Litlu síðar reið Þorsteinn heim og segir föður sínum alla ráðastofnan og bað hann til ferðar og svo gerði Ketill. Jarl bjó veislu en Þorsteinn sótti til með Raumdæla og mörgu stórmenni en veislan var prýdd góðum tilföngum. Gekk hún út með hinni mestu sæmd og stórum fégjöfum og skildust þeir jarl og Ketill með hinni mestu vináttu. Þorsteinn var eftir með konu sína. Jafnan frétti Þorsteinn vingjarnleg orð til sín frá jarli. Brátt voru ástir góðar með þeim Þorsteini og Þórdísi.
Þess er getið eitt kveld að menn komu til jarls með þeim tíðindum að þeir sögðu lát Ketils raums og það með að menn vildu að Þorsteinn færi aftur til áttjarða sinna og ríkis. Þorsteinn bar þetta mál fyrir konu sína og jarl. Hún bað hann fyrir sjá og kvaðst því vilja að fylgja sem hann vill. Honum kvaðst mest í hug að fara heim, taldi það síst öfundareyri og allir mundu honum þar best sæmdar unna. Þessu ráði samþykkti og jarl og kvað líklegt að heima mundi honum auðið verða framgangs heldur en hjá ókunnu fólki.
Brátt eftir þetta tók jarl sótt. Hann heimti til sín Þorstein mág sinn og svo dóttur sína og mælti: "Búið nú ferð yðra svo héðan í braut að það sé með mikilli sæmd í fjárhlutum og mega frændur vorir því þó vel una að þeim sé hér ríki allt upp gefið í landi með því öllu sem hér fylgir. En ef ykkur verður sonar auðið látið hann hafa mitt nafn."
Þorsteinn kvað svo vera skyldu en því kvaðst hann eigi eftir jarls tign leita að frændur hans voru ótignir.