Vatnsdæla saga

19. kafli

Það var eitt sinn að Hrolleifur bjóst heim að fara að Uni mælti við Odd son sinn: "Eigi sýnist mér meðalatferðarleysi í er vér höfum ekki að um komur þessa manns og hættum vér oss meir á unga aldri þá er eg barðist við Kolbein og hafði eg hinn hærra hlut og er hann höfðingi og mikils ráðandi en sjá gengur einn til að vinna oss ósæmd."

Oddur kvað eigi hóglegt við heljarmann þann en við fjölkynngi móður hans: "Segja menn að hann hafi kyrtil þann er eigi bíta vopn á. Nú mun eg hitta Hrolleif fyrst."

Og svo gerði hann. Þeir fundust uppi á fjallinu milli dalanna.

Oddur mælti: "Það er þér tíðast að ganga jafnan þessa stígu en oss þætti betur að þú færir eigi svo oft."

Hrolleifur svarar: "Síðan eg var níu vetra hefi eg jafnan sjálfráði verið ferða minna og svo mun enn. Skal eg þín orð einkis virða hér um og þykir mér sem ekki torfæri sé á leið minni þóttú lafir á stígum."

Oddur kvað svara mega betur.

Hrolleifur kom heim og sagði móður sinni að hann mundi nú taka þræl af verki "og fari hann með mér húsgöngur því að þeir taka næsta að amast við mig."

Ljót svarar og kvað þræl eigi mega þarfara vinna en fylgja honum "og hirtu eigi um læti þeirra kotkarla og far í kyrtil þinn þegar þú vilt og vit hversu dugir."

Síðan fann Oddur föður sinn og sagði að hann vill finna Sæmund og segja honum til málsins. Uni kvað sér illa líka öll frestin þau sem á yrðu.

Oddur fór á fund Sæmundar og mælti: "Ill sending hefir komið til vor af þínu tilstilli þar sem er Hrolleifur frændi þinn og sitjum vér honum marga svívirðing og göngum því eigi frekt að að hann er þinn frændi."

Sæmundur kvað sér það eigi á óvart koma "og væri eigi illa þótt slíkir menn væru af ráðnir."

Oddur kvaðst ætla að honum mundi eigi svo þykja ef það yrði gert "en þar er þó sá maður er við alla vill illt eiga og virða menn þig til að eigi er að gert."

Oddur fór heim.

Uni mælti: "Svo þykir mér sem Hrolleifur láti eigi af sínum ferðum og þætti mér til þín koma Oddur frændi því að þú ert nú maður ungur og til alls vel fær en eg er örvasi fyrir aldurs sakir. Nú þótt hann sé harður maður en móðir hans margkunnig þá má þó eigi svo búið vera."

Oddur svarar og kvaðst mundu í leita nokkurs.

Eitt kveld bjóst Oddur við fimmta mann í fyrirsát við Hrolleif en þeir fóru tveir saman og spratt Oddur upp og mælti: "Nú má vera að stöðvist ferð þín að sinni Hrolleifur. Mætti og verða að nú settist illska þín og vefjist þér um fætur."

Hrolleifur kvað enn ósýnt hver mest mætti fagna að þeirra skilnaði "þótt þér séuð fjölmennari en eg. Ætla eg nú eigi illa þótt einhverjum blæði."

Síðan hlupust þeir að og börðust. Hrolleifur var harður maður og af reyndur af afli. Hann hafði og kyrtil þann er móðir hans hafði gert honum og eigi festi járn á.

Nú er frá því að segja að Oddur vó Ljót fylgdarmann Hrolleifs en gekk síðan mót Hrolleifi og mælti: "Illa bíta þig vopnin Hrolleifur og alls konar er þér illa farið, bæði fjölkunnigur og þó að öðru illa siðaður."

Síðan slæmdi Oddur á fót Hrolleifi og beit þar er kyrtillinn tók eigi.

Þá mælti Oddur: "Eigi hlífði þér nú gerningastakkurinn."

Hrolleifur hjó þá til Odds og veitti honum banasár og annan mann til drap hann en þrír komu á flótta.

Það var síð um kveld upp frá bæ Una. Hrolleifur kom heim og sagði móður sinni að þeim hefði illa vegnað er í mót voru. Hún lét vel yfir því að eigi réðu búkarlar eða synir þeirra ferðum hans, þeir er sættu illyrðum við hann.

Hrolleifur kvaðst nú hafa launað Oddi það "er hann hrakti mig mest og kvað mig að öllu ósamjafnan dugandi mönnum en eg spáði honum það sem nú er fram komið að vaxa mundi hans svívirðing af okkrum fundi sem nú gafst honum."
Hér er lýsing á kortinu...