Sámur lætur taka sér hest og ríður upp eftir dal og ríður á bæ einn og lýsir víginu - fær sér menn - á hendur Hrafnkeli. Hrafnkell spyr þetta og þótti hlægilegt, er Sámur hefir tekið mál á hendur honum.
Leið nú á veturinn. En að vori, þá er komið var að stefnudögum, Ríður Sámur heiman upp á Aðalból og stefnir Hrafnkeli um víg Einars. Eftir það ríður Sámur ofan eftir dalnum og kvaddi búa til þingreiðar, og situr hann um kyrrt, þar til er menn búast til þingreiðar.
Hrafnkell sendi þá menn ofan eftir dalnum og kvaddi upp menn. Hann fer með þingmönnum sínum, sjö tigum manns. Með þenna flokk ríður hann austur yfir Fljótsdalsheiði og svo fyrir vatnsbotninn og um þveran háls til Skriðudals og upp eftir Skriðudal og suður á Öxarheiði til Berufjarðar og rétta þingmanna leið á Síðu. Suður úr Fljótsdal eru sautján dagleiðir á Þingvöll.
En eftir það er hann var á brott riðinn úr héraði, þá safnar Sámur að sér mönnum. Fær hann mest til reiðar með sér einheypinga og þá, er hann hafði saman kvatt; fer Sámur og fær þessum mönnum vopn og klæði og vistir. Sámur snýr aðra leið úr dalnum. Hann fer norður til brúa og svo yfir brú og þaðan yfir Möðrudalsheiði, og voru í Möðrudal um nótt. Þaðan riðu þeir til Herðibreiðstungu og svo fyrir ofan Bláfjöll og þaðan í Króksdal og svo suður á Sand og komu ofan í Sandafell og þaðan á Þingvöll, og var þar Hrafnkell eigi kominn, og fórst honum því seinna, að hann átti lengri leið.
Sámur tjaldar búð yfir sínum mönnum hvergi nær því, sem Austfirðingar eru vanir að tjalda. En nokkru síðar kom Hrafnkell á þing. Hann tjaldar búð sína, svo sem hann var vanur, og spurði, að Sámur var á þinginu. Honum þótti það hlægilegt.
Þetta þing var harla fjölmennt. Voru þar flestir höfðingjar, þeir er voru á
Íslandi. Sámur finnur alla höfðingja og bað sér trausts og liðsinnis, en einn veg svöruðu allir, að engi kvaðst eiga svo gott Sámi upp að gjalda, að ganga vildi í deild við Hrafnkel goða og hætta svo sinni virðingu, segja og það einn veg flestum farið hafa, þeim er þingdeilur við Hrafnkel hafa haft, að hann hafi alla menn hrakið af málaferlum þeim, er við hann hafa haft.
Sámur gengur heim til búðar sinnar, og var þeim frændum þungt í skapi og uggðu, að þeirra mál mundu svo niður falla, að þeir mundu ekki fyrir hafa nema skömm og svívirðing; og svo mikla áhyggju hafa þeir frændur, að þeir njóta hvorki svefns né matar, því að allir höfðingjarnir skárust undan liðsinni við þá frændur, jafnvel þeir, sem þeir væntu, að þeim mundi lið veita.