Þá réð fyrir
Englandi Aðalráður konungur Játgeirsson og var góður höfðingi. Hann sat þenna vetur í Lúndúnaborg.
Ein var þá tunga á
Englandi sem í
Noregi og í
Danmörku. En þá skiptust tungur í
Englandi er Vilhjálmur bastarður vann
England. Gekk þaðan af í
Englandi valska er hann var þaðan ættaður.
Gunnlaugur gekk bráðlega fyrir konung og kvaddi hann vel og virðulega.
Konungur spyr hvaðan af löndum hann væri.
Gunnlaugur segir sem var "
en því hefi eg sótt á yðvarn fund herra að eg hefi kvæði ort um yður og vildi eg að þér hlýdduð kvæðinu."
Konungur kvað svo vera skyldu.
Her sést allr við örva
Englands sem guðs engil.
Ætt lýtr grams og gumna
gunnbráðs Aðalráði.
Konungur þakkaði honum kvæðið og gaf honum að bragarlaunum skarlatsskikkju skinndregna hinum bestum skinnum og hlaðbúna í skaut niður og gerði hann hirðmann sinn. Og var Gunnlaugur með konungi um veturinn og virðist vel.
Og einn dag um morguninn snemnma þá mætti Gunnlaugur þremur mönnum á stræti einu og nefndist sá Þórormur er fyrir þeim var. Hann var mikill og sterkur og furðu torveldlegur.
Hann mælti: "
Norðmaður," segir hann, "
sel mér fé nokkuð að láni."
Gunnlaugur svarar: "
Ekki mun það ráðlegt að selja fé sitt ókunnum mönnum."
Hann svarar: "
Eg skal gjalda þér að nefndum degi."
"
Þá skal á það hætta," segir Gunnlaugur.
Síðan seldi hann honum féið.
Og litlu síðar fann Gunnlaugur konunginn og segir honum fjárlánið.
Konungur svarar: "
Nú hefir lítt til tekist. Þessi er hinn mesti ránsmaður og víkingur og eig ekki við hann en eg skal fá þér jafnmikið fé."
Gunnlaugur svarar: "
Illa er oss þá farið," segir hann, "
hirðmönnum yðrum, göngum upp á saklausa menn en láta slíka sitja yfir voru og skal það aldrei verða."
Og litlu síðar hitti hann Þórorm og heimti féið að honum en hann kvaðst eigi gjalda mundu.
Gunnlaugur kvað þá vísu þessa:
Meðalráð er þér Móði
málma galdrs að halda,
att hafið þér við prettum
oddrjóð, fyrir mér hoddum.
Vita máttu hitt að eg heiti,
hér sé eg á því færi,
það fékkst nafn af nökkvi,
naðrstunga, mér ungum.
"
Nú vil eg bjóða þér lög," segir Gunnlaugur, "
að þú gjalt mér fé mitt eða gakk á hólm við mig ella á þriggja nátta fresti."
Þá hló víkingurinn og mælti: "
Til þess hefir engi orðið fyrri en þú að skora mér á hólm svo skarðan hlut sem margur hefir fyrir mér borið og em eg þessa albúinn."
Og við það skildu þeir Gunnlaugur að sinni.
Gunnlaugur segir konungi svo búið.
Hann svarar: "
Nú er komið í allóvænt efni. Þessi maður deyfir hvert vopn. Nú skaltu mínum ráðum fram fara og er hér sverð er eg vil gefa þér og með þessu skaltu vega en sýn honum annað."
Gunnlaugur þakkaði konungi vel.
Og er þeir voru til hólms búnir þá spyr Þórormur hverninn sverð það væri er hann hafði. Gunnlaugur sýnir honum og bregður en hafði lykkju á meðalkafla á konungsnaut og dregur á hönd sér.
Berserkurinn mælti er hann sá sverðið: "
Ekki hræðist eg það sverð," segir hann og hjó til Gunnlaugs með sverði og af honum mjög svo skjöldinn allan. Gunnlaugur hjó þegar í mót með konungsnaut en berserkurinn stóð hlífarlaus fyrir og hugði að hann hefði hið sama vopn og hann sýndi en Gunnlaugur hjó hann þegar banahögg.
Konungur þakkaði honum verkið og af þessu fékk hann mikla frægð í
Englandi og víða annars staðar.
Um vorið er skip gengu milli landa þá bað Gunnlaugur Aðalráð konung orlofs að sigla nokkuð. Konungur spyr hvað hann vildi þá.
Gunnlaugur svarar: "
Eg vildi efna það sem eg hefi heitið" og kvað vísu þessa:
Koma skal eg víst að vitja
vígsdöglinga þriggja,
því hef eg hlutvöndum heitið,
hjarls og tveggja jarla.
hverfka eg aftr áðr arfi,
auðveitir gefr rauðan
ormabeð fyrir ermar,
odd-Gefnar mér stefni.
"
Svo skal og vera skáld," segir konungur og gaf honum gullhring er stóð sex aura "
en því skaltu heita mér," segir konungur, "
að koma aftur til mín að öðru hausti fyrir því að eg vil ei láta þig fyrir sakir íþróttar þinnar."