Nú er að segja frá Gunnlaugi að hann fór af Svíþjóðu það sumar til
Englands er Hrafn fór til
Íslands og þá góðar gjafir af Ólafi konungi að skilnaði þeirra. Aðalráður konungur tók við Gunnlaugi allvel og var hann með honum um veturinn með góðri sæmd.
Í þenna tíma réð fyrir
Danmörku Knútur hinn ríki Sveinsson og hafði nýtekið við föðurleifð sinni og heitaðist jafnan að herja til
Englands fyrir því að Sveinn konungur faðir hans hafði unnið mikið ríki á
Englandi áður hann andaðist vestur þar. Og í þann tíma var mikill her danskra manna vestur þar og var sá höfðingi fyrir er Hemingur hét, son Strút-Haralds jarls og bróðir Sigvalda jarls, og hélt hann það ríki undir Knút konung er Sveinn konungur hafði áður unnið.
Um vorið bað Gunnlaugur konunginn sér orlofs til brottferðar.
Hann svarar: "
Ei samir þér nú að fara frá mér til slíks ófriðar sem nú horfir hér í Englandi þar sem þú ert minn hirðmaður."
Gunnlaugur svarar: "
Þér skuluð ráða minn herra og gef mér orlof að sumri til brottferðar ef Danir koma eigi."
Konungur svarar: "
Sjáum við þá."
Nú leið það sumar og veturinn eftir og komu Danir eigi. Og eftir mitt sumar fékk Gunnlaugur orlof til brottferðar af konungi og fór Gunnlaugur þaðan austur til
Noregs og fann Eirík jarl í Þrándheimi á Hlöðum og tók jarl honum þá vel og bauð honum þá með sér að vera. Gunnlaugur þakkar honum boðið og kveðst þó vilja fara fyrst út til
Íslands á vit festarmeyjar sinnar.
Jarl mælti: "
Nú eru öll skip í brottu, þau er til Íslands bjuggust."
Þá mælti hirðmaður einn: "
Hér lá Hallfreður vandræðaskáld í gær út undir Agðanesi."
Jarl svarar: "
Svo má vera," segir hann. "
Hann sigldi héðan fyrir fimm náttum."
Eiríkur jarl lét þá flytja Gunnlaug út til Hallfreðar. Hallfreður tók við honum með fagnaði og gaf þegar byr undan landi og voru vel kátir. Það var síð sumars.
Hallfreður mælti til Gunnlaugs: "
Hefir þú frétt bónorðið Hrafns Önundarsonar við Helgu hina fögru?"
Gunnlaugur kveðst frétt hafa og þó ógjörla. Hallfreður segir honum slíkt sem hann vissi af og það með að margir menn mæltu það að Hrafn væri ei óröskari en Gunnlaugur.
Gunnlaugur kvað þá vísu:
Ræki eg lítt þó leiki,
létt veðr er nú, þéttan
austanvindr að öndri
andness viku þessa.
Meir sjáumk hitt, en hæru
hoddstríðandi bíðit,
orð að eg eigi verði
jafnröskr taliðr Hrafni.
Hallfreður mælti þá: "
Þess þyrfti félagi að þér veitti betur málin við Hrafn en mér. Eg kom skipi mínu í Leiruvog fyrir neðan Heiði fyrir fám vetrum og átti eg að gjalda hálfa mörk silfurs húskarli Hrafns og hélt eg því fyrir honum. En Hrafn reið til vor með sex tigu manna og hjó strengina og rak skipið upp á leirur og búið við skipbroti. Varð eg þá að selja Hrafni sjálfdæmi og galt eg mörk og eru slíkar mínar að segja frá honum."
Og þá varð þeim eintalað um Helgu og lofaði Hallfreður mjög vænleik hennar.
Gunnlaugur kvað þá:
Munat háðvörum hyrjar
hríðmundaðar Þundi
hafna hörvi drifna
hlýða jörð að þýðast
því að lautsíkjar lékum
lyngs, er vorum yngri,
alnar gims á ýmsum
andnesjum því landi.
"
Þetta er vel ort," segir Hallfreður.
Þeir tóku land norður á Melrakkasléttu í Hraunhöfn hálfum mánuði fyrir vetur og skipuðu þar upp.
Þórður hét maður. Hann var bóndason þar á Sléttunni. Hann gekk í glímur við þá kaupmennina og gekk þeim illa við hann. Þá varð komið saman fangi með þeim Gunnlaugi. Og um nóttina áður hét Þórður á Þór til sigurs sér. Og um daginn er þeir fundust tóku þeir til glímu. Þá laust Gunnlaugur báða fæturna undan Þórði og felldi hann mikið fall en fóturinn Gunnlaugs stökk úr liði, sá er hann stóð á, og féll Gunnlaugur þá með Þórði.
Þá mælti Þórður: "
Vera má," segir hann, "
að þér vegni eigi annað betur."
"
Hvað þá?" segir Gunnlaugur.
"
Málin við Hrafn ef hann fær Helgu hinnar vænu að veturnóttum og var eg hjá í sumar á alþingi er það réðst."
Gunnlaugur svarar öngu. Þá var vafiður fóturinn og í liðinn færður og þrútnaði allmjög.
Þeir Hallfreður riðu tólf menn saman og komu suður á
Gilsbakka í
Borgarfirði það laugarkveld er þeir sátu að brúðlaupinu að Borg. Illugi varð feginn Gunnlaugi syni sínum og hans förunautum. Gunnlaugur kvaðst þá þegar vilja ofan ríða til
Borgar. Illugi kvað það ekki ráð og svo sýndist öllum nema Gunnlaugi en Gunnlaugur var þó ófær fyrir fótarins sakir þótt hann léti ekki á sjást og varð því ekki af ferðinni.
Hallfreður reið heim um morguninn til Hreðuvatns í Norðurárdal. Þar réð fyrir eignum þeirra Galti bróðir hans og var vaskur maður.