Vatnsdæla saga

18. kafli

Hrolleifur hét maður og var kallaður hinn mikli. Hann kom út í Hvítá og móðir hans er Ljót hét. Lítt var hún lofuð að skaplyndi og ein var hún sér í lýsku og var það líklegt því að hún var fám góðum mönnum lík. Son hennar var henni mjög líkur í skapsmunum. Hrolleifur var bróðurson Sæmundar fóstbróður Ingimundar. Þau fóru á fund hans til Skagafjarðar og sögðu honum deili á sér og sögðu hann frænda sinn.

Sæmundur svarar og kvaðst eigi mega dylja frændsemi við Hrolleif "en það er mitt hugboð að verr sé þér fengið móður en föður og mjög er eg hræddur um að þú sért meir í hennar ætt en föðurfrænda."

Hrolleifur kvað sér annað hallkvæmra en illar getur. Sæmundur kvaðst mundu veita þeim veturvist. Hrolleifur var allra manna sterkastur og fór illa með afli sínu við sér minni menn. Var hann glettinn og ágangssamur og launaði illu gott með ráði móður sinnar. Hann var illa við Geirmund son Sæmundar, bæði í leikum og í öðrum hlutum og gerðist fæð á með þeim frændum.

Eitt sinn mælti Geirmundur til föður síns: "Þessi frændi okkar leggur fram vistarlaun þau sem hann mun nægst til hafa en öðrum séu óhaldkvæm, það er heitan og harðyrði með óþyrmilegum meðferðum. Hafa sumir hlotið af honum beinbrot eða önnur meiðsl og engum hlýðir um að tala."

Sæmundur kvað hann víst verr launa vistina en stofnað var "og má eigi um það hræfa lengur."

Hrolleifur kvað það skammsamlegt að krikta um smáhluti en rækja eigi ættmenn sína: "Nenni eg víst eigi að ölmusur sparki í andlit mér."

Sæmundur mælti: "Svo muntu kalla en meir hefir þú skapsmuni Ljótar móður þinnar, sem mig grunaði, en vor frænda. Nú hefi eg hugað þér landakosti og bústað út á Höfðaströnd fyrir utan Höfða út frá Unadal. Væri það mitt ráð að þú vægðir við þá er þar búa næstir þér, Þórð bónda í Höfða og Una í Unadal eða aðra byggðarmenn, og bið þér byggðarleyfis."

Hann kvaðst ætla að hann mundi eigi skríða undir skegg þeim.

Hrolleifur fór út í dalinn og móðir hans og bjuggu þar. Síðan er þar kallaður Hrolleifsdalur. Þau vinguðust lítt við menn, komu þar fram hót eða heitan og sýndu búum sínum óþokkasvip í öllum búsifjum. Brátt tóku menn að hatast í móti og þótti Sæmundur hafa sent þeim illt rekald. Þeim þótti í fyrstu ógott að mæla í móti er hann var frændi Sæmundar. En nú er mönnum tók að kynnast þeirra skaplyndi vildu menn færa þau í brottu og aldrei hefðu þau komið.

Uni var auðigur maður og átti þann son er Oddur hét. Hann var vel frumvaxta. Dóttir hans hét Hróðný. Hún var fríð kona og vinnugóð.

Hrolleifur fór brátt á fund Una og kvað eigi vera mega kátt eða glatt í dalverpi því þótt menn hefðu það til skemmtanar sem mætti: "Nú kalla eg vel sama," sagði hann, "að við festum mágsemd með okkur og eigi eg dóttur þína. Má vera að þá batni búsifjar vorar."

Uni kvað hann eigi mundu skaplyndi til þess eiga að fá góðrar konu "og eigi sýnir þú það af þér. En dóttir mín er eigi ógiftusamleg kona og mun eg synja þér ráðsins."

Hrolleifur kvað hann þá það upp taka sem óráðlegra var "og skal hún þá vera frilla mín og er henni þó fullkosta."

Síðan vandi Hrolleifur þangað göngur sínar og settist á ræður við Hróðnýju. Fór því fram um hríð að óvilja frænda hennar.
Hér er lýsing á kortinu...