Þenna tíma réð fyrir Svíþjóð Ólafur konungur sænski son Eiríks konungs sigursæla og Sigríðar hinnar stórráðu dóttur Sköglar-Tósta. Hann var ríkur konungur og ágætur, metnaðarmaður mikill.
Gunnlaugur kom til Uppsala nær þingi þeirra Svía um vorið og er hann náði konungs fundi kvaddi hann konunginn. Hann tók honum vel og spyr hver hann væri. Hann kvaðst vera Íslandsmaður. Þar var þá með Ólafi konungi Hrafn Önundarson.
Konungur mælti: "
Hrafn," segir hann, "
hvað manna er hann á Íslandi?"
Maður stóð upp af hinum óæðra bekk, mikill og vasklegur, gekk fyrir konung og mælti: "
Herra," segir hann, "
hann er hinnar bestu ættar og sjálfur hinn vaskasti maður."
"
Fari hann þá og sitji hjá þér," sagði konungur.
Gunnlaugur mælti: "
Kvæði hefi eg að færa yður," sagði hann, "
og vildi eg að þér hlýdduð og gæfuð hljóð til."
"
Gangið fyrst og sitjið," sagði konungur. "
Ekki er nú tóm til yfir kvæðum að sitja."
Þeir gerðu svo. Tóku þeir þá tal með sér Gunnlaugur og Hrafn. Sagði hvor öðrum frá ferðum sínum. Hrafn kvaðst farið hafa áður um sumarið af
Íslandi til
Noregs og öndverðan vetur austur til Svíþjóðar. Þar gerist brátt vel með þeim.
Og einn dag er liðið var þingið voru þeir báðir fyrir konungi Gunnlaugur og Hrafn.
Þá mælti Gunnlaugur: "
Nú vildi eg herra," segir hann, "
að þér heyrðuð kvæðið."
"
Það má nú," segir hann.
"
Nú vil eg flytja kvæði mitt herra," segir Hrafn.
"
Það má vel," segir hann.
Þá vil eg flytja fyrr kvæði mitt herra,"
segir Gunnlaugur, "ef þér viljið svo."
"Eg á fyrr að flytja herra,"
segir Hrafn, "er eg kom fyrr til yðvar."
Gunnlaugur mælti: "Hvar komu feður okkrir þess,"
segir hann, "að minn faðir væri eftirbátur þíns föður, hvar nema alls hvergi? Skal og svo með okkur vera."
Hrafn svarar: "Gerum þá kurteisi,"
segir hann, "að vér færum þetta ei í kappmæli og látum konung ráða."
Konungur mælti: "Gunnlaugur skal fyrri flytja því að honum eirir illa ef hann hefir ei sitt mál."
Þá kvað Gunnlaugur drápuna er hann hafði orta um Ólaf konung.
Og er lokið var drápunni þá mælti konungur: "Hrafn,"
sagði hann, "hversu er kvæðið ort?"
"Vel herra,"
sagði hann. "Það er stórort kvæði og ófagurt og nakkvað stirðkveðið sem Gunnlaugur er sjálfur í skaplyndi."
"Nú skaltu flyta þitt kvæði Hrafn,"
segir konungur.
Hann gerir svo.
Og er lokið var þá mælti konungur: "Gunnlaugur,"
segir hann, "hversu er kvæði þetta ort?"
Gunnlaugur svarar: "Vel herra,"
segir hann. "Þetta er fagurt kvæði sem Hrafn er sjálfur að sjá og yfirbragðslítið. Eða hví ortir þú flokk um konunginn,"
segir hann, "eða þótti þér hann ei drápunnar verður?"
Hrafn svarar: "Tölum þetta ei lengur. Til mun verða tekið þótt síðar sé,"
segir hann og skildu nú við svo búið.
Litlu síðar gerðist Hrafn hirðmaður Ólafs konungs og bað hann orlofs til brottferðar. Konungur veitti honum það.
Og er Hrafn var til brottferðar búinn þá mælti hann til Gunnlaugs: "Lokið skal nú okkarri vináttu fyrir því að þú vildir hræpa mig hér fyrir höfðingjum. Nú skal eg einhverju sinni eigi þig minnur vanvirða en þú vildir mig hér."
Gunnlaugur svarar: "Ekki hryggja mig hót þín,"
segir hann, "og hvergi munum við þess koma að eg sé minna virður en þú."
Ólafur konungur gaf Hrafni góðar gjafir að skilnaði og fór hann í brott síðan.
Hrafn fór austan um vorið og kom til Þrándheims og bjó skip sitt og sigldi til Íslands um sumarið og kom skipi sínu í Leiruvog fyrir neðan Heiði og urðu honum fegnir frændur og vinir og var hann heima þann vetur með föður sínum.
Og um sumarið á alþingi fundust þeir frændur, Skafti lögmaður og Skáld-Hrafn.
Þá mælti Hrafn: "Þitt fullting vildi eg hafa til kvonbænar við Þorstein Egilsson að biðja Helgu dóttur hans."
Skafti svarar: "Er hún eigi áður heitkona Gunnlaugs ormstungu?"
Hrafn svarar: "Er ei liðin sú stefna nú,"
segir hann, "sem mælt var með þeim? Enda er miklu meiri hans ofsi er hann muni nú þess gá eða geyma."
Skafti svarar: "Gerum sem þér líkar."
Síðan gengu þeir fjölmennir til búðar Þorsteins Egilssonar. Hann fagnaði þeim vel.
Skafti mælti: "Hrafn frændi minn vill biðja Helgu dóttur þinnar og er þér kunnig ætt hans og auður fjár og menning góð, frænda afli mikill og vina."
Þorsteinn svarar: "Hún er áður heitkona Gunnlaugs og vil eg halda öll mál við hann, þau sem mælt voru."
Skafti mælti: "Eru nú eigi liðnir þrír vetur er til voru nefndir með yður?"
"Já,"
sagði Þorsteinn, "en ei er sumarið liðið og má hann enn til koma í sumar."
Skafti svarar: "En ef hann kemur eigi til sumarlangt hverja von skum vér þá eiga þessa máls?"
Þorsteinn svarar: "Hér munum vér koma annað sumar og má þá sjá hvað ráðlegast þykir en ekki tjár nú þetta að tala lengur að sinni."
Og við það skildu þeir og riðu menn heim af þingi.
Ekki fór þetta tal leynt að Hrafn bað Helgu. Ei kom Gunnlaugur út að sumri.
Og annað sumar á alþingi fluttu þeir Skafti bónorðið ákaflega, kváðu þá Þorstein lausan allra mála við Gunnlaug.
Þorsteinn svarar: "Eg á fár dætur fyrir að sjá og vildi eg gjarna að öngum manni yrðu þær að rógi. Nú vil eg finna fyrst Illuga svarta."
Og svo gerði hann.
Og er þeir fundust þá mælti Þorsteinn: "Þykir þér eg laus allra mála við Gunnlaug son þinn?"
Illugi mælti: "Svo er víst,"
segir hann, "ef þú vilt. Kann eg hér nú fátt til að leggja er eg veit eigi gjörla efni sonar mín Gunnlaugs."
Þorsteinn gekk þá til Skafta og keyptu þeir svo að brúðlaup skyldi vera að veturnáttum að Borg ef Gunnlaugur kæmi eigi út á því sumri en Þorsteinn laus allra mála við Hrafn ef Gunnlaugur kæmi til og vitjaði ráðsins.
Eftir það riðu menn heim af þinginu og frestaðist tilkoma Gunnlaugs en Helga hugði illt til ráða.