Það er sagt frá Hrapp að hann gerðist úrigur viðureignar, veitti nú nábúum sínum svo mikinn ágang að þeir máttu varla halda hlut sínum fyrir honum. Hrappur gat ekki fang á Þórði fengið síðan Ólafur færðist á fætur. Hrappur hafði skaplyndi hið sama en orkan þvarr því að elli sótti á hendur honum svo að hann lagðist í rekkju af.
Þá kallaði Hrappur til sín Vigdísi konu sína og mælti: "Ekki hefi eg verið kvellisjúkur," segir hann, "er og það líkast að þessi sótt skilji vorar samvistur. En þá að eg er andaður þá vil eg mér láta gröf grafa í eldhúsdyrum og skal mig niður setja standanda þar í dyrunum. Má eg þá enn vendilegar sjá yfir híbýli mín."
Eftir þetta deyr Hrappur.
Svo var með öllu farið sem hann hafði fyrir sagt því að hún treystist eigi öðru. En svo illur sem hann var viðureignar þá er hann lifði þá jók nú miklu við er hann var dauður því að hann gekk mjög aftur. Svo segja menn að hann deyddi flest hjón sín í afturgöngunni. Hann gerði mikinn ómaka þeim flestum er í nánd bjuggu. Var eyddur bærinn á Hrappsstöðum.
Vigdís kona Hrapps réðst vestur til Þorsteins surts bróður síns. Tók hann við henni og fé hennar.
Nú var enn sem fyrr að menn fóru á fund Höskulds og sögðu honum til þeirra vandræða er Hrappur gerir mönnum og biðja hann nokkuð úr ráða. Höskuldur kvað svo vera skyldu, fer með nokkura menn á Hrappsstaði og lætur grafa upp Hrapp og færa hann í brott þar er síst væri fjárgangur í nánd eða mannaferðir. Eftir þetta nemast af heldur afturgöngur Hrapps.
Sumarliði son Hrapps tók fé eftir hann og var bæði mikið og frítt. Sumarliði gerði bú á Hrappsstöðum um vorið eftir og er hann hafði þar litla hríð búið þá tók hann ærsl og dó litlu síðar.
Nú á Vigdís móðir hans að taka þar ein fé þetta allt. Hún vill eigi fara til landsins á Hrappsstöðum. Tekur nú Þorsteinn surtur fé þetta undir sig til varðveislu. Þorsteinn var þá hniginn nokkuð og þó hinn hraustasti og vel hress.