Vatnsdæla saga

16. kafli

Þá er Ingimundur hafði búið nokkura hríð að Hofi lýsir hann utanferð sinni að sækja sér húsavið því að hann kvaðst vel vilja sitja bæ sinn og kvaðst vænta að Haraldur konungur mundi honum vel taka. Vigdís segir hann vænan til góðs. Hann setti menn yfir féforráð sín með Vigdísi. Ingimundur hafði bjarndýrin með sér. Honum fórst greitt og kom við Noreg. Hann hélt fréttum til Haralds konungs. Var allt kyrrt í landi. Og er hann fann Harald konung þá var honum vel fagnað. Bauð konungur honum með sér að vera og það þá Ingimundur. Hann var um veturinn með mikilli sæmd haldinn af konungi.

Konungur spurði hvernig honum hugnuðu landakostir.

Hann lét vel yfir "en það er mitt erindi mest að afla mér húsaviðar."

Konungur mælti: "Það er vel gert. Er þér og heimil vor mörk sem þú vilt höggva láta en eg mun láta til skips færa og skaltu engan hlut um það annast og ver með mér."

Ingimundur mælti: "Hér máttu sjá herra bjarndýri er eg náði á Íslandi og vildi eg að þú þægir af mér."

Konungur svarar: "Eg vil víst þiggja og kunna þökk fyrir."

Þeir skiptust mörgum gjöfum við um veturinn og er voraði var búið skip Ingimundar með farmi þeim er hann kaus og því viðarvali er best fékk.

Konungur mælti: "Eg sé það Ingimundur að þú munt eigi sjálfur ætla oftar að fara til Noregs. Nú þyrftir þú að hafa svo mikinn við að þér nægði en það má eigi eitt skip bera. Nú er hér að líta á nokkur skip. Kjós hér af hvert er þú vilt."

Ingimundur mælti: "Kjósið herra mér til handa. Það mun mestri giftu stýra."

"Svo skal og vera, mér er kunnast um. Hér er skip er Stígandi heitir er vér köllum bíta í siglingu, allra skipa best og farsælla en hvert annarra og það mun eg kjósa þér til handa. Skipið er frítt og eigi mikið."

Ingimundur þakkar konungi gjöfina. Síðan fór hann af konungs fundi með mörgum vingjöfum. Hann sér brátt hversu fljótt skip Stígandi var.

Þá mælti Ingimundur: "Vel hefir konungur mér skip valið og það má rétt heita Stígandi er svo les hafið."

Þeir komu við Ísland og sigldu fyrir norðan og svo vestur fyrir. Það höfðu engir áður gert. Ingimundur kom báðum skipunum í Húnavatnsós og gaf þar öll örnefni er síðan hafa haldist. Þar heitir Stígandahróf er hann var upp settur.

Þetta spyrst nú víða, útkoma Ingimundar, og létu allir vel yfir því er hann kom heim. Ingimundur átti ágætt bú með nógum efnum. Hann bætti nú mikið bæ sinn því að efnin voru nóg. Hann fékk sér og goðorð og mannaforráð.

Jörundur háls er annar maður var mestur sá er út kom með Ingimundi, hann nam sér land að ráði Ingimundar mágs síns fyrir utan Urðarvatn og til Mógilslækjar og bjó á Grund út frá Jörundarfjalli í Vatnsdal og var mikill maður fyrir sér sem ætterni hans var til. Már hét son hans er bjó á Mársstöðum í Vatnsdal, virðulegur maður. Þeir óxu upp samtíðis og Ingimundarsynir. Þá gerðist fjölbyggður dalurinn.

Hvati hét maður er út kom með Ingimundi. Hann nam land frá Mógilslæk til Giljár.

Ásmundur nam land út frá Helgavatni og um Þingeyrasveit.

Sauðadalur liggur fyrir austan Vatnsdal en þá Svínadalur og er þar í Svínavatn og Beigaðarhóll.

Þórólfur hét maður og var kallaður heljarskinn. Hann nam land í Forsæludal. Hann var ójafnaðarmaður mikill og óvinsæll. Hann gerði margan óskunda og óspekt í héraðinu. Hann gerði sér virki suður við Friðmundará skammt frá Vatnsdalsá við gjá eina og gekk nes í milli gjárinnar og árinnar en hamar stór fyrir framan. Grunaður var hann um það að hann mundi blóta mönnum og var eigi sá maður í dalnum öllum er óþokkasælli væri en hann.

Á Hvatastöðum hét þar er Hvati bjó en Ásmundur að Gnúpi.

Óttar hét maður er bjó í Grímstungum. Hann átti Ásdísi dóttur Ólafs frá Haukagili. Þeirra son var Hallfreður vandræðaskáld en dóttir hans hét Valgerður, ofláti mikill og væn að sjá.
Hér er lýsing á kortinu...