Laxdæla Saga

46. kafli

Þeir Ólafur og Ósvífur héldu sinni vináttu þótt nokkuð væri þústur á með hinum yngrum mönnum. Það sumar hafði Ólafur heimboð hálfum mánuði fyrir vetur. Ósvífur hafði og boð stofnað að veturnóttum. Bauð þá hvor þeirra öðrum til sín með svo marga menn sem þá þætti hvorum mestur sómi að vera. Ósvífur átti þá fyrri boð að sækja til Ólafs og kom hann að á kveðinni stundu í Hjarðarholt. Í þeirri ferð var Bolli og Guðrún og synir Ósvífurs.

Um morguninn eftir ræddi kona ein um er þær gengu utar eftir skálanum hversu konum skyldi skipa í sæti. Það bar saman og Guðrún er komin gegnt rekkju þeirri að Kjartan var vanur að liggja í. Kjartan var þá að og klæddist og steypti yfir sig skarlatskyrtli rauðum.

Þá mælti Kjartan til konu þeirrar er um kvennaskipunina hafði rætt því að engi var annar skjótari til að svara: "Hrefna skal sitja í öndvegi og vera mest metin að gervöllu á meðan eg er á lífi."

En Guðrún hafði þó áður ávallt skipað öndvegi í Hjarðarholti og annars staðar. Guðrún heyrði þetta og leit til Kjartans og brá lit en svarar engu.

Annan dag eftir mælti Guðrún við Hrefnu að hún skyldi falda sér með motrinum og sýna mönnum svo hinn besta grip er komið hafði til Íslands. Kjartan var hjá og þó eigi allnær og heyrði hvað Guðrún mælti.

Hann varð skjótari til að svara en Hrefna: "Ekki skal hún falda sér með motri að þessu boði því að meira þykir mér skipta að Hrefna eigi hina mestu gersemi heldur en boðsmenn hafi nú augnagaman af að sinni."

Viku skyldi haustboð vera að Ólafs. Annan dag eftir ræddi Guðrún í hljóði til Hrefnu að hún skyldi sýna henni moturinn. Hún kvað svo vera skyldu. Um daginn eftir ganga þær í útibúr það er gripirnir voru í. Lauk Hrefna upp kistu og tók þar upp guðvefjarpoka en úr pokanum tók hún moturinn og sýndi Guðrúnu. Hún rakti moturinn og leit á um hríð og ræddi hvorki um löst né lof. Síðan hirti Hrefna moturinn og gengu þær til sætis síns. Eftir það fór þar fram gleði og skemmtan.

En þann dag er boðsmenn skyldu í brott ríða gekk Kjartan mjög um sýslur að annast mönnum hestaskipti, þeim er langt voru að komnir, og slíkan fararbeina hverjum sem hafa þurfti. Ekki hafði Kjartan haft sverðið konungsnaut í hendi þá er hann hafði að þessu gengið en þó var hann sjaldan vanur að láta það hendi firr ganga. Síðan gekk hann til rúms síns þar sem sverðið hafði verið og var þá á brottu. Hann gekk þegar að segja föður sínum þessa svipan.

Ólafur mælti: "Hér skulum vér fara með sem hljóðast og mun eg fá menn til njósnar í hvern flokk þeirra er á brott ríða."

Og svo gerði hann.

Án hinn hvíti skyldi ríða með liði Ósvífurs og hugleiða afhvarf manna eða dvalar. Þeir riðu inn hjá Ljárskógum og hjá bæjum þeim er í Skógum heita og dvöldust hjá skóginum og stigu þar af baki. Þórólfur son Ósvífurs fór af bænum og nokkurir aðrir menn með honum. Þeir hurfu í brott í hrískjörr nokkur á meðan þeir dvöldust hjá skóginum. Án fylgdi þeim til Laxár er fellur úr Sælingsdal og kvaðst hann þá mundu aftur hverfa. Eigi taldi Þórólfur mein á því þótt hann hefði hvergi farið. Þá nótt áður hafði fallið lítil snæfölva svo að sporrækt var. Án reið aftur til skógar og rakti spor Þórólfs til keldu einnar eða fens. Hann þreifar þar í niður og greip á sverðshjöltum. Án vildi hafa til vitni með sér um þetta mál og reið eftir Þórarni í Sælingsdalstungu og hann fór til með Áni að taka upp sverðið. Eftir það færði Án Kjartani sverðið. Kjartan vafði um dúki og lagði niður í kistu. Þar heitir Sverðskelda síðan er þeir Þórólfur höfðu fólgið konungsnaut. Var nú látið kyrrt yfir þessu en umgerðin fannst aldregi síðan. Kjartan hafði jafnan minni mætur á sverðinu síðan en áður. Þetta lét Kjartan á sig bíta og vildi eigi hafa svo búið.

Ólafur mælti: "Láttu þetta ekki á þig bíta. Hafa þeir sýnt ekki góðan prett en þig sakar ekki. Látum eigi aðra eiga að því að hlæja að vér leggjum slíkt til deilu þar er til móts eru vinir og frændur."

Og við þessar fortölur Ólafs lét Kjartan kyrrt vera.

Eftir þetta bjóst Ólafur að sækja heimboð til Lauga að veturnóttum og ræddi um við Kjartan að hann skyldi fara. Kjartan var trauður til og hét þó ferðinni að bæn föður síns. Hrefna skyldi og fara og vildi heima láta moturinn.

Þorgerður húsfreyja spurði: "Hvenær skaltu upp taka slíkan ágætisgrip ef hann skal í kistum liggja þá er þú ferð til boða?"

Hrefna svarar: "Margir menn mæla það að eigi sé örvæna að eg komi þar að eg eigi færri öfundarmenn en að Laugum."

Þorgerður segir: "Ekki leggjum vér mikinn trúnað á þá menn er slíkt láta fjúka hér í milli húsa."

En með því að Þorgerður fýsti ákaft þá hafði Hrefna moturinn en Kjartan mælti þá eigi í mót er hann sá hversu móðir hans vildi.

Eftir þetta ráðast þau til ferðar og koma þau til Lauga um kveldið og var þeim þar vel fagnað. Þorgerður og Hrefna selja klæði sín til varðveislu. En um morguninn er konur skyldu taka búnað sinn þá leitar Hrefna að motrinum og var þá í brottu þaðan sem hún hafði varðveitt og var þá víða leitað og fannst eigi. Guðrún kvað það líkast að heima mundi eftir hafa orðið moturinn eða hún mundi hafa búið um óvarlega og fellt niður. Hrefna sagði nú Kjartani að moturinn var horfinn. Hann svarar og kvað eigi hægt hlut í að eiga að gæta til með þeim og bað hana nú láta vera kyrrt, segir síðan föður sínum um hvað að leika var.

Ólafur svarar: "Enn vildi eg sem fyrr að þú létir vera og hjá þér líða þetta vandræði. Mun eg leita eftir þessu í hljóði því að þar til vildi eg allt vinna að ykkur Bolla skildi eigi á. Er um heilt best að binda frændi," segir hann.

Kjartan svarar: "Auðvitað er það faðir að þú mundir unna öllum hér af góðs hlutar. En þó veit eg eigi hvort eg nenni að aka svo höllu fyrir Laugamönnum."

Þann dag er menn skyldu á brott ríða frá boðinu tekur Kjartan til máls og segir svo: "Þig kveð eg að þessu Bolli frændi. Þú munt vilja gera til vor drengilegar héðan í frá en hingað til. Mun eg þetta ekki í hljóðmæli færa því að það er nú að margra manna viti um hvörf þau er hér hafa orðið er vér hyggjum að í yðvarn garð hafi runnið. Á hausti er vér veittum veislu í Hjarðarholti var tekið sverð mitt. Nú kom það aftur en eigi umgerðin. Nú hefir hér enn horfið sá gripur er fémætur mun þykja. Þó vil eg nú hafa hvorntveggja."

Þá svarar Bolli: "Eigi erum vér þessa valdir Kjartan er þú berð á oss. Mundi oss alls annars af þér vara en það að þú mundir oss stuld kenna."

Kjartan segir: "Þá menn hyggjum vér hér í ráðum hafa verið um þetta að þú mátt bætur á ráða ef þú vilt. Gangið þér þörfum meir á fang við oss. Höfum vér lengi undan eirt fjandskap yðrum. Skal nú því lýsa að eigi mun svo búið hlýða."

Þá svarar Guðrún máli hans og mælti: "Þann seyði raufar þú þar Kjartan að betur væri að eigi ryki. Nú þó að svo sé sem þú segir að þeir menn séu hér nokkurir er ráð hafi til þess sett að moturinn skyldi hverfa þá virði eg svo að þeir hafi að sínu gengið. Hafið þér nú það fyrir satt þar um sem yður líkar hvað af motrinum er orðið. En eigi þykir mér illa þó að svo sé fyrir honum hagað að Hrefna hafi litla búningsbót af motrinum héðan í frá."

Eftir þetta skilja þau heldur þunglega. Ríða þeir heim Hjarðhyltingar. Takast nú af heimboðin. Var þó kyrrt að kalla. Ekki spurðist síðan til motursins. Það höfðu margir menn fyrir satt að Þórólfur hefði brenndan moturinn í eldi að ráði Guðrúnar systur sinnar.

Þann vetur öndverðan andaðist Ásgeir æðikollur. Tóku synir hans þar við búi og fé.
Hér er lýsing á kortinu...