Vatnsdæla saga

13. kafli

Þenna tíma var sem mest sigling til Íslands og í það mund fæddi Vigdís barn. Það var sveinn. Sá var vænn mjög. Ingimundur leit á sveininn og mælti: "Sjá sveinn hefir hyggilegt augnabragð og skal eigi seilast til nafns. Hann skal heita Þorsteinn og mun eg þess vilnast að hamingja mun fylgja."

Sjá sveinn var snemma vænn og gervilegur, stilltur vel, orðvís, langsær, vinfastur og hófsmaður um alla hluti.

Son áttu þau annan. Sjá var og borinn að föður sínum og skyldi hann ráða fyrir nafni.

Hann leit á og mælti: "Þessi sveinn er allmikilfenglegur og hefir hvassar sjónir. Hann mun verða, ef hann lifir, og eigi margra maki og eigi mikill skapdeildarmaður en tryggur vinum og frændum og mun vera mikill kappi ef eg sé nokkuð til. Mun eigi nauður að minnast Jökuls frænda vors sem faðir minn bað mig og skal hann heita Jökull."

Hann óx upp og gerðist afreksmaður að vexti og afli. Hann var fálátur, ómjúkur og ódæll, harðúðigur og hraustur um allt.

Þórir hét hinn þriðji son Ingimundar skírgetinn. Hann var vænn maður og mikill vexti og hafði mjög á sér kaupmanns æði. Fjórði hét Högni, fimmti Smiður. Hann var frilluson. Þorsteinn var þeirra vitrastur allra bræðra. Þórdís hét dóttir Ingimundar, heitin eftir móður hans, önnur Jórunn.

Jörundur hét maður og var son Þóris jarls þegjanda, bróðir Vigdísar. Hann lýsir yfir því að hann mun fara til Íslands með Ingimundi, lét bæði til halda vingan og mágsemd. Ingimundur lést því vel kunna. Hvati hét maður og Ásmundur, þrælar Ingimundar. Þá hét maður Friðmundur, annar Þórir, þriðji Refkell, fjórði Úlfkell, fimmti Böðvar. Þessir menn bjuggu ferð sína til Íslands með Ingimundi og höfðu allir stórfé.
Hér er lýsing á kortinu...