Vatnsdæla saga

11. kafli

Það sumar er þeir bræður fóru til Íslands þá fór Ingimundur til föður síns og var með honum. Þorsteinn faðir hans tók þá að eldast.

Og eitt sinn mælti Þorsteinn til Ingimundar: "Gott er nú að deyja og vita son sinn slíkan hamingjumann. Uni eg því best við ævi mína að eg hefi verið engi ágangsmaður við menn. Er og líkast að með þeim enda slitni ævi mín því að eg kenni nú sóttar. Nú vil eg þér frændi í kunnleika gera fjárfar mitt hvert er en eigi þykir mér kynlegt þótt þér svífi af þessum ættjörðum og læt eg mér eigi að því þykja."

Ingimundur kvaðst hug mundu á leggja að breyta eftir hans fyrirsögn. Þorsteinn kvaðst ætla að Ingimundur mundi þykja þar mikilmenni sem hann byggði hvar sem hann væri. Þorsteinn segir honum þá marga hluti fyrir og brátt eftir það andaðist hann. Var honum þá veittur sæmilegur umbúnaður eftir fornum sið. Ingimundur tók við fjárforráðum og öllum eignum. Ætlaði hann þar að nema yndi og settist nú um kyrrt.
Hér er lýsing á kortinu...