Vatnsdæla saga

4. kafli

Eftir þessi tíðindi ríður Þorsteinn heim og er hann nálgaðist bæinn sá hann marga menn ríða í mót sér og kenndi þar föður sinn og marga kunningja og fóru allir hans að leita.

Og er þeir fundust kvaddi Ketill son sinn með blíðum orðum og þóttist hann úr helju heimtan hafa "og iðraðist eg þegar eftir þeirra orða er eg mælti við þig til frýju eða áleitni."

Þorsteinn svarar og kvað hann lítt hafa fyrir séð hvort hann kæmi nokkurn tíma aftur eða aldrei en kvað hamingjuna hafa styrkt nú svo sitt mál að hann hafði heill aftur komið.

En þótt þeir kasti þessum orðum fram með nokkurri styggð þá urðu þeir brátt vel sáttir. Segir Þorsteinn nú föður sínum allan atburð sinnar ferðar. Fyrir þetta verk fékk Þorsteinn góðan orðstír af hverjum manni sem von var. Síðan lætur Þorsteinn þings kveðja og komu þar allir byggðarmenn úr þeim héruðum.

Á þessu þingi stóð Þorsteinn upp og mælti: "Það er öllum yður kunnigt að gera að ótti sá er á hefir legið hér um hríð af stigamönnum að menn máttu eigi fara ferða sinna, hann er nú af ráðinn og endaður. Er það og mest undir þessi minni þingstefnu að eg vil að hver taki sitt fé það er átt hefir en eg mun það eignast er af gengur."

Hér að var ger góður rómur af mönnum og fékk Þorsteinn virðing mikla með öllu sínu tiltæki. Nafn illvirkjans vissi eigi alþýða manna af því að það var lítt á loft borið.
Hér er lýsing á kortinu...