Laxdæla Saga

28. kafli

Ólafur og Þorgerður áttu son. Sá sveinn var vatni ausinn og nafn gefið. Lét Ólafur kalla hann Kjartan eftir Mýrkjartani móðurföður sínum. Þeir Bolli og Kjartan voru mjög jafngamlir. Enn áttu þau fleiri börn. Son þeirra hét Steinþór og Halldór, Helgi, og Höskuldur hét hinn yngsti son Ólafs. Bergþóra hét dóttir þeirra Ólafs og Þorgerðar, og Þorbjörg. Öll voru börn þeirra mannvæn er þau óxu upp.

Í þenna tíma bjó Hólmgöngu-Bersi í Saurbæ á þeim bæ er í Tungu heitir. Hann fer á fund Ólafs og bauð Halldóri syni hans til fósturs. Það þiggur Ólafur og fer Halldór heim með honum. Hann var þá veturgamall.

Það sumar tekur Bersi sótt og liggur lengi sumars.

Það er sagt einn dag er menn voru að heyverki í Tungu en þeir tveir inni, Halldór og Bersi. Lá Halldór í vöggu. Þá fellur vaggan undir sveininum og hann úr vöggunni á gólfið. Þá mátti Bersi eigi til fara.

Þá kvað Bersi þetta:

Liggjum báðir
í lamasessi
Halldór og ek,
höfum engin þrek.
Veldur elli mér
en æska þér.
Þess batnar þér
en þeygi mér.
Síðan koma menn og taka Halldór upp af gólfinu en Bersa batnar. Halldór fæddist þar upp og var mikill maður og vasklegur.

Kjartan Ólafsson vex upp heima í Hjarðarholti. Hann var allra manna vænstur þeirra er fæðst hafa á Íslandi. Hann var mikilleitur og vel farinn í andliti, manna best eygður og ljóslitaður. Mikið hár hafði hann og fagurt sem silki og féll með lokkum, mikill maður og sterkur eftir sem verið hafði Egill móðurfaðir hans eða Þórólfur. Kjartan var hverjum manni betur á sig kominn svo að allir undruðust þeir er sáu hann. Betur var hann og vígur en flestir menn aðrir. Vel var hann hagur og syndur manna best. Allar íþróttir hafði hann mjög umfram aðra menn. Hverjum manni var hann lítillátari og vinsæll svo að hvert barn unni honum. Hann var léttúðigur og mildur af fé. Ólafur unni mest Kjartani allra barna sinna.

Bolli fóstbróðir hans var mikill maður. Hann gekk næst Kjartani um allar íþróttir og atgervi. Sterkur var hann og fríður sýnum, kurteis og hinn hermannlegsti, mikill skartsmaður. Þeir unnust mikið fóstbræður.

Situr Ólafur nú að búi sínu svo að vetrum skipti.
Hér er lýsing á kortinu...