Hrafnkels Saga Freysgoða

13. kafli

Þorgeir valdi lið sitt og lét sér fylgja fjóra tigu manna. Sámur hafði og fjóra tigu manna. Var það lið vel búið að vopnum og hestum.

Eftir það ríða þeir alla hina sömu leið, þar til er þeir koma í næturelding í Jökulsdal, fara yfir brú á ánni, og var þetta þann morgun, er féránsdóm átti að heyja. Þá spyr Þorgeir, hversu þeir mætti helst á óvart koma. Sámur kvaðst mundu kunna ráð til þess. Hann snýr þegar af leiðinni og upp á múlann og svo eftir hálsinum milli Hrafnkelsdals og Jökulsdals, þar til er þeir koma utan undir fjallið, er bærinn stendur undir niðri á Aðalbóli. Þar gegu grasgeilar í heiðina upp, en þar var brekka brött ofan í dalin, og stóð þar bærinn undir niðri. Þar stígur Sámur af baki og mælti:

"Látum lausa hesta vora og geymi tuttugu menn, en vér sex tigir saman hlaupum að bænum, og get eg, að fátt muni manna á fótum."

Þeir gerðu nú svo, og heita þar síðan Hrossageilar.

Þá bar skjótt að bænum. Voru þá liðin rismál. Eigi var fólk upp staðið. Þeir skutu stokki á hurð og hlupu inn. Hrafnkell hvíldi í rekkju sinni; taka þeir hann þaðan og alla hans heimamenn, þá er vopnfærir voru. Konur og börn var rekið i eitt hús.

Í túninu stóð útibúr. Af því og heim á skálavegginn var skotið voðási einum. Þeir leiða Hrafnkel þar til og hans menn. Hann bauð mörg boð fyrir sig og sína menn. En er það tjáði eigi, þá bað hann mönnum sínum lífs, - "því að þeir hafa ekki til saka gert við yður, en það er mér engi ósæmd, þótt þér drepið mig; mun eg ekki undan því mælast. Undan hrakningum mælist eg; er yður engi sæmd í því."

Þorkell mælti: "Það höfum vér heyrt, að þú hafir lítt verið leiðitamur þínum óvinum, og er vel nú, að þú kennir þess í dag á þér."

Þá taka þeir Hrafnkel og hans menn og bundu hendur þeirra á bak aftur. Eftir það brutu þeir upp útibúrið og tóku reip ofan úr krókum, taka síðan hnífa sína og stinga raufar á hásinum þeirra og draga þar í reipin og kasta þeim svo upp yfir ásinn og binda þá svo átta saman.

Þá mælti Þorgeir: "Svo er komið nú kosti yðrum, Hrafnkell, sem maklegt er, og mundi þér þykja þetta ólíklegt, að þú mundir slíka skömm fá af nokkrum manni, sem nú er orðið. Eða hvort viltu, Þorkell, nú gera, að sitja hér hjá Hrafnkeli og gæta þeirra, eða viltu fara með Sámi úr garði á brott í örskotshelgi við bæinn og heyja féránsdóm á grjóthól nokkrum, þar sem hvorki er akur né eng?" Þetta skyldi í þann tíma gera, er sól væri í fullu suðri.

Þorkell sagði: "Eg vil hér sitja hjá Hrafnkeli, Sýnist mér þetta starfaminna."

Þeir Þorgeir og Sámur fóru þá og háðu féránsdóm, ganga heim eftir það og tóku Hrafnkel ofan og hans menn og settu þá niður í túninu, og var þá sigið blóð fyrir augu þeim. Þá mælti Þorgeir til Sáms, að hann skyldi gera við Hrafnkel slíkt, sem hann vildi, - "því að mér sýnist nú óvandleikið við hann."

Sámur svarar þá: "Tvo kosti geri eg þér, Hrafnkell; sá annar, að þig skal leiða úr garði brott og þá menn, sem mér líkar, og vera drepinn. En með því að þú átt ómegð mikla fyrir að sjá, þá vil eg þess unna þér, að þú sjáir þar fyrir. Og ef þú vilt líf þiggja, þá far þú af Aðalbóli með allt lið þitt og haf þá eina fémuni, er eg skep þér, og mun það harðla lítið, en eg skal taka staðfestu þína og mannaforráð allt. Skaltu aldrei tilkall veita né þínir erfingjar. Hvergi skaltu nær vera en fyrir austan Fljótsdalsheiði, og máttu nú eiga handsöl við mig, ef þú vilt þenna upp taka."

Hrafnkell mælti: "Mörgum mundi betur þykja skjótur dauði en slíkar hrakningar, en mér mun fara sem mörgum öðrum, að lífið mun eg kjósa, ef kostur er. Geri eg það mest sökum sona minna, því að lítil mun vera uppreist þeirra, ef eg dey frá."

Þá er Hrafnkell leystur, og seldi hann Sámi sjálfdæmi. Sámur skipti Hrafnkeli af fé slíkt, er hann vildi, og var það raunlítið. Spjót sitt hafði Hrafnkell með sér, en ekki fleira vopna. Þenna dag færði Hrafnkell sig brott af Aðalbóli og allt sitt fólk. Þorgeir mælti þá við Sám:

"Eigi veit eg, hví þú gerir þetta. Muntu þessa mest iðrast sjálfur, er þú gefur honum líf."

Sámur kvað þá svo vera verða.
Hér er lýsing á kortinu...