Laxdæla Saga

29. kafli

Það er sagt eitt vor að Ólafur lýsti því fyrir Þorgerði að hann ætlar utan: "Vil eg að þú varðveitir bú og börn."

Þorgerður kvað sér lítið vera um það en Ólafur kvaðst ráða mundu. Hann kaupir skip er uppi stóð vestur í Vaðli.

Ólafur fór utan um sumarið og kemur skipi sínu við Hörðaland. Þar bjó sá maður skammt á land upp er hét Geirmundur gnýr, ríkur maður og auðigur og víkingur mikill. Ódældarmaður var hann og hafði nú sest um kyrrt og var hirðmaður Hákonar jarls hins ríka. Geirmundur fer til skips og kannast brátt við Ólaf því að hann hafði heyrt hans getið. Geirmundur býður Ólafi til sín með svo marga menn sem hann vildi. Það þiggur Ólafur og fer til vistar með sétta mann. Hásetar Ólafs vistast þar um Hörðaland. Geirmundur veitir Ólafi vel. Þar var bær risulegur og margt manna. Var þar gleði mikil um veturinn.

En er á leið veturinn sagði Ólafur Geirmundi deili á um erindi sín, að hann vill afla sér húsaviðar, kvaðst þykja mikið undir að hann fengi gott viðaval.

Geirmundur svarar: "Hákon jarl á besta mörk og veit eg víst ef þú kemur á hans fund að þér mun sú innan handar því að jarl fagnar vel þeim mönnum er eigi eru jafnvel menntir sem þú Ólafur ef hann sækja heim."

Um vorið byrjar Ólafur ferð sína á fund Hákonar jarls. Tók jarl við honum ágæta vel og bauð Ólafi með sér að vera svo lengi sem hann vildi.

Ólafur segir jarli hversu af stóðst um ferð hans: "Vil eg þess beiða yður herra að þér létuð oss heimila mörk yðra að höggva húsavið."

Jarl svarar: "Ósparað skal það þótt þú fermir skip þitt af þeim viði er vér munum gefa þér því að vér hyggjum að oss sæki eigi heim hversdaglega slíkir menn af Íslandi."

En að skilnaði gaf jarl honum öxi gullrekna og var það hin mesta gersemi, skildust síðan með hinum mesta kærleik.

Geirmundur skipar jarðir sínar á laun og ætlar út til Íslands um sumarið á skipi Ólafs. Leynt hefir hann þessu alla menn. Eigi vissi Ólafur fyrr en Geirmundur flutti fé sitt til skips Ólafs og var það mikill auður.

Ólafur mælti: "Eigi mundir þú fara á mínu skipi ef eg hefði fyrr vitað því að vera ætla eg þá munu nokkura á Íslandi að betur gegndi að þig sæju aldrei. En nú er þú ert hér kominn við svo mikið fé þá nenni eg eigi að reka þig aftur sem búrakka."

Geirmundur segir: "Eigi skal aftur setjast þótt þú sért heldur stórorður því að eg ætla að fá að vera yðvar farþegi."

Stíga þeir Ólafur á skip og sigla í haf. Þeim byrjaði vel og tóku Breiðafjörð, bera nú bryggjur á land í Laxárósi. Lætur Ólafur bera viðu af skipi og setur upp skipið í hróf það er faðir hans hafði gera látið. Ólafur bauð Geirmundi til sín.

Það sumar lét Ólafur gera eldhús í Hjarðarholti, meira og betra en menn hefðu fyrr séð. Voru þar markaðar ágætar sögur á þilviðinum og svo á ræfrinu. Var það svo vel smíðað að þá þótti miklu skrautlegra er eigi voru tjöldin uppi.

Geirmundur var fáskiptinn hversdagla, óþýður við flesta. En hann var svo búinn jafnan að hann hafði skarlatskyrtil rauðan og gráfeld ystan og bjarnskinnshúfu á höfði, sverð í hendi. Það var mikið vopn og gott, tannhjölt að. Ekki var þar borið silfur á en brandurinn var hvass og beið hvergi ryð á. Þetta sverð kallaði hann Fótbít og lét það aldregi hendi firr ganga.

Geirmundur hafði litla hríð þar verið áður hann felldi hug til Þuríðar dóttur Ólafs og vekur hann bónorð við Ólaf en hann veitti afsvör. Síðan bar Geirmundur fé undir Þorgerði til þess að hann næði ráðinu. Hún tók við fénu því að eigi var smám fram lagt.

Síðan vekur Þorgerður þetta mál við Ólaf. Hún segir og sína ætlan að dóttir þeirra muni eigi betur verða gefin "því að hann er garpur mikill, auðigur og stórlátur."

Þá svarar Ólafur: "Eigi skal þetta gera í móti þér heldur en annað þótt eg væri fúsari að gifta Þuríði öðrum manni."

Þorgerður gengur í brott og þykir gott orðið sitt erindi, sagði nú svo skapað Geirmundi. Hann þakkaði henni sín orð og tillög og skörungsskap. Vekur nú Geirmundur bónorðið í annað sinn við Ólaf og var það nú auðsótt. Eftir það fastnar Geirmundur sér Þuríði og skal boð vera að áliðnum vetri í Hjarðarholti. Það boð var allfjölmennt því að þá var algert eldhúsið. Þar var að boði Úlfur Uggason og hafði ort kvæði um Ólaf Höskuldsson og um sögur þær er skrifaðar voru á eldhúsinu og færði hann þar að boðinu. Þetta kvæði er kallað Húsdrápa og er vel ort. Ólafur launaði vel kvæðið. Hann gaf og stórgjafir öllu stórmenni er hann hafði heim sótt. Þótti Ólafur vaxið hafa af þessi veislu.
Hér er lýsing á kortinu...