Þorbjörn spyr yfir á Hól víg Einars, sonar síns. Hann kunni illa tíðindum þessum. Nú tekur hann hest sinn og ríður yfir á Aðalból og beiðir Hrafnkel bóta fyrir víg sonar síns. Hann kvaðst fleiri menn hafa drepið en þenna einn. "Er þér það eigi ókunnugt, að eg vil öngvan mann fé bæta, og verða menn það þó svo gert að hafa. En þó læt eg svo sem mér þyki þetta verk mitt í verra lagi víga þeirra, er eg hefi unnið. Hefir þú verið nábúi minn langa stund, og hefir mér líkað vel til þín og hvorum okkar til annars. Mundi okkur Einari ekki hafa annað en smátt til orðið, ef hann hefði eigi riðið hestinum. En við munum oft þess iðrast, er við erum of málgir, og sjaldnar mundum við þessa iðrast, þó að við mæltum færra en fleira. Mun eg það nú sýna, að mér þykir þetta verk mitt verra en önnur þau, er eg hefi unnið. Eg vil birgja bú þitt með málnytu í sumar, en með slátrum í haust; svo vil eg gera við þig hvert misseri, meðan þú vilt búa. Sonu þína og dætur skulum við í brott leysa með minni forsjá og efla þau svo, að þau mætti fá góða kosti af því. Og allt, er þú veist í mínum hirslum vera og þú þarft að hafa héðan af, þá skaltu mér til segja og eigi fyrir skart sitja héðan af um þá hluti, sem þú þarft að hafa. Skaltu búa, meðan þér þykir gaman að, en fara þá hingað, er þér leiðist. Mun eg þá annast þig til dauðadags. Skulum við þá vera sáttir. Vil eg þess vænta, að það mæli fleiri, að sjá maður sé vel dýr."
"Eg vil eigi þenna kost," segir Þorbjörn.
"Hvern viltu þá?" segir Hrafnkell.
Þá segir Þorbjörn: "Eg vil, að við tökum menn til gerðar með okkur."
Hrafnkell svarar: "Þá þykist þú jafnmenntur mér, og munum við ekki að því sættast."
Þá reið Þorbjörn í brott og ofan eftir héraði. Hann kom til Laugarhúsa og hittir Bjarna, bróður sinn, og segir honum þessi tíðindi, biður, að hann muni nokkurn hlut í eiga um þessi mál.
Bjarni kvað eigi sitt jafnmenni við að eiga, þar er Hrafnkell er. "En þó að vér stýrum peningum miklum, þá megum vér ekki deila af kappi við Hrafnkel, og er það satt, að sá er svinnur, er sig kann. Hefir hann þá marga málaferlum vafið, er meira bein hafa í hendi haft en vér. Sýnist mér þú vitlítill við hafa orðið, er þú hefir svo góðum kostum neitað. Vil eg mér hér öngu af skipta."
Þorbjörn mælti þá mörg herfileg orð til bróður síns og segir því síður dáð í honum sem meira lægi við. Hann ríður nú í brott, og skiljast þeir nú með lítilli blíðu. Hann léttir eigi, fyrr en hann kemur ofan til Leikskála, drepur þar á dyr. Var þar til dyra gengið. Þorbjörn biður Sám út ganga. Sámur heilsaði vel frænda sínum og bauð honum þar að vera. Þorbjörn tók því öllu seint. Sámur sér ógleði á Þorbirni og spyr tíðinda, en hann sagði víg Einars, sonar síns.
"Það eru eigi mikil tíðindi," segir Sámur, "þótt Hrafnkell drepi menn." Þorbjörn spyr, ef Sámur vildi nokkra liðveislu veita sér. "Er þetta mál þann veg, þótt mér sé nánastur maðurinn, að þó er yður eigi fjarri höggvið."
"Hefir þú nokkuð eftir sæmdum leitað við Hrafnkel?"
Þorbjörn segði allti hið sanna, hversu farið hafði með þeim Hrafnkeli.
"Eigi hefi eg var orðið fyrr," segir Sámur, "að Hrafnkell hafi svo boðið nokkrum sem þér. Nú vil eg ríða með þér upp á Aðalból, og förum við lítillátlega að við Hrafnkel og vita, ef hann vill halda hin sömu boð. Mun honum nokkurn veg vel fara."
"Það er bæði," segir Þorbjörn, "að Hrafnkell mun nú eigi vilja, enda er mér það nú eigi heldur í hug en þá, er eg reið þaðan."
Sámur segir: "Þungt get eg að deila kappi við Hrafnkel um málaferli."
Þorbjörn svarar: "Því verður engi uppreist yðar ungra manna, að yður vex allt í augu. Hygg eg, að engi maður muni eiga jafnmikil auvirði að frændum sem eg. Sýnist mér slíkum mönnum illa farið sem þér, er þykist lögkænn vera og ert gjarn á smásakir, en vilt eigi taka við þessu máli, er svo er brýnt. Mun þér verða ámælissamt, sem maklegt er, fyrir því að þú ert hávaðamestur úr ætt vorri. Sé eg nú, hvað sök horfir."
Sámur svarar: "Hverju góðu ertu þá nær en áður, þótt eg taki við þessu máli og séum við þá báðir hraktir?"
Þorbjörn svarar: "Þó er mér það mikil hugarbót, að þú takir við málinu. Verður að því, sem má."
Sámur svarar: "Ófús geng eg að þessu. Meir geri eg það fyrir frændsemis sakir við þig. En vita skaltu, að mér þykir þar heimskum manni að duga, sem þú ert."
Þá rétti Sámur fram höndina og tók við málinu af Þorbirni.