Vatnsdæla saga

5. kafli

Það var einn dag að Þorsteinn talar við föður sinn að hann mundi fara austur á fund Ingimundar jarls sem hann hefði heitið Jökli.

Kvað Ketill það eigi ráðlegt að ganga í hendur óvinum sínum og bað hann heldur heima vera "og þó að jarl vilji eigi granda þér þá má þó vera að nokkurir verði þér ágangsamir og eigi góðviljugir."

Þorsteinn svarar: "Því hefi eg heitið Jökli sem eg skal enda og þótt eg beri þaðan hvorigan fót heilan þá skal eg þó fara."

Síðan bjóst Þorsteinn og fór til Gautlands og hélt svo til að hann kom til heimilis jarls snemma dags. Jarl var farinn á veiðar að ríkra manna sið. Þorsteinn gekk inn í eina drykkjustofu og settist í bekk með föruneyti sínu. Þá kom kona jarls í stofuna og leit þá er komnir voru og sá að vera mundu útlendir menn. Hún spurði að hverjir þeir væru.

Þorsteinn kvaðst norrænn vera "en eg á leynt erindi við þig og göngum tvö saman."

Hún gerði svo.

Þá mælti Þorsteinn: "Tíðindi hefi eg að segja þér, víg Jökuls sonar þíns."

Hún svarar: "Þau mega mér mikil þykja en eigi ólíkleg fyrir sakir hans tiltektar og vondrar athafnar. En hvað skyldir þig til að segja þessa harmsögu og fara til langan veg?"

Þorsteinn svarar: "Mikið dregur mig til þess. Eg hét honum með trúnaði að okkrum skilnaði að eg mundi á yðvarn fund fara og segja satt í frá okkrum skilnaði. Er því eigi að leyna að eg varð hans banamaður því að ófært þótti vorum mönnum að sitja undir hans hendi sakir manndrápa og férána, en þó, þér að segja í trúnaði, kom eg á hans vald og átti hann kost að drepa mig ef hann vildi en hann gaf mér líf og lagði það á við mig að eg skyldi á þinn fund fara að hans orðsendingu, og sjá máttu að hægra væri heima en hætta á yðra miskunn. Nú hefi eg hér gull er hann kvað yður mundu við kannast og bað mig það bera til jarteina að þú kæmir mér í sætt við jarl með þeirri umleitan að eg fengi dóttur ykkra mér til konu er Þórdís heitir. Hann kvaðst og vænta að meira mundir þú virða sending hans og tilskipun en tilverknað minn."

Vigdís roðnaði við mjög og mælti: "Djarfur maður muntu vera en það hygg eg að þú segir sannindi af ykkrum fundi og ef Jökull gaf þér líf þá væri það mitt ráð að þú fengir það því að þú ert giftuvænlegur maður að sjá. En fyrir bænarorð Jökuls sonar míns mun eg byrja mál þitt við jarl en þú ver í leynum fyrst."

Og er jarl kom heim þá gekk drottning á fund hans og mælti: "Tíðindi er yður að segja þau er bæði okkur henda."

Jarl svarar: "Þú munt segja dauða Jökuls sonar míns."

Hún kvað það satt vera.

Jarl mælti: "Eigi mundi hann sóttdauður verða."

Hún svarar: "Það er satt að hann var veginn og sýndi hann áður mikinn drengskap. Hann gaf þeim manni líf er það gerði og sendi hann hingað á vort vald með sönnum jarteinum að þú gæfir honum grið og upp sakirnar þó að miklar séu. Verða mætti þér og styrkur að manninum ef þú efldir hann með mægðum og gjaforði dóttur þinnar eftir tilskipan Jökuls. Hefir hann og ætlað að þú mundir nokkurs virða hans síðustu bæn. Máttu og sjá hversu trúlyndur þessi maður hefir verið í sínum heitum þar sem hann fór hingað í ófriðarstað frá eignum sínum í hendur oss. Nú vænti eg fyrir minn flutning en sonar þíns orðsending að þú munir gera sem eg beiði og lítið hér á jarteinir."

Hún sýnir honum þá gullið.

Jarl blés þá við mæðilega og mælti: "Mart hefir þú mælt og mjög djarflega að eg mundi þeim manni gera sæmd er drepið hefir son minn og væri sjá maður heldur dauða verður en vingjafa."

Drottning mælti: "Á hitt er að líta herra hvað í er að virða orð Jökuls og dyggð mannsins að ganga á vald þitt. Í annan stað aldur þinn mikinn að þú þarft forstjóra fyrir þér og mun sjá maður þar vel til fallinn. Nú svo sem Jökull gaf honum líf og átti áður alls kosti við hann og sótti sjá maður giftu til hans, svo óvænlega sem hann stefndi, þá er og einsætt að eigi förum vér þeim sigri eða hamingju manns þessa en drengilegu úrræði sonar okkars og er það mikill sigur að haga svo sem Jökull gerði að gefa þeim líf er þvílíkar sakir hefir við oss gert og er það hin mesta skömm að gera honum nú mein þar sem hann er kominn á vort traust."

Jarl mælti: "Allmjög fylgir þú þessum manni og hefir þér vel á hann litist og fyrir víst vil eg sjá hann og virða fyrir mér hver slægur mér þykir í vera og mun honum það miklu skipta hvern veg mér virðist hann fyrir augum."

Síðan var Þorsteinn fram leiddur og stóð hann fyrir jarli en drottning hafði svo til stillt að honum var runnin hin mesta reiði.

Þorsteinn mælti: "Allt er nú herra jarl á yðru valdi um minn hag. Er yður nú og kunnigt hvað erindum eg hefi hingað haft. Vil eg og biðja yður til sætta en kvíða engu hvað þér viljið gert hafa. Er það og höfðingja siður að veita þeim líf er sjálfkrafa ganga upp á þeirra náð."

Jarl mælti: "Svo líst mér á þig sem eg muni gefa þér líf. Mun það nú og vænst til sonarbóta að þú gangir í sonar stað ef þú vilt með mér vera því að hamingjumót er á þér. Er það og eigi stórmannlegt að stríða þeim er á vald manns gengur."

Þorsteinn þakkar jarli lífgjöfina og var hann þar um hríð og könnuðust menn hugi við. Jarl fann brátt að Þorsteinn var vitur maður og merkilegur í öllum háttum.

Það var eitt sinn að Þorsteinn mælti til jarls: "Nú vil eg vita hvers af er kostur um mægðirnar við yður herra."

Jarl svarar: "Eigi vil eg því afneita því að vera má að það sé til hamingju vorrar ættar en það vil eg þú sért með oss."

Þorsteinn mælti: "Því vil eg játa og kunna þökk að vera hér meðan þér lifið en eigi munu menn unna mér hér metorða eftir þinn dag og verður hver eftir sínum forlögum að leita."

Jarl kvað líklega slíkt mælt.
Hér er lýsing á kortinu...