Bolli gekk í móti þeim Ólafi og synir Ósvífurs og fagna þeim vel. Bolli gekk að Kjartani og minntist til hans. Kjartan tók kveðju hans. Eftir það var þeim inn fylgt. Bolli er við þá hinn kátasti. Ólafur tók því einkar vel en Kjartan heldur fálega. Veisla fór vel fram.
Bolli átti stóðhross þau er best voru kölluð. Hesturinn var mikill og vænn og hafði aldregi brugðist að vígi. Hann var hvítur að lit og rauð eyrun og toppurinn. Þar fylgdu þrjú merhryssi með sama lit sem hesturinn. Þessi hross vildi Bolli gefa Kjartani en Kjartan kvaðst engi vera hrossamaður og vildi eigi þiggja. Ólafur bað hann við taka hrossunum "
og eru þetta hinar virðulegstu gjafir."
Kjartan setti þvert nei fyrir, skildust eftir það með engri blíðu og fóru Hjarðhyltingar heim og er nú kyrrt. Var Kjartan heldur fár um veturinn. Nutu menn lítt tals hans. Þótti Ólafi á því mikil mein.
Þann vetur eftir jól býst Kjartan heiman og þeir tólf saman. Ætluðu þeir norður til héraða. Ríða nú leið sína þar til er þeir koma í Víðidal norður í Ásbjarnarnes og er þar tekið við Kjartani með hinni mestu blíðu og ölúð. Voru þar híbýli hin veglegstu. Hallur son Guðmundar var þá á tvítugs aldri. Hann var mjög í kyn þeirra Laxdæla. Það er alsagt að eigi hafi verið alvasklegri maður í öllum Norðlendingafjórðungi. Hallur tók við Kjartani frænda sínum með mikilli blíðu. Eru þá þegar leikar lagðir í Ásbjarnarnesi og safnað víða til um héruð. Kom til vestan úr Miðfirði og af Vatnsnesi og úr
Vatnsdal og allt utan úr Langadal. Varð þar mikið fjölmenni. Allir menn höfðu á máli hversu mikið afbragð Kjartan var annarra manna. Síðan var aflað til leiks og beitist Hallur fyrir. Hann bað Kjartan til leiks: "
Vildum vér frændi að þú sýndir kurteisi þína í þessu."
Kjartan svarar: "
Lítt hefi eg tamið mig til leika nú hið næsta því að annað var tíðara með Ólafi konungi. En eigi vil eg synja þér um sinnsakir þessa."
Býst nú Kjartan til leiks. Var þeim mönnum að móti honum skipt er þar voru sterkastir. Er nú leikið um daginn. Hafði þar engi maður við Kjartani, hvorki afl né fimleik.
Og um kveldið er leik var lokið þá stendur upp Hallur Guðmundarson og mælti: "
Það er boð föður míns og vilji um alla þá menn er hingað hafa lengst sótt að þeir séu hér allir náttlangt og taki hér á morgun til skemmtanar."
Þetta erindi ræmdist vel og þótti stórmannlega boðið. Kálfur Ásgeirsson var þar kominn og var einkar kært með þeim Kjartani. Þar var og Hrefna systir hans og hélt allmjög til skarts. Var þar aukið hundrað manna á búi um nóttina. Um daginn eftir var þar skipt til leiks. Kjartan sat þá hjá leik og sá á.
Þuríður systir hans gekk til máls við hann og mælti svo: "
Það er mér sagt frændi að þú sért heldur hljóður veturlangt. Tala menn það að þér muni vera eftirsjá að um Guðrúnu. Færa menn það til þess að engi blíða verður á með ykkur Bolla frændum, svo mikið ástríki sem með ykkur hefir verið allar stundir. Ger svo vel og hæfilega að þú lát þér ekki að þessu þykja og unn frænda þínum góðs ráðs. Þætti oss það ráðlegast að þú kvongaðist eftir því sem þú mæltir í fyrra sumar þótt þér sé eigi þar með öllu jafnræði sem Hrefna er því að þú mátt eigi það finna innanlands. Ásgeir faðir hennar er göfugur maður og stórættaður. Hann skortir og eigi fé að fríða þetta ráð. Er og önnur dóttir hans gift ríkum manni. Þú hefir og mér sagt að Kálfur Ásgeirsson sé hinn röskvasti maður. Er þeirra ráðahagur hinn skörulegsti. Það er minn vilji að þú takir tal við Hrefnu og væntir mig að þér þyki þar fara vit eftir vænleik."
Kjartan tók vel undir þetta og kvað hana vel mála leita. Eftir þetta er komið saman tali þeirra Hrefnu. Tala þau um daginn. Um kveldið spurði Þuríður Kjartan hversu honum hefði virst orðtak Hrefnu. Hann lét vel yfir, kvaðst kona þykja vera hin skörulegsta að öllu því er hann mátti sjá af. Um morguninn eftir voru menn sendir til Ásgeirs og boðið honum í Ásbjarnarnes. Tókst nú umræða um mál þeirra og biður Kjartan nú Hrefnu dóttur Ásgeirs. Hann tekur því máli líklega því að hann var vitur maður og kunni að sjá hversu sæmilega þeim er boðið. Kálfur er þessa máls mjög flýtandi: "
Vil eg ekki láta til spara."
Hrefna veitti og eigi afsvör fyrir sína hönd og bað hún föður sinn ráða. Er nú þessu máli á leið snúið og vottum bundið. Ekki lætur Kjartan sér annað líka en brullaup sé í
Hjarðarholti. Þeir Ásgeir og Kálfur mæla ekki þessu í mót. Er nú ákveðin brullaupsstefna í
Hjarðarholti þá er fimm vikur eru af sumri.
Eftir það reið Kjartan heim með stórar gjafir. Ólafur lét vel yfir þessum tíðindum því að Kjartan var miklu kátari en áður hann fór heiman.
Kjartan fastaði þurrt langaföstu og gerði það að engis manns dæmum hér á landi því að það er sögn manna að hann hafi fyrstur manna fastað þurrt hér innanlands. Svo þótti mönnum það undarlegur hlutur að Kjartan lifði svo lengi matlaus að menn fóru langar leiðir að sjá hann. Með slíku móti voru aðrir hættir Kjartans umfram aðra menn. Síðan gengu af páskarnir.
Eftir það láta þeir Kjartan og Ólafur stofna til veislu mikillar. Koma þeir norðan, Ásgeir og Kálfur, að á kveðinni stefnu og Guðmundur og Hallur og höfðu þeir allir saman sex tigu manna. Þeir Kjartan höfðu og mikið fjölmenni fyrir. Var sú veisla ágæt því að viku var að boðinu setið. Kjartan gaf Hrefnu að línfé moturinn og var sú gjöf allfræg því að engi var þar svo vitur eða stórauðigur að slíka gersemi hefði séð eða átta. En það er hygginna manna frásögn að átta aurum gulls væri ofið í moturinn. Kjartan var og svo kátur að boðinu að hann skemmti þar hverjum manni í tali sínu og sagði frá ferðum sínum. Þótti mönnum þar mikils um það vert hversu mikil efni þar voru til seld því að hann hafði lengi þjónað hinum ágætasta höfðingja, Ólafi konungi Tryggvasyni. En þá er boðinu var slitið valdi Kjartan góðar gjafir Guðmundi og Halli og öðru stórmenni. Fengu þeir feðgar mikinn orðstír af þessi veislu. Tókust góðar ástir með þeim Kjartani og Hrefnu.