Kálfur Ásgeirsson gengur til fundar við Kjartan og spyr hvað hann ætlaði ráða sinna um sumarið.
Kjartan svarar: "
Það ætlaði eg helst að við mundum halda skipi okkru til Englands því að þangað er nú góð kaupstefna kristnum mönnum. En þó vil eg finna konung áður en eg ráði þetta til staðar því að hann tók lítt á um ferð mína þá er okkur varð um rætt á vori."
Síðan gekk Kálfur á brott en Kjartan til máls við konung og fagnar honum vel. Konungur tók honum með blíðu og spurði hvað í tali hefði verið með þeim félögum. Kjartan segir hvað þeir hefðu helst ætlað en kvað þó það sitt erindi til konungs að biðja sér orlofs um sína ferð.
Konungur svarar: "
Þann kost mun eg þér gera á því Kjartan að þú farir til Íslands út í sumar og brjótir menn til kristni þar annaðhvort með styrk eða ráðum. En ef þér þykir sú för torsóttleg þá vil eg fyrir engan mun láta hendur af þér því að eg virði að þér sé betur hent að þjóna tignum mönnum heldur en gerast hér að kaupmanni."
Kjartan kaus heldur að vera með konungi en fara til
Íslands og boða þeim trúna, kvaðst eigi deila vilja ofurkappi við frændur sína: "
Er það og líkara um föður minn og aðra höfðingja þá sem frændur mínir eru nánir að þeir séu eigi að strangari í að gera þinn vilja að eg sé í yðru valdi í góðum kostum."
Konungur segir: "
Þetta er bæði kjörið hyggilega og mikilmannlega."
Konungur gaf Kjartani öll klæði nýskorin af skarlati. Sömdu honum þau því að það sögðu menn að þeir hafi jafnmiklir menn verið þá er þeir gengu undir mál, Ólafur konungur og Kjartan.
Ólafur konungur sendi til
Íslands hirðprest sinn er Þangbrandur hét. Hann kom skipi sínu í Álftafjörð og var með Síðu-Halli um veturinn að Þvottá og boðaði mönnum trú, bæði með blíðum orðum og hörðum refsingum. Þangbrandur vó tvo menn þá er mest mæltu í móti. Hallur tók trú um vorið og var skírður þvottdaginn fyrir páska og öll hjón hans og þá lét Gissur hvíti skírast og Hjalti Skeggjason og margir aðrir höfðingjar. En þó voru þeir miklu fleiri er í móti mæltu og gerðist þá trautt óhætt með heiðnum mönnum og kristnum. Gerðu höfðingjar ráð sitt að þeir mundu drepa Þangbrand og þá menn er honum vildu veita forstoð. Fyrir þessum ófriði stökk Þangbrandur til
Noregs og kom á fund Ólafs konungs og sagði honum hvað til tíðinda hafði borið í sinni ferð og kvaðst það hyggja að eigi mundi kristni við gangast á
Íslandi. Konungur verður þessu reiður mjög og kvaðst það ætla að margir Íslendingar mundu kenna á sínum hlut nema þeir riðu sjálfir á vit sín.
Það sama sumar varð Hjalti Skeggjason sekur á þingi um goðgá. Runólfur Úlfsson sótti hann, er bjó í Dal undir Eyjafjöllum, hinn mesti höfðingi. Það sumar fór Gissur utan og Hjalti með honum, taka
Noreg og fara þegar á fund Ólafs konungs. Konungur tekur þeim vel og kvað þá hafa vel úr ráðið og bauð þeim með sér að vera og það þiggja þeir. Þá hafði Svertingur son Runólfs úr Dal verið í
Noregi um veturinn og ætlaði til
Íslands um sumarið. Flaut þá skip hans fyrir bryggjum albúið og beið byrjar. Konungur bannaði honum brottferð, kvað engi skip skyldu ganga til
Íslands það sumar. Svertingur gekk á konungs fund og flutti mál sitt, bað sér orlofs og kvað sér miklu máli skipta að þeir bæru eigi farminn af skipinu.
Konungur mælti og var þá reiður: "
Vel er að þar sé son blótmannsins er honum þykir verra."
Og fór Svertingur hvergi.
Var þann vetur allt tíðindalaust.
Um sumarið eftir sendi konungur þá Gissur hvíta og Hjalta Skeggjason til
Íslands að boða trú enn af nýju en hann tók fjóra menn að gíslum eftir: Kjartan Ólafsson, Halldór son Guðmundar hins ríka og Kolbein son Þórðar Freysgoða og Sverting son Runólfs úr Dal. Þá ræðst og Bolli til farar með þeim Gissuri og Hjalta.
Síðan gengur hann að hitta Kjartan frænda sinn og mælti: "
Nú er eg búinn til ferðar og mundi eg bíða þín hinn næsta vetur ef að sumri væri lauslegra um þína ferð en nú. En vér þykjumst hitt skilja að konungur vill fyrir engan mun þig lausan láta en höfum það fyrir satt að þú munir fátt það er á Íslandi er til skemmtanar þá er þú situr á tali við Ingibjörgu konungssystur."
Hún var þá með hirð Ólafs konungs og þeirra kvenna fríðust er þá voru í landi.
Kjartan svarar: "
Haf ekki slíkt við en bera skaltu frændum vorum kveðju mína og svo vinum."