Vatnsdæla saga

12. kafli

Haraldur konungur hinn hárfagri var nú kominn í fullan frið og kyrrsetu, er mestur hefir verið allra fornkonunga í Norðurlöndum. Hann minntist þá þess er hann hafði játtað vinum sínum og gerði þeim nú ríkulegar veislur með stórum sæmdum.

Hann bauð einkum Ingimundi og er hann kom tók konungur allvel við honum og mælti svo: "Þitt ráð spyrst mér á margan hátt sómasamlegt en þó skortir þig einn hlut, að þú ert kvonlaus, en þó hefi eg hugsað þér ráðakost. Var mér það í hug er þú lagðir líf þitt í hættu fyrir mitt líf. Dóttir Þóris jarls þegjanda heitir Vigdís. Hún er kvenna fríðust og með miklu fé. Því ráði mun eg þér í hendur koma."

Ingimundur þakkaði konungi og kvaðst fús vera þessa ráðahags. Konungur veitir veislu þessa með miklum ríkdóm og metnaði og fara menn heim. Eftir þetta efnar Ingimundur til brúðhlaupsgerðar og að því búnu kemur þar Haraldur konungur og mart annað stórmenni. Gengur Ingimundur að eiga Vigdísi eftir því sem stofnað var. Þetta brúðkaup var veitt með hinni mestu virðingu. Konungur lagði þar til mikinn kost í fégjöfum og annarri sæmd.

Ingimundur mælti til konungs: "Nú uni eg allvel við minn kost og stór heiður er að verða fyrir yðrum góðvilja en það stendur mér í hug er Finnan hefir mér spáð um ráðabreytni því að eg vildi að það sannaðist eigi að eg færi af ættjörðum mínum."

Konungur svarar: "Þar kann eg þó eigi af að taka nema það sé til nokkurs gert og vilji Freyr þar láta sinn hlut niður koma er hann vill sitt sæmdarsæti setja."

Ingimundur kvað sér fýst á að vita hvort hann fyndi hlutinn eða eigi þá er grafið væri fyrir öndvegissúlum hans: "Kann og vera að það sé eigi til engis gert. Er nú og eigi því að leyna herra að eg ætla að gera eftir Finnum þeim er mér sýni héraðsvöxt og landsskipan þar sem eg skal vera og ætla eg að senda þá til Íslands."

Konungur kvað hann það mega gera "en það hygg eg að þangað munir þú koma og er það ugglegt hvort þú ferð í lofi mínu eða leynist þú sem nú tekur mjög að tíðkast."

"Það mun mér aldrei verða," segir Ingimundur, "að eg fari í banni þínu."

Síðan skildu þeir konungur. Fór Ingimundur heim og sat að búm. Hann sendir eftir Finnum og komu norðan þrír.

Ingimundur segir að hann vill kaupa að þeim "og vil eg gefa yður smjör og tin en þér farið sendiferð mína til Íslands að leita eftir hlut mínum og segja mér frá landslegi."

Þeir svara: "Semsveinum er það forsending að fara en fyrir þína áskorun viljum vér prófa. Nú skal oss byrgja eina saman í húsi og nefni oss engi maður."

Og svo var gert. Og er liðnar voru þrjár nætur kom Ingimundur til þeirra.

Þeir risu þá upp og vörpuðu fast öndinni og mæltu: "Semsveinum er erfitt og mikið starf höfum vér haft en þó munum vér með þeim jarteinum fara að þú munt kenna land, ef þú kemur, af vorri frásögn en torvelt varð oss eftir að leita hlutinum og mega mikið atkvæði Finnunnar því að vér höfum lagt oss í mikla ánauð. Þar komum vér á land sem þrír firðir gengu af landnorðri og vötn voru mikil fyrir innan einn fjörðinn. Síðan komum vér í dal einn djúpan og í dalnum undir fjalli einu voru holt nokkur. Þar var byggilegur hvammur og þar í holtinu öðru var hluturinn. Og er vér ætluðum að taka hann þá skaust hann í annað holtið og svo sem vér sóttum eftir hljóp hann æ undan og nokkur hulda lá ávallt yfir svo að vér náðum eigi og muntu sjálfur fara verða."

Hann kvaðst þá og skyldu brátt fara og kvað eigi mundu stoða við að sporna. Vel gerði hann við Finna og fóru þeir braut en hann settist um kyrrt að búm sínum og var vel auðigur að fé og góður drengur.

Síðan hitti hann konung og sagði honum sína meðferð og fyrirætlan. Konungur kvað sér slíkt eigi á óvart koma og sagði óhægt að gera við ákveðnu.

Ingimundur kvað það satt "og hefi eg nú alls í leitað."

Konungur mælti: "Hvar landa sem þú ert muntu sæmdarmaður vera."

Konungur fékk honum enn sem fyrr nokkurn sæmdarhlut.

Eftir það gerði Ingimundur veislu og bauð til vinum sínum og höfðingjum með miklum ríkdóm og að þeirri veislu kvaddi hann sér hljóðs og mælti: "Ráðabreytni hefi eg ætlað fyrir mér og hygg eg mig fara munu til Íslands meir af forlögum og atkvæði rammra hluta en fýsi. En það er heimilt þeim er fara vilja með mér. Hinum er og leyfilegt eftir að vera er það vilja og jafnkomnir eru hvorirtveggju vorir vinir hvort sem heldur vilja kjósa fyrir sig."

Mikill rómur varð að máli hans og sögðu mikinn skaða að slíks manns brottferð "en þó er fátt sköpum ríkara."

Urðu og þess margir búnir að fara með Ingimundi þeir er mikils voru virðir, bæði bændur og lausir menn.
Hér er lýsing á kortinu...