjum hesti og reið á skeið eftir túninu og að þangað er Hrafn stóð fyrir og varð Hrafn að opa undan.
Gunnlaugur mælti: "
Ekki er að opa undan Hrafn," segir hann, "
fyrir því að önga ógn býð eg þér að sinni en þú veist til hvers þú hefir unnið."
Hrafn svarar og kvað vísu:
Samira okkr um eina,
Ullr beinflugu, Fullu,
frægir fólka Ságu,
fangs í brigð að ganga.
Mjök eru margar slíkar,
morðrunnr, fyrir haf sunnan,
ýti eg sævar Sóta,
sannfróðr, konur góðar.
Gunnlaugur svarar: "
Vera má," segir hann, "
að margar séu en eigi þykir mér svo."
Þá hlupu þeir Illugi að og Þorsteinn og vildu ekki að þeir ættust við.
Þá kvað Gunnlaugur vísu:
Gefin var Eir til aura
ormdags hin litfagra,
þann kveða menn né minna
minn jafnoka, Hrafni,
allra nýstr meðan austan
Aðalráðr farar dvaldi,
því er menrýris minni
málgráðr, í gný stála.
Og eftir þetta riðu menn heim hvorirtveggju og var allt kyrrt og tíðindalaust um veturinn. Nýtti Hrafn ekki síðan af samvistum við Helgu þá er þau Gunnlaugur höfðu fundist.
Og um sumarið riðu menn fjölmennir til þings, Illugi svarti og synir hans með honum Gunnlaugur og Hermundur, Þorsteinn Egilsson og Kollsveinn son hans, Önundur frá
Mosfelli og synir hans allir, Svertingur Hafur-Bjarnarson.
Skafti hafði þá enn lögsögn.
Og einn dag á þinginu er menn gengu fjölmennir til Lögbergs og er þar var lykt að mæla lögskilum þá kvaddi Gunnlaugur sér hljóðs og mælti: "
Er Hrafn hér Önundarson?"
Hann kveðst þar vera.
Gunnlaugur ormstunga mælti þá: "
Það veist þú að þú hefir fengið heitkonu minnar og dregst til fjandskapar við mig nú fyrir það. Vil eg bjóða þér hólmgöngu hér á þinginu á þrigga nátta fresti í Öxarárhólmi."
Hrafn svarar: "
Þetta er vel boðið sem von var að þér," segir hann, "
og em eg þessa albúinn þegar þú vilt."
Þetta þótti illt frændum hvorstveggja þeirra en þó voru það lög í þann tíma að bjóða hólmgöngu sá er vanhluta þóttist verða fyrir öðrum.
Og er þrjár nætur voru liðnar bjuggust þeir til hólmgöngu og fylgdi Illugi svarti syni sínum til hólmsins með miklu fjölmenni. En Skafti lögmaður fylgdi Hrafni og faðir hans og aðrir frændur hans.
Og áður Gunnlaugur gengi út í hólminn þá kvað hann vísu þessa:
Nú em eg út á eyri
alvangs búinn ganga,
happs unni guð greppi,
gert, með tognum hjörvi.
Hnakk skal Helgu lokka,
haus vinn eg frá bol lausan
loks með ljósum mæki
ljúfsvelgs, í tvö kljúfa.
Hrafn svarar og kvað þetta:
Veitat greppr hvor greppa
gagnsælli hlýtr fagna.
Hér er bensigðum brugðið.
Búin er egg í leggi.
Það mun ein og ekkja
ung mær, þó að við særumst,
þorna spöng af þingi
þegns hugrekki fregna.
Hermundur hélt skildi fyrir Gunnlaug bróður sinn en Svertingur Hafur-Bjarnarson fyrir Hrafn. Þrem mörkum silfurs skyldi sá leysa sig af hólminum er sár yrði.
Hrafn átti fyrr að höggva er á hann var skorað og hjó hann í skjöld Gunnlaugs ofanverðan og brast sverðið þegar sundur undir hjöltunum er til var hoggið af miklu afli. Blóðrefillinn hraut upp af skildinum og kom á kinn Gunnlaugi og skeindist hann heldur en eigi. Þá hlupu feður þeirra þegar á millum og margir aðrir menn.
Þá mælti Gunnlaugur: "
Nú kalla eg að Hrafn sé sigraður er hann er slyppur."
"
En eg kalla að þú sért sigraður," segir Hrafn, "
er þú ert sár orðinn."
Gunnlaugur var þá allæfur og reiður mjög og kvað ekki reynt vera. Illugi faðir hans kvað þá eigi skyldu reyna meir að sinni.
Gunnlaugur svarar: "
Það mundi eg vilja," segir hann, "
að við Hrafn mættumst svo öðru sinni að þú værir fjarri faðir að skilja okkur."
Og við þetta skildu þeir að sinni og gengu menn heim til búða sinna.
Og annan dag eftir í lögréttu var það í lög sett að af skyldi taka hólmgöngur allar þaðan í frá og var það gert að ráði allra vitrustu manna er við voru staddir en þar voru allir þeir er vitrastir voru á landinu. Og þessi hefir hólmganga síðast framin verið á
Íslandi er þeir Hrafn og Gunnlaugur börðust. Það hefir hið þriðja þing verið fjölmennast, annað eftir brennu Njáls, hið þriðja eftir Heiðarvíg.
Og einn morgun er þeir bræður Hermundur og Gunnlaugur gengu til Öxarár að þvo sér þá gengu öðrumegin að ánni konur margar og var þar Helga hin fagra í því liði.
Þá mælti Hermundur: "
Sérð þú Helgu vinkonu þína hér fyrir handan ána?"
Gunnlaugur svarar: "
Sé eg hana víst."
Og þá kvað Gunnlaugur vísu þessa:
Alin var rýgr að rógi,
runnr olli því Gunnar,
lág var eg auðs að eiga
óðgjarn, fira börnum.
Nú eru svanmærrar síðan
svört augu mér bauga
lands til lýsi-Gunnar
lítilþörf að líta.
Síðan gengu þeir yfir ána og töluðu þau Helga og Gunnlaugur um stund. Og er þeir gengu austur yfir ána þá stóð Helga og starði á Gunnlaug lengi eftir.
Gunnlaugur leit þá aftur yfir ána og kvað vísu þessa:
Brámáni skein brúna
brims af ljósum himni
Hristar hörvi glæstrar
haukfránn á mig lauka.
En sá geisli sýslar
síðan gullmens Fríðar
hvarma tungls og hringa
Hlínar óþurft mína.
Og eftir þetta um liðið riðu menn heim af þinginu og var Gunnlaugur heima á
Gilsbakka.
Og einn morgun er hann vaknaði þá voru allir menn upp risnir nema hann lá. Hann hvíldi í lokrekkju innar af seti. Þá gengu í skálann tólf menn, allir alvopnaðir, og var þar kominn Hrafn Önundarson. Gunnlaugur spratt upp þegar og gat fengið vopn sín.
Þá mælti Hrafn: "
Við öngu skal þér hætt vera," segir hann, "
en það er erindi mitt hingað að þú skalt nú heyra. Þú bauðst mér hómgöngu í sumar á alþingi og þótti þér sú ekki reynd verða. Nú vil eg þér bjóða að við förum báðir á brott af Íslandi og utan í sumar og göngum á hólm í Noregi. Þar munu eigi frændur okkrir fyrir standa."
Gunnlaugur svarar: "
Mæl drengja heilastur og þenna kost vil eg gjarna þiggja. Og er hér að þiggja Hrafn," segir hann, "
þann greiða sem þú vilt."
Hrafn svarar: "
Það er vel boðið en ríða munum vér fyrst að sinni."
Og við þetta skildu þeir.
Þetta þótti frændum hvorstveggja þeirra stórum illa en fengu þó ekki að gert fyrir ákafa þeirra sjálfra enda varð það fram að koma sem til dró.