Kjalnesinga saga

6. kafli

Þetta sama haust sem nú var frá sagt kom skip af hafi. Stýrimaður hét Örn, víkverskur að ætt. Örn stýrimaður fór til vistar í Kollafjörð. En er Austmaður hafði þar eigi lengi verið leiddi hann augum til hversu fögur Ólöf var Kolladóttir. Tók hann þá í vana að sitja á tali við hana hvern dag. Kolli hafði prúð híbýli. Vildi hann þá og halda til gleði sakir stýrimanns. Lét hann þá efla til leika. En er það spurðu ungir menn um sveitina þá drifu þeir til og urðu þar leikar fjölmennir.

Esja kom brátt að finna Búa fóstra sinn og sagði dráp föður hans. Ekki brá Búi sér við það, kvað falls von að fornu tré.

Þess er nú getið að einn dag kom Esja að finna Búa. Hann spurði þá hvað hún hefði honum að segja í nýjungu.

Hún kvað leika lagða í Kollafirði "en hitt er meira," sagði hún, "að Örn stýrimaður situr á tali við Ólöfu hina vænu hvern dag og ætla menn að hann muni glepja hana."

Búi mælti: "Hún skyldi fá gott forlag."

Ejsa mælti: "Allvesalmannlega koma þér stundum orð upp þar sem eg hefi þér þessa konu ætlað. Nú vil eg að þú gangir til leika þangað og hættir svo lífi þínu. Ekki má varðveita þig þannig ef þér er dauði ætlaður."

Búi kvað hana ráða skyldu.

Eftir um morguninn gekk Búi til leiks í Kollafjörð. Hann kom heldur síð og var tekið til leiksins. Hinn sama hafði hann búning, gyrt að sér slöngu sinni. Ólöf sat á palli og Örn stýrimaður á aðra hönd henni og töluðust þau við. Búi gekk að palli og kippti upp þeim tveim er sátu á aðra hönd Ólöfu. Síðan settist hann niður og sat þar þann dag, gekk heim um kveldið í helli sinn. Svo breytti hann annan dag og hinn þriðja. Örn austmaður hélt hætti sínum en hvorgi talaði svo við Ólöfu að eigi heyrði annar.
Hér er lýsing á kortinu...