Laxdæla Saga

16. kafli

Í þenna tíma kemur Ásgautur heim. Vigdís fagnar honum vel og frétti hversu góðar viðtökur þeir hefðu að Sauðafelli. Hann lætur vel yfir og segir henni ályktarorð þau er Þórólfur hafði mælt. Henni hugnaðist það vel.

"Hefir þú nú Ásgautur," segir hún, "vel farið með þínu efni og trúlega. Skaltu nú og vita skjótlega til hvers þú hefir unnið. Eg gef þér frelsi svo að þú skalt frá þessum degi frjáls maður heita. Hér með skaltu taka við fé því er Þórður tók til höfuðs Þórólfi frænda mínum. Er nú féið betur niður komið."

Ásgautur þakkaði henni þessa gjöf með fögrum orðum.

Þetta sumar eftir tekur Ásgautur sér fari í Dögurðarnesi og lætur skip það í haf. Þeir fá veður stór og ekki langa útivist. Taka þeir Noreg. Síðan fer Ásgautur til Danmerkur og staðfestist þar og þótti hraustur drengur. Og endir þar sögu frá honum.

En eftir ráðagerð þeirra Þórðar godda og Ingjalds Sauðeyjargoða, þá er þeir vildu ráða bana Þórólfi frænda Vigdísar, lét hún þar fjandskap í móti koma og sagði skilið við Þórð godda og fór hún til frænda sinna og sagði þeim þetta. Þórður gellir tók ekki vel á þessu og var þó kyrrt.

Vigdís hafði eigi meira fé á brott af Goddastöðum en gripi sína. Þeir Hvammverjar létu fara orð um að þeir ætluðu sér helming fjár þess er Þórður goddi hafði að varðveita. Hann verður við þetta klökkur mjög og ríður þegar á fund Höskulds og segir honum til vandræða sinna.

Höskuldur mælti: "Skotið hefir þér þá skelk í bringu er þú hefir eigi átt að etja við svo mikið ofurefli."

Þá bauð Þórður Höskuldi fé til liðveislu og kvaðst eigi mundu smátt á sjá.

Höskuldur segir: "Reynt er það að þú vilt að engi maður njóti fjár þíns svo að þú sættist á það."

Þórður svarar: "Eigi skal nú það þó því að eg vil gjarna að þú takir handsölum á öllu fénu. Síðan vil eg bjóða Ólafi syni þínum til fósturs og gefa honum allt fé eftir minn dag því að eg á engan erfingja hér á landi og hygg eg að þá sé betur komið féið heldur en frændur Vigdísar skelli hrömmum yfir."

Þessu játtaði Höskuldur og lætur binda fastmælum.

Þetta líkaði Melkorku þungt, þótti fóstrið of lágt.

Höskuldur kvað hana eigi sjá kunna: "Er Þórður gamall maður og barnlaus og ætla eg Ólafi allt fé eftir hans dag en þú mátt hitta hann ávallt er þú vilt."

Síðan tók Þórður við Ólafi sjö vetra gömlum og leggur við hann mikla ást. Þetta spyrja þeir menn er mál áttu við Þórð godda og þótti nú fjárheimtan komin fastlegar en áður.

Höskuldur sendi Þórði gelli góðar gjafir og bað hann eigi styggjast við þetta, því að þeir máttu engi fé heimta af Þórði fyrir laga sakir, kvað Vigdísi engar sakir hafa fundið Þórði þær er sannar væru og til brautgangs mættu metast "og var Þórður eigi að verr menntur þótt hann leitaði sér nokkurs ráðs að koma þeim manni af sér er settur var á fé hans og svo var sökum horfinn sem hrísla eini."

En er þessi orð komu til Þórðar frá Höskuldi og þar með stórar fégjafir þá sefaðist Þórður gellir og kvaðst það hyggja að það fé væri vel komið er Höskuldur varðveitti og tók við gjöfum og var þetta kyrrt síðan og um nokkuru færra en áður.

Ólafur vex upp með Þórði godda og gerist mikill maður og sterkur. Svo var hann vænn maður að eigi fékkst hans jafningi. Þá er hann var tólf vetra gamall reið hann til þings og þótti mönnum það mikið erindi úr öðrum sveitum að undrast hversu hann var ágætlega skapaður. Þar eftir hélt Ólafur sig að vopnabúnaði og klæðum. Var hann því auðkenndur frá öllum mönnum. Miklu var ráð Þórðar godda betra síðan Ólafur kom til hans. Höskuldur gaf honum kenningarnafn og kallaði pá. Það nafn festist við hann.
Hér er lýsing á kortinu...