Laxdæla Saga

4. kafli

Ketill flatnefur kom skipi sínu við Skotland og fékk góðar viðtökur af tignum mönnum, því að hann var frægur maður og stórættaður, og buðu honum þann ráðakost þar sem hann vildi hafa. Ketill staðfestist þar og annað frændlið hans nema Þorsteinn dótturson hans. Hann lagðist þegar í hernað og herjaði víða um Skotland og fékk jafnan sigur. Síðan gerði hann sætt við Skota og eignaðist hálft Skotland og varð konungur yfir. Hann átti Þuríði Eyvindardóttur systur Helga hins magra. Skotar héldu eigi lengi sættina því að þeir sviku hann í tryggð. Svo segir Ari Þorgilsson hinn fróði um líflát Þorsteins að hann félli á Katanesi.

Unnur djúpúðga var á Katanesi er Þorsteinn féll, son hennar. Og er hún frá það að Þorsteinn var látinn en faðir hennar andaður þá þóttist hún þar enga uppreist fá mundu. Eftir það lætur hún gera knörr í skógi á laun. Og er skipið var algert þá bjó hún skipið og hafði auð fjár. Hún hafði í brott með sér allt frændlið sitt það er á lífi var og þykjast menn varla dæmi til vita að einn kvenmaður hafi komist í brott úr þvílíkum ófriði með jafnmiklu fé og föruneyti. Má af því marka að hún var mikið afbragð annarra kvenna.

Unnur hafði og með sér marga þá menn er mikils voru verðir og stórættaðir. Maður er nefndur Kollur er einna var mest verður af föruneyti Unnar. Kom mest til þess ætt hans. Hann var hersir að nafni. Sá maður var og í ferð með Unni er Hörður hét. Hann var enn stórættaður maður og mikils verður.

Unnur heldur skipinu í Orkneyjar þegar er hún var búin. Þar dvaldist hún litla hríð. Þar gifti hún Gró dóttur Þorsteins rauðs. Hún var móðir Grélaðar er Þorfinnur jarl átti, son Torf-Einars jarls, sonar Rögnvalds Mærajarls. Þeirra son var Hlöðvir faðir Sigurðar jarls, föður Þorfinns jarls, og er þaðan komið kyn allra Orkneyingajarla.

Eftir það hélt Unnur skipi sínu til Færeyja og átti þar enn nokkura dvöl. Þar gifti hún aðra dóttur Þorsteins. Sú hét Ólöf. Þaðan er komin sú ætt er ágæst er í því landi er þeir kalla Götuskeggja.
Hér er lýsing á kortinu...