Ekki var margt um í samförum þeirra Geirmundar og Þuríðar. Var svo af beggja þeirra hendi. Þrjá vetur var Geirmundur með Ólafi áður hann fýstist í brott og lýsti því að Þuríður mundi eftir vera og svo dóttir þeirra er Gróa hét. Sú mær var þá veturgömul. En fé vill Geirmundur ekki eftir leggja. Þetta líkar þeim mæðgum stórum illa og segja til Ólafi.
En Ólafur mælti þá: "
Hvað er nú Þorgerður, er Austmaðurinn eigi jafn stórlátur nú sem um haustið þá er hann bað þig mægðarinnar?"
Komu þær engu á leið við Ólaf því að hann var um alla hluti samningarmaður, kvað og mey skyldu eftir vera þar til er hún kynni nokkurn farnað. En að skilnaði þeirra Geirmundar gaf Ólafur honum kaupskipið með öllum reiða. Geirmundur þakkar honum vel og sagði gefið allstórmannlega. Síðan býr hann skipið og siglir út úr Laxárósi léttan landnyrðing og fellur veðrið er þeir koma út að eyjum. Hann liggur út við Öxney hálfan mánuð svo að honum gefur eigi í brott.
Í þenna tíma átti Ólafur heimanför að annast um reka sína. Síðan kallar Þuríður dóttir hans til sín húskarla, bað þá fara með sér. Hún hafði og með sér meyna. Tíu voru þau saman. Hún lætur setja fram ferju er Ólafur átti. Þuríður bað þá róa eða sigla út eftir
Hvammsfirði. Og er þau koma út að eyjum bað hún þá skjóta báti útbyrðis er stóð á ferjunni. Þuríður sté á bátinn og tveir menn aðrir en hún bað þá gæta skips er eftir voru þar til er hún kæmi aftur. Hún tók meyna í faðm sér og bað þá róa yfir strauminn þar til er þau mættu ná skipinu. Hún greip upp nafar úr stafnlokinu og seldi í hendur förunaut sínum öðrum, bað hann ganga á knarrarbátinn og bora svo að ófær væri ef þeir þyrftu skjótt til að taka.
Síðan lét hún sig flytja á land og hafði meyna í faðmi sér. Það var í sólarupprás. Hún gengur út eftir bryggju og svo í skipið. Allir menn voru í svefni. Hún gekk að húðfati því er Geirmundur svaf í. Sverðið Fótbítur hékk á hnykkistafnum. Þuríður setur nú meyna Gró í húðfatið en greip upp Fótbít og hafði með sér. Síðan gengur hún af skipinu og til förunauta sinna. Nú tekur mærin að gráta. Við það vaknar Geirmundur og sest upp og kennir barnið og þykist vita af hverjum rifjum vera mun. Hann sprettur upp og vill þrífa sverðið og missir sem von var, gengur út á borð og sér að þau róa frá skipinu. Geirmundur kallar á menn sína og bað þá hlaupa í bátinn og róa eftir þeim. Þeir gera svo og er þeir eru skammt komnir þá finna þeir að sjár kolblár fellur að þeim, snúa nú aftur til skips. Þá kallar Geirmundur á Þuríði og bað hana aftur snúa og fá honum sverðið Fótbít "
en tak við mey þinni og haf héðan með henni fé svo mikið sem þú vilt."
Þuríður segir: "
Þykir þér betra en eigi að ná sverðinu?"
Geirmundur svarar: "
Mikið fé læt eg annað áður mér þykir betra að missa sverðsins."
Hún mælti: "
Þá skaltu aldrei fá það. Hefir þér margt ódrengilega farið til vor. Mun nú skilja með okkur."
Þá mælti Geirmundur: "
Ekki happ mun þér í verða að hafa með þér sverðið."
Hún kvaðst til þess mundu hætta.
"
Það læt eg þá um mælt," segir Geirmundur, "
að þetta sverð verði þeim manni að bana í yðvarri ætt er mestur er skaði að og óskaplegast komi við."
Eftir þetta fer Þuríður heim í
Hjarðarholt. Ólafur var og þá heim kominn og lét lítt yfir hennar tiltekju en þó var kyrrt. Þuríður gaf Bolla frænda sínum sverðið Fótbít því að hún unni honum eigi minna en bræðrum sínum. Bar Bolli þetta sverð lengi síðan. Eftir þetta byrjaði þeim Geirmundi, sigla þeir í haf og koma við
Noreg um haustið. Þeir sigla á einni nótt í boða fyrir Staði. Týnist Geirmundur og öll skipshöfn hans. Og lýkur þar frá Geirmundi að segja.