Hrafnkels Saga Freysgoða

12. kafli

Sámur bíður til þess, að slitið er þinginu. Búast menn þá heim. Þakkar hann þeim bræðrum sína liðveislu, en Þorgeir spurði Sám hlæjandi, hversu honum þætti að fara. Hann lét vel yfir því.

Þorgeir mælti: "Þykist þú nú nokkru nær en áður?"

Sámur mælti: "Beðið þykir mér Hrafnkell hafa sneypu, er lengi mun uppi vera, þessi hans sneypa, og er þetta við mikla fémuni."

"Eigi er maðurinn alsekur, meðan eigi er háður féránsdómur, og hlýtur það að hans heimili að gera. Það skal vera fjórtán nóttum eftir vopnatak."

En það heitir vopnatak, er alþýða ríður af þingi.

"En eg get," segir Þorgeir, "að Hrafnkell mun heim kominn og ætli að sitja á Aðalbóli; get eg, að hann mun halda mannaforráð fyrir yður. En þú munt ætla að ríða heim og setjast í bú þitt, ef þú náir að besta kosti. Get eg, að þú hafir það svo þinna mála, að þú kallir hann skógarmann. En slíkan ægishjálm, get eg, að hann beri yfir flestum sem áður, nema þú hljótir að fara nokkru lægra."

"Aldrei hirði eg það," segir Sámur.

"Hraustur maður ertu," segir Þorgeir, "og þykir mér sem Þorkell frændi vilji eigi gera endamjótt við þig. Hann vill nú fylgja þér, þar til er úr slítur með ykkur Hrafnkeli, og megir þú þá sitja um kyrrt. Mun yður þykja nú við skyldastir að fylgja þér, er vér höfum áður mest í fengið. Skulum við nú fylgja þér um sinns sakir í Austfjörðu; eða kanntu nokkra þá leið til Austfjarða, að eigi sé almannavegur?"

Sámur svaraði: "Fara mun eg hina sömu leið, sem eg fór austan."

Sámur varð þessu feginn.
Hér er lýsing á kortinu...