Það var þá jafnan tíðhjalað í Breiðafjarðardölum um skipti þeirra Hrúts og Þorleiks að Hrútur hefði þungt af fengið Kotkatli og sonum hans. Þá mælti Ósvífur til Guðrúnar og bræðra hennar, bað þau á minnast hvort þá væri betur ráðið að hafa þar lagið sjálfa sig í hættu við heljarmenn slíka sem þau Kotkell voru.
Guðrún mælti: "Eigi er sá ráðlaus faðir er þinna ráða á kost."
Ólafur sat nú í búi sínu með miklum sóma og eru þar allir synir hans heima og svo Bolli frændi þeirra og fóstbróðir.
Kjartan var mjög fyrir sonum Ólafs. Þeir Kjartan og Bolli unnust mest. Fór Kjartan hvergi þess er eigi fylgdi Bolli honum. Kjartan fór oft til Sælingsdalslaugar. Jafnan bar svo til að Guðrún var að laugu. Þótti Kjartani gott að tala við Guðrúnu því að hún var bæði vitur og málsnjöll. Það var allra manna mál að með þeim Kjartani og Guðrúnu þætti vera mest jafnræði þeirra manna er þá óxu upp. Vinátta var og mikil með þeim Ólafi og Ósvífri og jafnan heimboð og ekki því minnur að kært gerðist með hinum yngrum mönnum.
Eitt sinn ræddi Ólafur við Kjartan: "Eigi veit eg," segir hann, "hví mér er jafnan svo hugþungt er þú ferð til Lauga og talar við Guðrúnu. En eigi er það fyrir því að eigi þætti mér Guðrún fyrir öllum konum öðrum og hún ein er svo kvenna að mér þyki þér fullkosta. Nú er það hugboð mitt, en eigi vil eg þess spá, að vér frændur og Laugamenn berum eigi allsendis gæfu til um vor skipti."
Kjartan kvaðst eigi vilja gera í mót vilja föður síns, það er hann mætti við gera, en kvaðst vænta að þetta mundi betur takast en hann gat til. Heldur Kjartan teknum hætti um ferðir sínar. Fór Bolli jafnan með honum. Líða nú þau misseri.